138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[10:32]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Á bls. 5 í skýrslu þingmannanefndarinnar sem við höfum verið að ræða undanfarna daga og hefur verið til umfjöllunar í þinginu stendur, með leyfi forseta:

„Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin eru krufin til mergjar.“

Þetta er afar góð tilvitnun og vel að orði komist og nokkuð sem ég hygg að hver einasti þingmaður þyrfti og ætti að hafa að leiðarljósi í störfum sínum, ekki síst við þá ákvörðun sem við stöndum frammi fyrir að taka jafnvel síðar í dag. Eins og allir vita er um afar óvenjulega ákvörðun Alþingis Íslendinga að ræða þar sem lög um landsdóm færa þingmönnum ákæruvald yfir fyrrverandi eða núverandi kollegum sínum.

Í 1. gr. stjórnarskrár lýðveldisins stendur: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“, eins og allir vita. Stjórnskipan okkar byggist á þingræðisreglunni. Ríkisstjórnir sitja með stuðningi meiri hluta þingmanna langoftast ellegar eru minnihlutastjórnir sem eru varðar falli eins og t.d. var 1. febrúar til 25. apríl 2009. Með öðrum orðum, þeir þingmenn sem styðja tiltekna stjórn bera ábyrgð á pólitísku lífi hennar, ef þannig má að orði komast, og þeim ber rétt eins og stjórnarandstöðunni á hverjum tíma að veita þeirri sömu stjórn aðhald.

Þingræðið hefur lítið verið rætt í umfjöllun þings og þjóðar um niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og niðurstöðu þingmannanefndar Alþingis. Þingræðisreglan hefur í raun ekki fengið þá umfjöllun sem hún verðskuldar í þessum sal og í umræðunni um þá stjórnskipan sem við búum við. En meira hefur verið rætt um ráðherraábyrgð eðli málsins samkvæmt og í grannlöndum vorum, t.d. í Bretlandi, á Norðurlöndunum og víða annars staðar í Evrópu, er pólitísk ábyrgð öxluð með afsögn ráðherra. Þar eru þættir í stjórnmálamenningu þannig og hefðin sú að það þykir sjálfsagt mál, en eins og við vitum hafa ekki margir íslenskir ráðherrar sagt af sér. Síðast gerði það Björgvin G. Sigurðsson í janúar 2009.

Það er mikilvægt að hafa í huga að þar sem pólitískar afsagnir eru sjálfsagður hluti stjórnmálanna, jafnsjálfsagður og raun ber vitni víða í Evrópu, er það líka svo að afsögn er ekki endastöð fyrir stjórnmálamenn heldur hlé á pólitísku ferðalagi sem síðar er hægt að halda áfram einmitt vegna þess að viðkomandi axlaði pólitíska ábyrgð á gjörðum sínum eða gjörðum undirmanna sinna. Það er ekki að sjá að íslensk stjórnmálamenning hafi náð nægilegum þroska hvað þetta varðar. Og þeir sem hafa sagt af sér eru, að ég tel, enn undir í umræðunni úti í samfélaginu og hafa ekki hlotið uppreisn æru eins og þeir ættu í raun að gera ef hér væri þroskuð og góð stjórnmálamenning við lýði.

Annað sem varla þarf að taka fram í þessari umræðu er hið augljósa, að ríkisstjórn Íslands er ekki fjölskipað stjórnvald. Það vita margir en ég held því miður að færri skilji hvernig það virkar í raun. Ég hef lengi verið eindregið þeirrar skoðunar að breyta eigi stjórnskipan Íslands þannig að ríkisstjórnin verði fjölskipað stjórnvald rétt eins og sveitarstjórnir í landinu og að vinnubrögð í Stjórnarráðinu breytist í samræmi við það. Það eitt yrði grundvallarbreyting á stjórnkerfi Íslands og Stjórnarráði sem hefði mikil og góð áhrif á vinnubrögð, verklag og stjórnkerfi. En þótt ég sé þessarar skoðunar og hafi verið það um nokkra hríð, ekki síst í ljósi reynslu minnar í ráðherrastóli, tel ég mig ekki geta leyft mér að gagnrýna störf núverandi eða fráfarandi ríkisstjórna í því ljósi að þar hefðu menn átt að starfa eins og um fjölskipað stjórnvald væri að ræða. Það þarf þó að gagnrýna þau verk á þeim forsendum sem þau voru unnin og innan þeirrar stjórnskipunar sem þau voru unnin.

