138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:52]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki rétt hjá hv. þingmanni að ég geri kröfu um það að aðrir þingmenn séu sammála mínu mati. Ég er einfaldlega að benda á það að eftir því sem ákvæðin sem á að byggja á eru matskenndari þeim mun meira ber að varast þau.

Spyrjum okkur t.d. þessarar spurningar: Hvers vegna lá það ekki fyrir um leið og rannsóknarnefndin hafði skilað skýrslu sinni að höfðað yrði refsimál gegn fyrrverandi ráðherrum vegna þeirrar ábyrgðar sem þeir báru? Hvers vegna ekki? Hvers vegna var það ekki öllum ljóst um leið og skýrslan birtist að hér höfðu verið framin lögbrot sem þyrfti að krefjast refsiábyrgðar vegna? Ég man ekki eftir að nokkur einasti þingmaður hafi — jú, kannski ætla ég að gefa hv. þingmönnum Hreyfingarinnar það að þeir kölluðu strax eftir landsdómi. En ég man ekki eftir því að aðrir þingmenn og sérstaklega flutningsmenn þessara tillagna hér hafi þá strax komið fram og sagt: Hér hefur augljóslega verið framið brot.

Dugar þetta ekki til að sýna mönnum fram á hversu matskennt þetta allt saman er? Það er svo augljóst að brotin sem hér er verið að ræða um eru afar matskennd og sérstaklega ákvæðin sem byggt er á.

Um það að einhver sérstök ástæða sé til þess að fylgja þessu eftir með þeim hætti sem hér er lagt til, að við höfum verið sammála um það í þinginu að senda þetta inn í þingmannanefnd. Það er eitt að ákveða að senda málið til frekari skoðunar. Það er síðan önnur og sérstök ákvörðun að hverfa frá þeirri aldargömlu venju að byggja ekki á svona matskenndum atriðum þegar verið er að virkja ráðherraábyrgðarlögin.

Ég hef aldrei tekið þátt í að lofa að víkja af þeirri braut sem hér hefur verið mörkuð í 100 ár með því að málið fari til sérstakrar skoðunar, það er algjörlega fráleitt að halda því fram.