138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum búin að ræða þetta mál nokkuð lengi. Ég tók til máls í 1. umr. og fór þar í gegnum nokkra punkta og mér finnst þessi umræða yfirleitt hafa verið málefnaleg og góð. Til að fyrirbyggja allan misskilning, vegna þess að menn vilja gjarnan misskilja, verð ég að taka fram að skýrslan sem þingmannanefndin skilaði er afbragðsvel unnin. Ég gat þess að þingsályktunartillagan, sem fylgir skýrslunni, væri dálítið loðmulluleg og ég fer ekkert ofan af því, hún er ekki nógu skörp. En skýrslan er mjög góð og hún er mjög beitt þannig að ég tek alveg undir hana.

Ég er ekki eins hrifinn af þessum tveimur þingsályktunartillögum sem við ræðum hérna, um að ákæra fjóra ráðherra. Ég held að þann 11. september 2010 hafi gerst mjög slæmur atburður á Íslandi. Menn vöktu upp draug sem ekki verður kveðinn niður. Þessi uppvakningur vofir yfir okkur til framtíðar og ég held að við verðum sem allra fyrst að breyta lögum um ráðherraábyrgð og um landsdóm þannig að þessi mál séu flutt úr þeim farvegi sem þau eru í í dag, pólitískum farvegi, yfir í að vera venjulegt sakamál fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Þetta er sakamál. Það er verið að segja það að þetta fólk hafi brotið lög.

Menn hafa sagt að þetta sé erfið ákvörðun. Ég kveinka mér ekki neitt. Ég tek mína afstöðu og horfi á niðurstöðuna. Ég tek ekki afstöðu fyrir aðra þingmenn. En ég tel að frá og með þessum degi, 11. september 2010, verði ekki aftur snúið. Við öll stjórnarskipti eftir hverjar kosningar, þegar kominn er nýr meiri hluti sem hefur tögl og hagldir á Alþingi, þá verður kært nema við breytum þessum lögum. Þetta er ekki hótun heldur er þetta svona. Það er alltaf eitthvað sem menn finna athugavert við fráfarandi stjórn og ég nefndi þrjú eða fjögur dæmi í fyrri ræðu minni og ætla ekki að endurtaka það.

Svo er hitt, það er búið að ákæra ákveðið fólk. Í ákærunni sjálfri felst gífurlegur áfellisdómur. Það er mjög þungbært að fá yfir sig ákæru og það er alveg sama hvort hún verður samþykkt eða henni hafnað á eftir, eftirmiðdaginn eða í kvöld, eftir situr ákæra. Þetta er skelfilegt og ég hygg að nefndin hafi bara ekki hugsað þetta alveg til enda, það getur ekki verið. Ef þetta verður samþykkt fer í gang ákveðið ferli og fólkið verður mjög líklega sýknað, að mínu mati, og hver er þá ábyrgð þeirra sem stóðu að þessu? Munu þeir þá hætta eða hvað gerist? Hætta í pólitík fyrir fullt og allt eða hvað? Ef ekki verður ákært svífur ákæran yfir vötnunum og hún er bara þarna. Það er líka mjög slæmt.

Í morgun þegar ég vaknaði hlustaði ég á mjög hressilegt viðtal við Margréti Pálu Ólafsdóttur skólastjóra og höfund Hjallastefnunnar. Það var virkilega endurnærandi, frú forseti, og sérstaklega í byrjun svona erfiðs dags. Hún talaði um reiðina. Hún talaði um óánægjuna og heiftina og ég vil bæta við ljótu orðfæri sem tröllríður umræðunni. Þetta er ekki stór hópur, trúi ég, sem er svona reiður en hann hefur mjög hátt og hann mengar allt þjóðfélagið, hann mengar allt þjóðfélagið í reiðitali sínu.