Í bréfi mínu til þingmannanefndarinnar sem ritað var í upphafi sumars lét ég eftirfarandi orð falla, með leyfi forseta, og byggjast þau á reynslu minni af 20 mánaða setu í ríkisstjórn Geirs Haardes en ég verð að segja eins og er að ég held að við búum við nákvæmlega sama skipulag í dag og við höfum gert síðustu ár og áratugi. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á stundum hefur mér fundist að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands séu eins og tólf trillukarlar sem hittast í kaffi tvisvar í viku, bera saman aflabrögð og horfur, standa saman gegn utanaðkomandi áreiti eða ógnunum en eru jafnframt í samkeppni innbyrðis um aflann. Það fyrirkomulag kann að henta ef gæftir eru góðar og lítil misklíð í hópnum. Reynsla haustsins 2008 hlýtur að kenna okkur að slíkt fyrirkomulag stenst ekki gjörningaveður og getur leitt af sér úrræðaleysi og jafnvel kerfislömum með hörmulegum afleiðingum fyrir land og lýð.“

Það er býsna harður dómur yfir því stjórnkerfi sem við búum við og höfum enn ekki kosið að breyta. En það er ekki þar með sagt að þó að hér sé lýst úrræðaleysi og jafnvel kerfislömum, sem ég tel vera komna til vegna þess kerfis sem við höfum komið okkur upp og vegna þeirra múra sem við höfum reist á milli ráðuneyta og stofnana, að ráðherrarnir í ríkisstjórninni sem sat haustið 2008 og frá árinu 2007 til 1. febrúar 2009 hafi gerst sekir um refsivert athæfi. Við getum haft margs konar skoðanir á því hvað hefði mátt betur fara og margt sést vel í baksýnisspeglinum eins og dæmin sanna en að menn hafi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi eða gáleysi sem eins og fram hefur komið í umræðunni er auðvitað matskennt — það er margt matskennt í þessari umræðu — finnst mér fráleitt. Það byggi ég ekki bara á því að hafa setið við þetta sama ríkisstjórnarborð og farið þar með umhverfismálin heldur líka af því að það er beinlínis ekki búandi við það að ráðherrar í ríkisstjórn, þó að þeir geri mistök — og ég tala ekki um þegar heilt bankakerfi hrynur eins og gerðist reyndar ekki alveg með sama hætti en bankar hrundu víða í kringum okkur — eiga það yfir höfði sér að vera sóttir til saka og dæmdir í fangelsi í allt að tvö ár. Ég get ekki staðið að slíkri ákvörðun. Ég get ekki staðið að þeirri ákvörðun vegna reynslu minnar í þessari ríkisstjórn. Ég get ekki staðið að þeirri ákvörðun vegna framtíðar stjórnmálanna hér á landi og ég get ekki staðið að þeirri ákvörðun vegna þess rökstuðnings sem fram kemur í þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Við getum breytt þessu kerfi, frú forseti. Það er leikur einn að breyta kerfum. Það er leikur einn fyrir hv. þingmenn að ná samstöðu um að breyta stjórnkerfi Íslands ef þeir bara vilja það en það hafa auðvitað margir haft hagsmuni af því. Ég fer ekki í launkofa með það. Það hafa margir haft hagsmuni af því að breyta ekki kerfinu, þeir vilja hafa það eins og það er og halda þar uppi kerfi blindgatna í Stjórnarráði sem veldur því að þegar gjörningveður skellur á virðast menn næstum því ófærir um að rata réttu leiðina. En á því eiga menn að bera pólitíska ábyrgð, ekki refsiábyrgð, frú forseti.

Í tillögum að ákærum er því haldið fram m.a. að ráðherrar í öðru ráðuneyti Geirs Haardes hafi farið inn á valdsvið hver annars. Ég fæ ekki séð að það sé rökstutt, ég fæ ekki séð hvernig það gerðist og reynsla mín styður ekki þá fullyrðingu. Í ráðherrahópi eins í og öðrum hópum tala menn að sjálfsögðu saman og ráða ráðum sínum um stærri og smærri málefni og í öllum ríkisstjórnum, held ég, fram á þennan dag hafa verið miklir núningar á milli þeirra sem fara með ráðuneyti félagsmála og ráðuneyti heilbrigðismála vegna þess að þar bæði skarast málefnin og þar er um mikla fjármuni að tefla í stefnumótun og í starfi. Þannig var það í ráðuneyti Geirs Haardes og þannig hygg ég að það hafi verið þangað til ráðuneytin voru sameinuð í eitt velferðarráðuneyti. Það sama má segja um ráðuneyti landbúnaðar og sjávarútvegs annars vegar og ráðuneyti umhverfismála hins vegar. Menn ráða ráðum sínum en þeir fara ekki inn á valdsvið hver annars, þannig hefur það aldrei verið, þótt þeir tali saman, beri saman bækur sínar og reyni að finna lausnir utan ríkisstjórnarfunda. Það þarf þá að færa betri rök fyrir því ef hér á á grundvelli þeirrar fullyrðingar að ráðherrar hafi farið inn á valdsvið hver annars að kæra mann í sakamáli. Þá þarf betri rök en þau sem eru í þessum tillögum.

