138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:19]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög sérstök staða. Ég er í andsvörum við hv. þingmann um grein sem annar hv. þingmaður hefur skrifað. Þetta sýnir hversu fáránlegt þetta mál er.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði grein fyrir (Gripið fram í.) því í andsvari um daginn þegar hann flutti ræðu sína og lagði á það áherslu að þetta væri hans mat. Hann var ekki að ætlast til að aðrir hefðu sömu skoðanir og hann á því. Þetta er hans mat og hann byggir niðurstöðu sína á því. Þess vegna ítreka ég við hv. þingmann að hann eigi líka að bera virðingu fyrir skoðunum annarra hv. þingmanna.

Ég vil ítreka fyrri spurningu mína til hv. þingmanns, þegar það liggur fyrir að ekki var hægt að láta hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra koma til þings vegna þeirrar vantrauststillögu sem lá fyrir og af því að við erum að tala um þær hörmulegu afleiðingar sem hrun bankanna hafði í för með sér, að miðað við þær upplýsingar sem núverandi ríkisstjórn hafði þegar hún stofnaði bankakerfið — það liggur í augum uppi, ég sé það a.m.k. þannig, að nú er ekki hægt að láta afskriftirnar ganga til fólksins og fyrirtækjanna í landinu vegna þess að ekki var rétt staðið að málum. (Forseti hringir.) Hver er skoðun hv. þingmanns á því? Ég bið hann að vera ekki með frekari útúrsnúninga og svara þessu mjög skilmerkilega. (Forseti hringir.)