138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í ágætri ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar í gær taldi hann það vera mjög óeðlilegt að sjö fyrrverandi ráðherrar í svonefndri hrunstjórn, ef ég man töluna rétt, tækju afstöðu í atkvæðagreiðslu um þetta mál og hefðu jafnvel úrslitaáhrif á það hver niðurstaðan yrði. Ég vil spyrja hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um afstöðu hennar til ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar að þessu leyti.

Í öðru lagi vil ég leiðrétta hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Það er ekki ákært fyrir rof á ráðherraábyrgðarkeðjunni vegna þess að lagaheimildir og lögin voru óskýr. En að mínu mati voru það með þeim alvarlegri mistökum sem gerð voru þegar ráðherraábyrgðarkeðjan var slitin með þessum hætti. Það vó að grundvelli lýðræðisskipulags okkar og það vó að eftirlitshlutverki Alþingis og sú gjörð var mikil ósvinna og kemur eflaust til skoðunar og endurskoðunar á ráðherraábyrgðarlögum.