138. löggjafarþing — 167. fundur,  27. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[19:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvar í ósköpunum stendur í íslenskum lögum ákvæði um það að þegar menn taka að sér formennsku í flokki séu þeir að taka á sig ákveðna ábyrgð? Ég hef hvergi nokkurs staðar séð það. Hvernig getur staðið á því að við það að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er kosin formaður síns flokks sé hún að taka ábyrgð á Alþingi og fari fyrir landsdóm vegna þess?

Ég hefði skilið það ef hún hefði gert eitthvað af sér en það að hún sé formaður síns flokks eigi að valda því að hún sé dregin til ábyrgðar umfram aðra ráðherra sem sátu í þessari sömu ríkisstjórn — ég minni á hæstv. forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, ég minni á hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, þeir eru ekki dregnir til ábyrgðar. Þeir sátu nákvæmlega í sömu stöðunni. Ég get ekki séð að formennska í flokki sé ástæða til að kæra mann fyrir landsdómi.