138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei. Ég hef sagt að málsmeðferðin í þessu máli hafi verið vönduð, við höfum látið framkvæma ítarlega rannsókn. Ákveðnar niðurstöður komu fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, þingmannanefnd var sett á laggirnar og hefur hún unnið sleitulaust mánuðum saman og komist að tiltekinni niðurstöðu og leggur hana hér fyrir Alþingi.

Það er ekki pólitísk misbeiting eða dómur að segja: Já, við ætlum að taka tillögur þessara ítarlegu rannsókna og láta fara fram eðlilega og sanngjarna málsmeðferð í þessu máli. Það er það ekki. Það er hins vegar pólitískur dómur að taka þessa vönduðu og yfirveguðu vinnu og segja: Nei, við ætlum að sýkna, af því að þetta er allt fólk sem við þekkjum og höfum unnið með og við viljum ekki að það axli ábyrgð á því efnahagshruni, þeim aðgerðum og því aðgerðaleysi sem það að mínu viti ber ábyrgð á. (Forseti hringir.)