138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:38]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson rökstuddi ágætlega mál sitt hér áðan. Hann tíndi til nokkur dæmi um það sem honum fannst hafa misfarist við stjórn landsins á undanförnum árum og áratugum sem er vissulega margt. Meðal þess sem hann nefndi voru þau mistök að leggja niður Þjóðhagsstofnun, innrásin í Írak og framkoma stjórnvalda við Falun Gong. Hann nefndi sömuleiðis að stundum væru sterk rök fyrir aðgerðaleysi, með öðrum orðum að aðgerðaleysi gæti verið aðgerð í sjálfu sér, og færði þannig rök fyrir aðgerðaleysi þáverandi ráðherra í ríkisstjórn sem hér starfaði 2008 og kostaði okkur gífurlegar fórnir þótt ég segi ekki að ráðherrarnir séu sekir.

Ein af þeim sem vann að skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er Guðrún Johnsen sem er lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún segir, með leyfi forseta, í viðtali við íslenska útvarpið þann 23. september:

„Þá blasir það við að það er betra að grípa til einhverra aðgerða, jafnvel þótt þér takist ekki ætlunarverk þitt, frekar en að aðhafast ekkert.“

Og hún bætir við, með leyfi forseta:

„Með aðgerðaleysi sínu hefði verið hægt að takmarka þann mikla skaða sem við urðum fyrir með því að grípa til aðgerða þegar ljóst var í hvað stefndi.“

Hún áætlar að tjónið vegna aðgerðaleysisins sé um 500 milljarðar kr. sem falla þá á íslenska þegna hér í dag.

Hv. þingmaður segist ekki hafa sannfæringu fyrir að styðja það mál sem við ræðum hér, um að höfða mál gegn fyrrverandi ráðherrum. Í ljósi þeirra staðreynda og í ljósi þess að (Forseti hringir.) rannsóknarskýrslan hefur svo sannarlega ekki það yfirbragð að allt hafi verið gert til að forða tjóni spyr ég: (Forseti hringir.) Hvað þarf að mati hv. þingmanns til að landsdómur (Forseti hringir.) verði kallaður saman til að ræða um aðgerðir eða aðgerðaleysi ráðamanna?