Að mínu áliti eru allir ráðherrar í ríkisstjórnum myndugir þótt færa megi rök fyrir því að þeir hafi ekki allir jafnmikil völd, en hverjum og einum ber skylda til þess að hafa alla þræði málaflokks síns í hendi sér. Það er hvorki létt verk né auðvelt en kröfurnar sem gerðar eru til ráðherra eru þessar og þeir þurfa að standa undir þeim. Í því efni ber ráðherrum skylda til þess að viða að sér upplýsingum um þá málaflokka sem undir þá heyra og það sem er í gangi í þeim málaflokkum, hvort sem það er innan stofnana ráðuneytisins eða bara úti í samfélaginu.

Hafi ráðherra ekki vitund um málefni sem undir hann heyra hlýtur það að vera á hans ábyrgð. Við hljótum að gera ráð fyrir því samkvæmt íslenskri stjórnskipan að hver ráðherra í ríkisstjórn Íslands beri í raun ábyrgð á sínu ráðuneyti, að þar sé samræmi á milli raunábyrgðar og embættisábyrgðar, eins og ég hygg að það hafi verið orðað einhvers staðar.

Ég velti því fyrir mér eftir að hafa lesið skýrslu þingmannanefndarinnar og tillögurnar og legið nokkuð yfir þeim, hvers vegna áherslan sé eins mikil og raun ber vitni á að höfða sakamál. Landsdómsferlið sem við ákváðum öll að fara í í lok síðasta árs — ég geri ekki athugasemdir við það — er til þess að taka þessar ákvarðanir, en landsdómsferlið er líka matskennt og pólitískt ferli. Sérfræðingur nokkur sagði á fundi hjá Samfylkingunni: Þetta eru ákvarðanir sem stjórnmálamenn eiga að taka, þannig er ferlið sett upp.

Hvers vegna er þá ekki farið með miklu ítarlegri hætti yfir pólitíska ábyrgð stjórnmálamanna, hvað hún þýðir og hvernig við getum reynt að fikra okkur áfram veginn í þessu samfélagi í átt til stjórnmálamenningar sem kæmist þá kannski til meiri þroska en sú sem við búum við núna? Ég hef ekki svarið við því en þetta er niðurstaða nefndarinnar og ég virði hana, en eins og ég hef þegar sagt styð ég ekki þær tillögur sem hún leggur fram.

Varðandi næsta atriði fæ ég hreinlega ekki skilið hvers vegna þingmannanefndin lét ekki fara fram sérstaka rannsókn á sínum vegum á ábyrgð ráðherranna sem skýrsla rannsóknarnefndar tekur til og hinna líka. Hún hafði til þess heimildir. Hafi hún ekki talið sig hafa til þess heimildir var henni í lófa lagið að koma hingað í þennan sal og fá til þess lagaheimildir, nógur var tíminn. Það eru að mínu áliti ein stærstu mistök í starfi nefndarinnar að hafa ekki látið þá rannsókn fara fram og það kemur fram í rökstuðningi við þær tillögur sem hér eru lagðar fram í tveimur þingsályktunartillögum.

Þótt skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé afar ítarleg frásögn af orsökum og afleiðingum falls bankanna, mjög góð greining á bankakerfinu og fjármálakerfinu — og valdakerfinu ef út í það er farið, hún varpar ljósi yfir vettvang atburða og kannar tilurð þeirra og afleiðingar og það var vel gert í skýrslunni — hljóta þingmenn að gera sér grein fyrir því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ekki hin endanlega og rétta frásögn af öllum samtölum og/eða fundum sem áttu sér stað í aðdraganda falls bankanna eða í kjölfar þeirra. Þannig er það ekki, það er auðvelt að benda á dæmi um það. Rannsóknarnefndin kallaði ekki alla ráðherra úr öðru ráðuneyti Geirs Haardes til yfirheyrslu, hún gerði það ekki, hún hefði getað gert það. Rannsóknarnefndin lagði frásagnir, að því er ég best fæ séð, eins manns til grundvallar til að túlka atburði, fundi sem engin opinber gögn eru til um, hvorki fundargerðir né gögn sem lögð voru fram á fundunum. Það má öllum vera augljóst sem lesa skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Því verð ég að segja að það eru mestu vonbrigði mín með annars ágætt starf þingmannanefndar Alþingis að hafa ekki séð í gegnum þetta, að hafa ekki farið í það nauðsynlega verk að fá atburðalýsinguna frá fleiri aðilum og á hreint og að leggja hana þannig á borðið, leggja hana þannig til grundvallar þeim tillögum sem hér eru fluttar.

