138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:07]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég hef áður mært þingmannanefndina fyrir góð störf við skýrsluhlutann. Nefndin skilaði ákaflega góðri og vandaðri skýrslu um helstu úrlausnarefni í íslensku samfélagi í kjölfar bankahrunsins. Ég ætla líka að hrósa þingmannanefndinni fyrir mjög vönduð vinnubrögð þegar kemur að ákæruhlutanum þó svo að niðurstöðurnar hafi verið margs konar.

Ég lít svo á að vinnan hafi verið það góð í nefndinni að við ræðum hér bestu mögulegu ákærur sem hægt væri að gefa út. Ég held að það sé gott skref að við höfum þá tillögu fyrirliggjandi. Ég held að það sé mjög mikilvægur hluti af uppgjörinu við hrunið að við ræðum nú þá tillögu óbundin af öðru en sannfæringu okkar hér í þingsal. Þó ekki væri nema fyrir það finnst mér að þingmannanefndin eigi hrós skilið.

Ég verð að játa það sjálfur að ég hef sveiflast til og frá í afstöðu minni til ákærunnar. Nú ætla ég að beita þeim mælikvarða að ég hef verið sama sinnis núna í að minnsta kosti viku, þá hlýtur það að mega teljast skoðun mín í þessu máli. Ég hef farið vandlega yfir gögnin og ég hef farið yfir trúnaðargögnin sem liggja í möppu á nefndasviði. Ég skil reyndar ekki alveg af hverju þau eru trúnaðargögn, mér finnst þau vera mjög mikilvæg gögn sem ættu að vera öllum þingmönnum opin vegna þess að við erum öll jafnmiklir þingmenn, það eru engir súperþingmenn sem eiga að hafa aðgang að betri gögnum en aðrir. Mér fannst ákaflega mikilvægt að fara í gegnum þau gögn og þau áttu ríkan þátt í því að móta mína afstöðu.

Eftir að hafa farið yfir þetta allt saman, átt óteljandi samtöl við hina og þessa, farið yfir gögnin, þá hef ég ekki sannfæringu fyrir þessum ákærum. Ég hef það ekki. Mér finnst afskaplega margt hafa misfarist í pólitík á undanförnum árum á Íslandi. Ég hef verið mjög reiður á köflum á undanförnum árum og áratugum jafnvel yfir alls konar ákvörðunum sem hafa verið teknar á Íslandi. Mikið dæmalaust rugl var það t.d. að leggja niður Þjóðhagsstofnun á jafnafleitum tíma og þá var, á sama tíma og við gerðum gengið fljótandi. Og að fara í skattalækkanirnar á sama tíma og bankarnir voru að fara inn á lánamarkaðinn og við fórum í stærstu framkvæmdir Íslandssögunnar fyrir austan. Mér fannst það dæmalaust rugl sem og að hleypa bönkunum yfir höfuð inn á lánamarkaðinn með þessum hætti.

Mér fannst líka verulega ámælisvert hvernig bankarnir voru einkavæddir. Það hefði hugsanlega átt að gera það á miklu lengri tíma, fara hægar í sakirnar. Við fórum verulega geyst í að aflétta reglum á fjármálamarkaði. Þetta er allt saman gríðarlega ámælisvert sem og margar aðrar ákvarðanir sem maður reif hár sitt og skegg yfir, t.d. hvernig komið var fram við Falun Gong þegar sá hópur kom í heimsókn. Og síðast en ekki síst hvernig staðið var að ákvörðun um að taka þátt í innrásarstríði í Írak. Ég held að ég sé enn þá reiður yfir því.

Ég verð að viðurkenna að í allri reiðinni yfir öllum þessum málum kom aldrei upp spurning í mínum huga um að það ætti að fara með þessa stjórnmálamenn fyrir landsdóm. Ég hef alltaf talið þetta vera pólitík, slæma og ámælisverða pólitík, en ég hef ekki viljað fara með hana fyrir landsdóm.

