138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:26]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns minnti mig á mæta konu í Vestmannaeyjum á síðustu öld, Siggu mey. Hún sagði níræð: Ef ég hefði sagt já við hann Jón minn þegar ég var tvítug þá hefðu málin gengið öðruvísi fyrir sig. Hv. þingmaður er alltaf í nei-inu, alltaf í því neikvæða og elur á því og virðist rækta það upp. Hann varð margsinnis tvísaga í ræðu sinni og gerði engan greinarmun á ábyrgð og refsiábyrgð og ruglaði saman ákæru og sektarákæru. Þetta eru hlutir sem verður að skilgreina.

Ég vil spyrja hv þingmann, af því að hann þekkir vel til vegna nærveru hugsjónalegs eðlis, hvort þetta minni ekki svolítið á dóma Sovétríkjanna, dóma einræðisríkjanna, herforingjaklíkanna og afrískra ættbálka. Er það ekki línan sem hv. þingmaður er að boða með ræðu sinni, að hann trúi (Forseti hringir.) á pólitíska yfirdrottnun?