138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet menn til að hlusta á og skoða það sem hv. þingmaður sagði. Hann talar um að við eigum að skella út ákæru bara til að kanna hvað gerist, bara til að kanna þetta. (ÁI: Lestu lögin.) Þá geta menn rannsakað þetta. Ég bið hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að hemja sig í þingsalnum. (ÁI: Lestu lögin.) En hv. þingmaður á mjög erfitt með það.

Menn gefa út ákæru af ástæðu, virðulegi forseti, og það verður hv. þm. Árni Þór Sigurðsson að skilja. Menn gera það ekki vegna þess að einhver stemning sé fyrir því þann daginn. Það er hlutverk okkar að meta hvort það séu meiri líkur en minni á sakfellingu. Ég skil núna, virðulegi forseti, af hverju vinnubrögðin hjá hv. þm Árna Þór Sigurðssyni eru eins og raun ber vitni vegna þess að hann telur að þetta sé ekkert mál, það eigi bara að kanna þetta og þess vegna skellir hann ákæru á menn. Það er spurning hvort þetta sé byrjunin á því að hann ætli (Forseti hringir.) að kanna almennt hvort menn séu sekir og taki þar af leiðandi undir (Forseti hringir.) með hv. þm. Birni Vali Gíslasyni sem telur að það eigi að ákæra ef minnsti grunur er um sekt.