Með öðrum orðum, það sem stjórnar afstöðu minni er að ég vil ekki fara með slæma pólitík, ámælisverða pólitík, jafnvel afleita hugmyndafræði, fyrir landsdóm. Ég vil ekki taka þátt í að fara með íslenska pólitík þangað. Á ákveðinn hátt verður kannski að leyfa pólitík að vera pólitík. Á hinu pólitíska sviði mun þrífast hugmyndafræði sem maður sjálfur telur ranga og þar munu verða teknar ákvarðanir sem maður telur rangar. Í þessu máli, í aðdraganda hruns bankanna, tel ég að margar afleitar ákvarðanir hafi verið teknar eða ekki teknar. Mér fannst það því vera einstaklega góð málsmeðferð þegar við lögðum mat á alla þessa pólitík, pólitík sem var svo augljóslega röng vegna þess að hún endaði með hruni fjármálakerfis, að Alþingi skyldi ákveða að skipa rannsóknarnefnd. Ég varð svo yfir mig glaður þegar mér var ljóst, í allri kaldhæðninni í aðdraganda að niðurstöðu rannsóknarnefndar, að rannsóknarnefnd stóð sig vel, hún skilaði mjög vönduðu verki. Hún skilaði níu binda verki þar sem farið er algjörlega í saumana á þessu, hvað það var sem var rangt, hvað það var sem var ámælisvert. Rannsóknarnefndarskýrslan, út af þessari nálgun minni á pólitík, nægir mér.

Með öðrum orðum, niðurstaða mín er sú að ég vil ekki stíga skrefið lengra. Ég vil ekki fara með þetta fyrir dóm. Mér finnst að fyrir dómi vakni aðrar spurningar sem eiga ekki erindi þangað. Tökum t.d. hugtakið „aðgerðaleysi“. Ég er fullkomlega sammála niðurstöðu rannsóknarnefndarskýrslunnar um að hér hafi verið sýnt ámælisvert aðgerðaleysi út frá öllu því sem heilbrigð skynsemi sagði mjög mörgum að ætti að gera. En þegar hugtakið „aðgerðaleysi“ er komið fyrir dóm, hvenær verður það refsivert? Aðgerðaleysi er grundvöllur heillar hugmyndafræði í pólitík. Fyrir aðgerðaleysi geta verið mjög sterk rök og sérstaklega geta verið mjög sterk rök fyrir aðgerðaleysi þegar kemur að inngripum á frjálsan markað, sérstaklega í þessu tilviki þegar bankarnir voru við það að hrynja samkvæmt ýmsum teiknum sem þá voru á lofti. Þá gátu verið gríðarlega sterk rök fyrir aðgerðaleysi.

Með öðrum orðum, mesta grundvallarhugtakið í þessu öllu saman, sem er aðgerðaleysið, tel ég ekki eiga erindi fyrir sakadóm. Ég er hins vegar mjög ánægður með að rannsóknarnefnd Alþingis kemst að sömu niðurstöðu og ég, að aðgerðaleysið var verulega ámælisvert. Vonandi stundum við aldrei slíkt aðgerðaleysi aftur í íslenskri pólitík. Það er lærdómurinn sem við eigum að draga af þessu.

Ég hef líka velt fyrir mér muninum á þessu máli og Tamílamálinu í Danmörku. Það lýtur auðvitað að þessari spurningu: Ef ég er þeirrar skoðunar að við eigum ekki að fara með slæma pólitík, slæma hugmyndafræði, fyrir refsirétt eða fyrir landsdóm, er ég þá þeirrar skoðunar að ekkert eigi að fara fyrir landsdóm? Þá velti ég fyrir mér muninum á Tamílamálinu og þessu máli. Í Tamílamálinu finnst mér þetta býsna skýrt. Þáverandi dómsmálaráðherra í Danmörku afgreiddi ekki umsóknir um dvalarleyfi um fjölskyldusameiningu Tamíla um nokkurra ára skeið. Það var ekki fyrr en embættismenn vöruðu hann við að málið var talið dæmi um vítavert hirðuleysi, gáleysi sem sakfella mætti fyrir. Hann hafði sýnt ásetning í mörg ár, ef ég skil málið rétt, og hann var dæmdur fyrir það að fara ekki að lögum, mjög skýrum lögum.

