138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[18:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum alvarlegt mál, en fyrr hafa verið teknar grafalvarlegar ákvarðanir í þessum sal. Það voru t.d. alvarlegir hlutir til umræðu daginn sem neyðarlögin voru sett fyrir tæpum tveim árum, daginn sem forsætisráðherrann ávarpaði þjóðina í sjónvarpi til að greina frá því að efnahagskerfið væri hrunið. Ég var þá í vinnunni á Landspítalanum og minnist óttans sem greip um sig hjá okkur, fullorðnu fólkinu, og andrúmsloftinu næstu daga á eftir. Ég tel ákvörðunina um Icesave-málið einnig hafa verið grafalvarlega þó að hún hafi ekki náð fram að ganga. Bæði þessi tilvik eru óneitanlega tengd því sem við ræðum nú.

Virðulegi forseti. 63 Íslendingar geta breytt lögum með samþykki forsetans eða þjóðarinnar. Þessir 63 eru alþingismenn. Lögum verður þó ekki breytt eftir á. Þess vegna dugar alþingismönnum ekki að segja að lög séu úrelt þegar reynir á að þeir fari eftir þeim. Ef lög eru úrelt munu dómstólar kveða upp um það og væntanlega vísa máli frá. Það hlýtur að eiga við um landsdóm jafnt sem aðra dómstóla.

Að þessu sögðu vil ég segja að ég tel lögin um ráðherraábyrgð og landsdóm ekki úrelt og sú skoðun mín styrktist við að hlusta á sérfræðinga sem voru gestir allsherjarnefndar nú fyrir helgina. Sérfræðingarnir eyddu einnig spurningum sem voru í huga mér um hvort nokkur vafi léki á því að þeir sem hugsanlega yrðu kærðir fyrir landsdómi nytu allra þeirra réttinda sem tryggð eru þeim sem stefnt er fyrir aðra dómstóla.

Fyrir tæpum tveim árum hrundi efnahagskerfið allt. Bankarnir sem orðnir voru allt of stórir fyrir okkar litla hagkerfi féllu og drógu allt annað með sér. Þetta eru alvarlegustu atburðir sem orðið hafa á Íslandi í aldaraðir og þeir gerðust af mannavöldum, ólíkt öðrum stóráföllum sem þjóðin hefur orðið fyrir í gegnum aldirnar. Þar til nú hafa allar alvarlegar búsifjar orðið vegna náttúruhamfara. Fólk hefur misst vinnuna og fólk missir heimili sín. Laun margra hafa lækkað og gengið hefur lækkað. Vöruverð hefur hækkað, skattar hækkað og lánin og afborganir af þeim hafa hækkað. Svo búum við líka við gjaldeyrishöft. Allt verður þetta rakið til atburða sem urðu af mannavöldum, atburða sem hægt hefði verið að hafa áhrif á. Samt láta margir eins og það komi þeim á óvart að gripið sé til laga um ráðherraábyrgð.

Í plaggi framtíðarhóps Samfylkingarinnar, sem kynnt var á landsfundi flokksins árið 2005, má m.a. finna eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Margt bendir til að valdstjórn þá sem ríkir hér á landi megi rekja til þess að ráðamenn þurfi í raun ekki að bera ábyrgð á gerðum sínum. Innan gildandi kerfis væri hægt að lagfæra þessa hluti að einhverju leyti með því að gera lög um ráðherraábyrgð skýr og með frekara eftirlitshlutverki Alþingis.“

Þann 11. maí sl. ræddum við hér á þingi tillögu sem sex hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fluttu. Tillagan var um breytingu á lögum um fjárreiður ríkisins. Í þeirri tillögu segir m.a., með leyfi forseta:

„Ráðherra ber fjárhagslega ábyrgð á ráðuneyti sínu og með þá ábyrgð skal fara samkvæmt lögum nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð.“

Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að nefna þetta til að vekja athygli á því að lögin um ráðherraábyrgð eru lifandi í hugum stjórnmálamanna en ekki gleymd og geymd í grafhýsi eins og mér finnst að sumir vilji vera láta þessa dagana.

