138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:03]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þessi samanburður sem ég lagði til grundvallar þegar ég lýsti þeirri skoðun minni að mestu vonbrigði mín með störf þingmannanefndarinnar væru þau að ekki hefði farið fram framhaldsrannsókn eða sérstök rannsókn vegna þeirra ráðherra sem í hlut eiga. Ég hygg að dæmið sem hefur verið nefnt oft hér í umræðunni og er að einhverju leyti sambærilegt en þó ekki alveg, um rannsóknarnefndina sem danska þingið setti á fót til að vinna í Tamílamálinu og tók sinn tíma eins og þingmaðurinn bendir á og komst að sinni niðurstöðu, sýni okkur að það hefði vel verið hægt að gera þetta með einhverjum slíkum hætti. Kannski ekki nákvæmlega sama hætti, alls ekki, en það voru vel efni til þess að kafa dýpra ofan í málið og gera það betur en raun ber vitni.