Það er líka mjög athyglisvert að skoða hvaða meðferð þáverandi forsætisráðherra Danmörku, Poul Schlüter, fékk í Tamílamálinu. Schlüter flutti fræga ræðu þar sem hann augljóslega sópaði Tamílamálinu undir teppið og þótti sýnt, ef ég fer rétt með, að hann hefði beinlínis sagt þinginu ósatt. En hann var ekki dæmdur fyrir það. Þetta var bara pólitík, slæm pólitík. Þarna er munurinn kristaltær. Hann braut engin lög með þessu, hann var bara að reyna að hylma yfir eitthvað og samkvæmt landsdómi í Danmörku er það aðeins dæmi um pólitík. Við sjáum það oft á tíðum hér að ráðherrar eða alþingismenn, hæstvirtir og háttvirtir, reyna að hylma yfir, segja e.t.v. ekki allan sannleikann. Það er slæm pólitík en hún á ekki erindi fyrir landsdóm.

Við getum heldur aldrei útilokað að í íslensku samfélagi komi upp dæmi eins og t.d. í Frakklandi, að ráðherra láti hjá líða að rannsaka blóð og setji sýkt blóð í umferð. Auðvitað geta slík dæmi komið upp á Íslandi en ég met þetta ekki sem slíkt.

Annars vegar er það þessi afstaða mín til landsdóms og pólitíkur almennt sem ræður meginniðurstöðu minni um að ekki eigi að ákæra í málinu eða kæra. Hins vegar eru það ákveðnir þættir sem lúta að hlutverki Alþingis. Nú veltum við því fyrir okkur hér á Alþingi hvort við eigum að kæra fyrrverandi ráðherra, fyrrverandi stjórnmálamenn. Mér finnst að við eigum að fara sparlega með þetta vald. Ein röksemdin fyrir því að við eigum að fara sparlega með þetta vald liggur í mínum huga í því að Alþingi hefur mikið vald og mjög margar leiðir til að refsa ráðherrum.

Það er athyglisvert að skoða greinargerð Ólafs Jóhannessonar með frumvarpinu um landsdóm frá 1963, ég geri ráð fyrir að hann hafi skrifað hana, eins og lögin að miklu leyti eða öllu leyti. Þar segir, með leyfi forseta:

„Satt er það, að refsiábyrgðar ráðherra gætir minna, þar sem þingræðisstjórn er komin í fastar skorður. Þar er málshöfðun gegn ráðherra fyrir sérstökum stjórnardómstóli fátíð. Þörf á slíku úrræði er þar miklu minni. Hin þinglega ábyrgð veitir ráðherrum nauðsynlegt aðhald, og ráðherra, sem meiri hluti þings vill losna við, verður að víkja.“

Við gleymum því nefnilega stundum að Alþingi hefur mikið vald yfir ráðherrum. Ráðherrarnir starfa í umboði þessarar stofnunar. Alþingi hefur öll völd. Með meiri hluta sínum getur Alþingi rekið ráðherra, komið vantrausti á ráðherra. Alþingi getur spurt alla ráðherra, komið með fyrirspurnir til ráðherra, Alþingi getur beðið um skýrslu frá ráðherra. Það sem stjórnar afstöðu minni nokkuð í þessu máli — og afstaða mín er sú að ég vil láta skýrslu rannsóknarnefndar nægja — er að ég skoðaði aðeins hvernig Alþingi hagaði sér í aðdraganda hrunsins, í eitt ár á undan. Ég skoðaði fundargerðir nefnda. Ég fór yfir skjalalista Alþingis frá 135. löggjafarþingi sem er þingið árið á undan hruninu.

Notaði þingið þetta vald sitt? Voru ekki margvísleg teikn á lofti, eins og kemur fram í niðurstöðu þingmannanefndarinnar og niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar, um að veruleg áföll væru í aðsigi á fjármálamarkaði, svo að ég orði það bara þannig? Þó að það hafi ekki endilega verið hrun bankanna þá voru teikn á lofti á Íslandi um að eitthvað verulega ískyggilegt væri í aðsigi. Hvernig notaði Alþingi fyrirspurnavald sitt, eftirlitsvald sitt, aðhaldsvald sitt?