Ég spurði hv. formann þingmannanefndarinnar í ræðu minni um skýrsluna í gær hvort ekki hefði komið til tals að gera samanburð á viðbrögðum stjórnvalda í öðrum löndum við því sem gerðist haustið 2008. Svar hans var að það hefði ekki verið gert og ég tel það miður. Ef reynslan frá 2008 kennir okkur eitthvað er það að Ísland er ekki einangrað land og það er ekki í tómarúmi í alþjóðasamfélaginu. Það sem gerist, hvort sem það er á fjármálamörkuðum eða öðrum mörkuðum eða í stjórnmálum annarra landa, hefur bein áhrif á þær ákvarðanir sem við tökum í þessum sal eða ákvarðanir ríkisstjórnar Íslands. Í öðrum löndum tóku stjórnvöld yfir banka eða björguðu þeim með beinum framlögum úr ríkissjóði landa sinna, í Bandaríkjunum og víðar, og í ýmsum löndum fóru ráðherrar líka fram, m.a. á Írlandi haustið 2008 — og það gleymist stundum í þessari umræðu að það er ekki síst vegna pólitískra yfirlýsinga ráðamanna á hverjum tíma t.d. sem menn ganga mjög hart fram í því að segja að innstæðutryggingar séu með ríkisábyrgð. En hafa ráðherrar úr ríkisstjórnum þessara landa verið sóttir til saka í löndum sínum? Ég held ekki, ég hef náttúrlega ekki fullvissað mig um það en ég held ekki.

Það kemur skýrt fram í skýrslunni að þó svo að margt hafi farið úrskeiðis í aðdraganda hruns íslensku bankanna haustið 2008 og margt hafi farið úrskeiðis það haust tóku menn ákvarðanir við aðstæður sem þeir höfðu almennt séð ekki séð fyrir og auðvitað voru sumar ákvarðanir réttar og aðrar rangar. Kannski var það eina ranga í stöðunni að taka enga ákvörðun, eða eins og einhver sagði: Það er betra að taka ranga ákvörðun en enga. Það gekk margt á þetta haust. Það gekk ekki lítið á í ríkisstjórn Geirs Haardes við að ná samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ég þekki engan sem gat á þeim tíma eða jafnvel eftir þann tíma sagt með fullvissu: Þetta hefðum við átt að gera, þetta var röng ákvörðun, þetta var rétt ákvörðun, þetta hefðum við átt að gera, þá hefði þetta ekki verið neitt mál, málinu reddað. Ég hef engan hitt sem treystir sér til að fullyrða það.

Það eru einfaldlega þannig aðstæður að það er ekki hægt að krefjast þess af fólki að það taki hina einu réttu ákvörðun á hverjum tíma, og þessar aðstæður eru þannig. Sem betur fer koma þær ekki oft upp, kannski einu sinni á öld eða svo í sögu þjóðar. En við verðum að skilja að það fólk sem var við stjórnvölinn reyndi þó að taka á aðstæðum, oft seint og illa, örugglega oft með röngum ákvörðunum, en það reyndi að bregðast við ástandi sem enginn hafði lent í — enginn.

Þegar málin eru þannig vaxin hef ég einfaldlega enga sannfæringu fyrir því að hægt sé að höfða sakamál á hendur þessum mönnum vegna ásetnings eða stórkostlegs hirðuleysis og vona ég nú að ég vitni rétt í orðalag laganna. En það er auðvitað matskenndur munur, matskenndi munurinn á gáleysi og stórfelldu gáleysi og mat þingmannanefndarinnar, ekki allrar en meiri hluta hennar, er annað en mitt. Ég virði það mat, ég er algjörlega ósammála því, algjörlega, en hér við lok þessarar umræðu og síðar í dag — væntanlega — munum við komast að því hvaða mat þingmenn almennt munu leggja á þessa stöðu og hver niðurstaðan verður.

Verður niðurstaðan farsæl? Verður hún farsæl fyrir íslenska þjóð? Verður hún farsæl fyrir þá sem eiga í hlut? Verður hún farsæl fyrir stjórnmálaflokkana? Þar liggur efinn.