138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni vegna þess að menn voru í svo erfiðri stöðu. Menn gátu ekki sagt frá vissum hlutum sem þeir vissu því að það hefði getað valdið hruni. Hér hefur komið fram tillaga um að það hefði átt að skipa bönkunum tilsjónarmann. Ég fullyrði að daginn eftir hefðu þeir farið á hausinn hvernig sem það hefði verið gert. Það hefði verið þvílíkt merki um vantraust að bankarnir hefðu bara ekki staðist það.

Þegar ég hélt þennan fund í mars 2005 um krosseignarhald gat ég ekki minnst á það að ég ætti við Kaupþing og Existu af því að ég var formaður nefndarinnar. Ef ég hefði nefnt það á þessum fundi að ég væri að meina Kaupþing og Existu hefði gengið á þeim bréfum snarlækkað og þau fyrirtæki hugsanlega farið á hausinn í kjölfarið. Ég gat það ekki. Þetta sýnir hvað menn voru bundnir af því að geta ekki sagt frá hlutum sem gerast á hlutabréfamarkaði. Ég hefði þá verið ákærður fyrir það í kjölfarið að ég hefði sett fyrirtækin á hausinn.