Ég get ekki séð í fundargerðum funda viðskiptanefndar frá því í október 2007 til hruns, að í eitt skipti — ekki einu sinni — hafi verið rætt um stöðu bankanna. Aldrei. Það er ekki fyrr en 22. ágúst 2008 sem eitthvað þvílíkt er sett á dagskrá. Þá er rætt um gjaldþrot og vanskil annars vegar og gestir koma til fundarins sem, með leyfi forseta:

„[…] gerðu grein fyrir skoðunum sínum í tengslum við aukin gjaldþrot einstaklinga og fyrirtækja og svöruðu spurningum nefndarmanna.“

Hins vegar eru rædd málefni sparisjóðanna þar sem, með leyfi forseta:

„[…] gestir gerðu grein fyrir afstöðu sinni til stöðu sparisjóðanna í landinu og svöruðu spurningum nefndarmanna.“

Mánuði fyrir hrun, þann 8. september 2008, sat ég sjálfur fund í viðskiptanefnd. Við ræddum þar breytingar á lögum á Viðlagatryggingarsjóði vegna jarðskjálftans á Suðurlandi. Ég sat þennan fund sem varamaður. Vegna þess að það er svo nauðsynlegt að við notum skýrslu rannsóknarnefndarinnar og alla þessa atburði til að spegla okkur sjálf ætla ég að gera það hér og nú. Mér datt ekki í hug að fara fram á, og vera þá einhvers konar ungur, skeleggur þingmaður, að viðskiptanefnd fjallaði um stöðu bankanna. Mánuði síðar voru allir stærstu bankarnir farnir á hausinn. Svona var þetta, svona var ástandið.

Svo líður og bíður og það er ekki fyrr en mánudaginn 6. október klukkan 17.44 að tekið er fyrir mál nr. 80, heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Þá fara að verða ansi tíð í fundargerðum viðskiptanefndar hugtök og orð eins og „Icesave“, „innstæðutryggingar“, „fjármálakerfið“ og þar fram eftir götunum, en ákaflega lítið fram að því.

Vissulega ræddi efnahags- og skattanefnd efnahagsmál, það er auðvitað hluti af hennar verksviði. 1. apríl er haldinn sameiginlegur fundur fjárlaganefndar um núverandi stöðu í efnahagsmálum þjóðarinnar og horfur í ríkisfjármálum. Fundurinn var haldinn að beiðni fulltrúa Framsóknarflokksins í bæði fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd og var sameiginlegur. Þar er farið yfir ýmislegt og á fundinn komu fulltrúar frá fjármálaráðuneyti, Seðlabankanum, FME, ASÍ, SA, Kaupþingi, Glitni og Landsbanka. Ég skoðaði þessa fundargerð en þar er ekkert um að bankarnir séu að fara á hausinn.

Svo kemur heimild ríkissjóðs til sérstakrar lántöku 27. maí 2008 og umræða er um það. En rauði þráðurinn er að það kemur ekki einu sinni ein formleg fyrirspurn á Alþingi, munnleg eða skrifleg, um stöðu bankanna. Enginn virðist hafa verið að spá í þetta. Kannski var þetta nefnt í óundirbúnum fyrirspurnum. Ég get ekki séð, eftir að hafa skoðað skjalalista Alþingis árið á undan, að Alþingi hafi rækt skylduhlutverk sitt, að vera sú aðhaldsstofnun sem hún á að vera. Gætum að því að alþingismenn þurfa ekki að hafa vissu, þeir þurfa bara að hafa það á tilfinningunni að mögulega séu teikn á lofti. Þá leggja þeir fram fyrirspurn. Þetta er auðvitað eitt af okkar meginhlutverkum, þetta á stjórnarandstaðan að gera. Meira að segja stjórnarandstaðan virðist ekki hafa kveikt á þessu á þeim tíma.