Nú er það þannig, frú forseti, að reiði er mjög neikvæður eiginleiki og alltaf verst fyrir þann sem er reiður. Reiðin er alltaf verst fyrir þann sem er reiður. Þetta uppgötvaði ég á unglingsárunum, þá var ég stundum reiður og ég hætti því. Ég reyni alltaf að vera ekki reiður nema mjög stutt og þegar hrunið hitti mig eins og aðra þá varð ég reiður í korter. Svo sagði ég: Ókei, þetta eru bara einhver efnisleg gæði sem fóru og hvað með það? En nú er sem sagt búið að vekja upp þennan draug og ég held að þingmenn þurfi allir að taka sig saman í andlitinu eftir þessa atburði og breyta lögunum um ráðherraábyrgð og breyta lögunum um landsdóm.

Það sem Margrét Pála Ólafsdóttir sagði, og ég vil taka undir, er að við þurfum að horfa til framtíðar. Og ég vil að við mörkum okkur þá stefnu að í staðinn fyrir reiði, heift, óvild og ljótt orðfæri förum við í uppbyggingu og stefnum til framtíðar með hugsjónir að leiðarljósi. Við segjum: Hvernig viljum við hafa Ísland barnanna okkar eftir 30 ár? Það er það sem við eigum að gera. Ég hafði vonast til þess að þetta skelfilega hrun bæri þó alla vega þann ávöxt að menn breyttu því sem nauðsynlegt er til að hafa stefnu til framtíðar. En ég er dálítið uggandi eftir það sem gerðist 11. september 2010. En maður á að sjálfsögðu ekki að gefa upp vonina.

Í fermingarveislum og í öðrum fjölskylduveislum er sumt fólk alltaf voðalega viturt eftir á, og það er gersamlega óþolandi. Það segir kannski við vin sinn: Heyrðu, af hverju í ósköpunum varstu að kaupa þennan jeppa með gengistryggðu láni? Datt þér ekkert annað í hug? Áttaðirðu þig ekki á því hvað þetta var hættulegt eða eitthvað svoleiðis? Þetta fólk er svo viturt eftir á að það er óþolandi. Þegar umræddur maðurinn keypti jeppann þá sagði hins vegar þetta sama fólk hvað það hefði verið sniðugt hjá honum að kaupa þennan jeppa á þessum lágu vöxtum, hvað þetta væri snjallt og hvað þetta væri fallegur bíll — sama fólkið, það varð bara viturt eftir á.

Ef menn vita hvað gerist í framtíðinni geta menn afstýrt hörmungum. Sá sem hefði vitað að flóðbylgjan mikla í Asíu, sem varð 200 þúsund manns að fjörtjóni — sá sem hefði vitað það degi áður hefði getað bjargað 200 þúsund manns. Þetta er bara staðreynd en það vissi það enginn, það vissi það enginn í heiminum að þetta mundi gerast. Og ég fullyrði að enginn í heiminum vissi að hrunið kæmi. Þess vegna er svo erfitt að dæma eitthvað sem gerðist fyrir hrun þegar menn vissu ekki af hruninu, dæma t.d. ráðherra fyrir að hafa ekki tekið afstöðu til hrunsins miðað við það að nú veit ég að það varð hrun og ráðherra veit það líka og allir vita það. Það er ekki hægt að dæma menn fyrir það sem þeir gerðu fyrir hrun vitandi núna að hrunið varð. Þetta er stóri vandinn og þetta er ein stærsta ástæðan fyrir afstöðu minni í þessu máli.

Ég hef líka sagt að ég sé ekkert viss um að ég hefði gert betur. Ég er ekkert viss um það. Ég er búinn að spyrja nokkra að því hvað þeir hefðu gert. Hv. þm. Þór Saari og hv. þm. Atli Gíslason sögðu: Það hefði verið hægt að skipa tilsjónarmann með bönkunum, þeir sögðu það báðir. Almáttugur, frú forseti. Þeir átta sig ekkert á hvað bankastarfsemi gengur út á. Hún gengur út á traust. Það er það eina sem bankarnir standa og falla með — þeir falla ef það vantar traust. Það sem gerist ef skipaður er tilsjónarmaður þá er það merki til markaðarins og allra sparifjáreiganda um að sá banki sem í hlut á standi tæpt. Hvað gerir sparifjáreigandinn í slíkri stöðu? Hann hleypur niður í banka og tekur út peningana sína og bankinn er fallinn. Svona hugmyndir, ég veit ekki hvað á að kalla þetta, ég veit það ekki.