Virðulegi forseti. Vissulega er ákvörðunin erfið og mjög óskemmtileg svo vægt sé til orða tekið. Þetta snýst um fólk, þetta snýst um einstaklinga, fjölskyldur þeirra og vini, hefur verið sagt í ræðum hv. þingmanna. En allt sem við gerum hér snýst um fólk, um einstaklinga, fjölskyldur þeirra og vini, það er bara andlitslaust fólk. Hafa lög sem skerða lífeyrisgreiðslur til aldraðra eða öryrkja ekki komið illa við vini einhverra hér inni, jafnvel systkini eða foreldra? Kemur niðurskurður á menntakerfinu ekki illa við börnin okkar og barnabörnin? Hér búum við til þær reglur sem allt fólk í landinu verður að fara eftir, líka við. Við verðum að fara eftir þeim reglum sem hér hafa verið settar jafnvel þó að þær komi illa við vini okkar og fyrrum samstarfsmenn.

Það er mikil ábyrgð að sitja á Alþingi og það er enn meiri ábyrgð að sitja í ríkisstjórn. Það er svo mikil ábyrgð að sitja í ríkisstjórn að um það gilda sérstök lög, lög um ráðherraábyrgð. Engin getur brotið þau lög nema þau sem sitja í ríkisstjórn. Það er meira að segja kveðið á um ráðherraábyrgðina í stjórnarskránni. Þar stendur líka að Alþingi geti kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Það er nefnilega ekki bara upphefð, bíll, bílstjóri og langur vinnudagur sem fylgir ráðherradómi, honum fylgir líka hin mesta ábyrgð.

Ýmis rök eru færð fyrir því að ekki beri að kæra þá ráðherra sem tillögurnar fjalla um. Sumir segja að þrír af fjórum hafi axlað hina pólitísku ábyrgð með því að draga sig í hlé frá stjórnmálum. Dugar þá skipstjóra sem siglir skipi í strand að hætta á sjónum, er hann þá laus allra mála? Aðrir segja að fólkinu sé næg refsing í því að kæran hafi komið fram. Ég spyr: Er kæran þá dómur? Ef tillögurnar eru felldar þýðir það þá að Alþingi lýsi velþóknun sinni á embættisrekstri ráðherranna? Svarið við báðum spurningunum er nei. Ef tillögurnar eru samþykktar er það ekki dómur, þá er málareksturinn eftir fyrir landsdómi, og ef tillögurnar eru felldar þýðir það einungis að Alþingi telur að fólkið eigi ekki að sæta ábyrgð fyrir embættisreksturinn. Sumir virðast einfaldlega þeirrar skoðunar, virðulegi forseti, að ekki eigi að nota lögin um ráðherraábyrgð við þessar aðstæður og þess vegna beri að fella tillögurnar.

Sjö af níu nefndarmönnum þingmannanefndarinnar komust eftir vandlega íhugun að þeirri niðurstöðu að ástæða væri til að nota lögin um ráðherraábyrgð. Ég fellst á þá niðurstöðu og ég tel að lögin hafi hlutverki að gegna. Ég er ósammála þeim sem halda því fram að verði tillögurnar samþykktar muni málshöfðun gegn ráðherrum verða daglegt brauð. Ég tel þvert á móti að verði tillögurnar samþykktar muni það hafa áhrif til hins betra á þau sem nú og í framtíðinni gegna ráðherrastörfum.

Virðulegi forseti. Það er sannarlega rétt að ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks bera ábyrgð á hinni alræmdu einkavæðingu bankanna og glórulausri hagstjórn til margra ára. Það er líka rétt að Seðlabankinn brást eftirlitshlutverki sínu og hið sama á við um Fjármálaeftirlitið. Allt átti þetta sinn þátt í hvernig fór. Það er hins vegar önnur umræða en sú sem snýr að þeim þingsályktunartillögum sem við fjöllum nú um.