Af þessum sökum, þegar ég skoða hug minn, finnst mér það einkar viðeigandi að Alþingi, sem einnig brást, skyldi komast að þeirri niðurstöðu að best væri að skipa rannsóknarnefnd sem færi yfir þetta allt saman og setti upp á borðið allar þær mörgu ástæður fyrir því að fjármálakerfið hrundi á Íslandi og varpaði þessum spegli á okkur sjálf. Ég finn mig ekki í því, sérstaklega eftir að hafa rakið hvernig Alþingi stóð sig ekki, að vera núna alþingismaður og gefa út kærur á nokkra stjórnmálamenn sem störfuðu í þessu andrúmslofti í aðdraganda hruns. Ég finn mig ekki í þeirri ákæru, ég hef ekki sannfæringu fyrir henni. Fyrir utan allt annað sem rakið hefur verið, þá finnst mér ákæran ósannfærandi út af því hvað liðirnir eru matskenndir. Búið er að fara ansi vel yfir það og ég get tekið undir margt af því þannig að ég ætla ekki að gera það hér.

Frú forseti. Við stöndum frammi fyrir mjög erfiðri ákvörðun en ég kveinka mér ekki. Mér finnst þetta vera hluti af því sem við erum kosin til. Við erum ekki í verri stöðu, eins og hv. þm. Björn Valur Gíslason benti á einhvern tíma, en t.d. verslunarstjórar sem oft þurfa að ákveða hvort þeir eigi að segja upp samstarfsfólki sínu. Erfiðar ákvarðanir eru teknar á öllum vinnustöðum. Mér finnst að mörgu leyti að svona eigi þingið að virka. Vel ígrundaðar og vandaðar tillögur koma úr nefnd og við þingmenn förum yfir þær og tökum afstöðu til þeirra. Ég hef nú rakið meginforsendur afstöðu minnar.

Að lokum vil ég segja að mér finnst mjög mikilvægt að við hengjum ekki allt á eina spýtu í umræðunni um þetta mál. Með því að vilja ekki ákæra þessa ráðherra er ég til dæmis ekki að segja neitt um ákæruna sem nú er í gangi gagnvart níumenningunum. Mér finnst sú ákæra afskaplega slæm, hún er ekki í mínu nafni. Ég hef gagnrýnt hana opinberlega. Ég vona að það sé líka alveg skýrt að þótt ég vilji ekki ákæra ráðherrana þá tel ég augljóslega ekki að allt hafi verið í lukkunnar velstandi í aðdraganda hruns. Ég held að hér hafi verið dæmalaust klúður á ferðinni, svo það sé alveg skýrt. Ég tel líka að fara þurfi í mjög yfirgripsmiklar og röggsamar aðgerðir til að fyrirbyggja að hrunið lendi af fullum krafti á heimilum landsins. Það þarf að gera eftir sem áður og þetta er ekkert tengt því. Þó að ég vilji ekki ákæra ráðherrana vil ég samt sem áður augljóslega að við förum í röggsamar aðgerðir til að bjarga heimilunum. Það væri afspyrnuömurlegt réttlæti og dæmi um ranglæti ef eina niðurstaðan í þessu yrði að heimilin mundu brenna.

Í þessu afmarkaða máli hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ekki séu forsendur fyrir því að kalla saman landsdóm. Kannski er meginástæðan fyrir því að maður hefur ekki sannfæringu fyrir ákærunni líka ofureinföld. Við stöndum frammi fyrir ógnarstórum verkefnum í íslensku samfélagi í dag. Þau sem við ræðum nú hvort við eigum að ákæra, stóðu frammi fyrir ógnarstórum og jafnvel óræðum viðfangsefnum í íslensku samfélagi. Ég finn mig ekki í því að gefa út ákærur á þessa stjórnmálamenn fyrir að hafa ekki staðið sig, fyrir að hafa orðið á mistök, fyrir að hafa ekki getað komið í veg fyrir þetta gríðarlega klúður, á sama tíma og við sem sitjum á Alþingi núna og þeir hæstv. ráðherrar sem sitja í ríkisstjórn eru jafnvel ekkert skárri. Mér finnst verkefni okkar vera að reyna að bæta okkur og þess vegna finnst mér niðurstaða rannsóknarnefndar Alþingis vera það besta sem við höfum. Við eigum að láta hana nægja, læra af henni og reyna svo að bæta okkur. Það væri best og heillavænlegast í þágu þjóðarinnar.