138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:32]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að mínu viti er það rangt sem hv. þingmaður heldur fram og sú einkunnagjöf röng sem hann gefur ræðu minni en hverjum þykir sinn fugl fagur, eins og sagt er. Ég var ekki að tala um pólitísk réttarhöld og ég hef aldrei gert það. Ég hef verið að ræða um efni þeirra þingsályktunartillagna sem hér liggja fyrir þar sem færð eru rök fyrir því að tilteknir ráðherrar hafi gerst brotlegir við tilgreind lög. Það er refsiábyrgð í málinu. Er það ekki alveg skýrt? Ég tel að hún eigi við. Ég vil ekki pólitísk réttarhöld. Ég vil hins vegar að dómstólar kveði úr um þetta álitamál sem við höfum eytt miklu púðri í og mörgum mánuðum í að fara í saumana á, m.a. með rannsóknarnefndinni (Forseti hringir.) og þingmannanefndinni.