138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[16:57]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Um það sem hv. þingmaður rakti hér í lokin, þá er auðvitað á því byggt í þessum ákærum sem við erum að ræða að það þurfi ekki að sýna fram á nein orsakatengsl við hrunið þannig að það skiptir í sjálfu sér engu máli hvort hér hafi orðið hrun eða ekki vegna þess að það er hættan sem byggt er á í þessum tillögum.

Að öðru leyti finnst mér hv. þingmaður gera mjög mikið úr því að með því að málið hafi verið sent til þingmannanefndar hljóti menn að vilja fylgja þeirri niðurstöðu sem nefndin komst að. Þar erum við einfaldlega ósammála. Ég tel að meiri hluti nefndarinnar hafi dregið rangar ályktanir af rannsóknarskýrslunni og mögulegum brotum á grundvelli ráðherraábyrgðarlaganna miðað við það mál sem hér liggur fyrir. Það er nú ekki lítið sem búið er að fara yfir það lið fyrir lið, hvern og einn einasta kærulið, hvert og eitt einasta atriði sem snýr að réttarfari og refsiréttarlöggjöfinni. Síðan er ég bara að reyna að opna umræðuna um þessi almennu atriði.

Hv. þingmaður gerði mjög veikburða tilraun til að halda því fram að brotin sem ég vék að og má færa á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar séu einhvers annars eðlis en þau sem hér eru í ákærunum. Ég tel að það sé alveg augljóst að telji menn þetta vera brot sem fjallað er um í þingsályktunartillögunum hafi núverandi ríkisstjórn líka brotið af sér, ég tel það augljóst. Hættan var til staðar, hún var til staðar. Ég var kallaður á fund upp í Stjórnarráð þar sem mér var sagt að hætta væri til staðar á hruni. Hættan var fyrirsjáanleg, hún var fyrirsjáanleg vegna þess að mál hafði verið höfðað og beðið var eftir dómi Hæstaréttar.

Í þriðja lagi liggur fyrir, eins og menn vilja meina að eigi við í þessu máli, að ekki neitt hafi verið gert í málinu og þar með hafi brotið verið framið, ekki satt?

Vilja menn fara inn á þessa braut? Ég er ekki að hóta einu eða neinu. Ég er bara að benda á fordæmi sem þeir sem styðja þetta mál eru að skapa.