138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:13]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var einfaldlega ekki þannig að ekki væri verið að gera neitt. Það kemur líka skýrt fram bæði í rannsóknarskýrslunni og í andmælum þeirra ráðherra sem sátu í ríkisstjórninni og í frásögnum af því hvað gerðist, sérstaklega árið 2008. Það var einfaldlega ekki þannig að ekki væri að gerast neitt. Í stjórn efnahagsmála í þessari ríkisstjórn fór eins og allir vita einn ráðherra Samfylkingarinnar með stjórn viðskipta- og bankamála. Sjálfstæðisflokkurinn var með fjármálaráðuneytið og forsætisráðuneytið og svo gegndi formaður Samfylkingarinnar stöðu utanríkisráðherra.

Líklega, eftir á að hyggja, hefði Samfylkingin, flokkur okkar tveggja, átt að sækja mjög fast að taka fjármálaráðuneytið í þessari ríkisstjórn svo hægt væri að gera allt það sem menn sjá nú í baksýnisspeglinum að við hefðum mátt gera árið 2008. En það var alls ekki þannig að það væri ekki verið að gera neitt.