138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[11:48]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar talaði um að Alþingi og þingflokkar næðu ekki saman í þessu máli og hefðu brugðist og hvernig svo sem atkvæðagreiðslan færi væri málið ekki búið. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að hvernig sem atkvæðagreiðslan fer sé það, með tilliti til þeirra upplýsinga sem liggja fyrir með skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar, fyllilega eðlilegur og í raun nauðsynlegur lýðræðislegur farvegur að almenningur fái að segja álit sitt á þessu máli, þessum stjórnmálum og þessu stjórnarfari í kosningum sem fyrst.

Þær upplýsingar sem liggja frammi í öllum þessum skýrslum lágu ekki fyrir fyrir kosningarnar vorið 2009. Nú er búið að formgera hrunið og þá sem mesta ábyrgð bera á því. Ég spyr því hv. þm. Helga Hjörvar hvort hann sé sömu skoðunar og ég að það sé eðlilegt framhald þessa máls og eðlilegur lýðræðislegur farvegur fyrir Alþingi og þjóðina að hér verði haldnar þingkosningar sem fyrst að lokinni atkvæðagreiðslu í dag.