Það varð hrun og mjög margir segja: Það varð hrun hjá heilli þjóð og það ber enginn ábyrgð. Það ber bara enginn ábyrgð. Við verðum að finna einhvern til að bera ábyrgð, við verðum að finna einhvern sökudólg. Mér finnst þetta vera mjög ríkt í mjög mörgum, finna einhvern sökudólg, henda einhverjum í fangelsi og þá er búið að friðþægja fyrir það að einhver hafi borið ábyrgð á hruninu, sem kom reyndar utan frá. Það var fall Lehman-brothers sem setti þetta allt í gang en það var morkið innan frá löngu áður. Menn leita að ábyrgð. Ég tel reyndar að þetta fólk hafi fengið þá meðferð í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að það hálfa væri nóg. Ég hefði ekki viljað sjá þau ummæli um mig sem þar standa, um getuleysi ríkisstjórnarinnar o.s.frv.

Síðan kemur þingmannanefndin og bætir um betur, setur fram mjög harðar ádeilur á ríkisstjórnina og ríkisstjórnarstarfið og allt stjórnkerfið. Þannig að það er heldur betur búið að refsa. Ég mundi ekki vilja sjá slík eftirmæli um mig, það er alveg á tæru. Og svo vill til að þessir ráðherrar eru allir hættir og meira að segja hættir í pólitík. Þeir vildu ekki bjóða sig fram, sennilega vegna þess að þeir vissu að kjósendum mundi ekki líka það vel þannig að þeir eru búnir að axla sína ábyrgð. Ég veit ekki hvernig menn taka ábyrgð öðruvísi, pólitíska ábyrgð. Og það er búið að refsa þeim með þessum ummælum í þessum tveim skýrslum.

Mikið hefur verið rætt um mannréttindi og réttlát réttarhöld og að réttarhöld sem standast mannréttindi séu hlutlaus og að færðar séu sönnur á sekt með rannsókn og sakborningar hafi verjendur. Ég vil vitna í einn af þessum fræðimönnum sem ég má víst ekki nefna — mig langar svo mikið til að nefna hann, frú forseti. Það stendur í leyniskjölum. Það er fræðimaður sem er prófessor við háskóla og hann er kona. Hún segir fremst í bréfi sínu — og ég les bréfið reyndar ekki, þetta er mín eigin skrift, ég er ekki með skjalið, ég fæ ekki að sýna skjalið, ég fæ ekki að hafa skjalið hérna. Þetta er leyndarmál. Þetta er svo mikil leyndarhyggja, frú forseti, að ég skil þetta ekki. Það er ekkert merkilegt í þessu skjali, það er ekkert ríkisleyndarmál eða neitt slíkt. En ég verð víst að beygja mig undir þessa leynd. Og ég ætla lesa þetta, ég skrifaði það niður beint eftir bréfi hennar nú rétt áðan:

„Það er mjög erfitt að taka afstöðu til þess hvort ákæra skuli fyrr en lokinni athugun á frumgögnum. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er ekki frumgögn.“

Þetta var ekki gert, því miður. Þessi sérfræðingur lagði engu að síður til, þessi kona, að það yrði ákært. En fremst í bréfinu stendur þetta: „… að lokinni athugun á frumgögnum“. Nefndin kannaði ekki frumgögn. Hún braut mannréttindi að því leyti að hún rannsakaði ekki neitt og ákærir samt. Hún átti að sjálfsögðu að kanna frumgögn fyrir rannsóknarskýrslu Alþingis og hún átti að sjálfsögðu að kalla til nægilega mörg vitni eins og gert var í Danmörku í Tamílamálinu til að fá staðfestingu á þeim ummælum sem voru í rannsóknarskýrslunni, þau ummæli hafa ekkert gildi í dómsmáli vegna þess að viðkomandi höfðu ekki stöðu sakaðs manns. Ég skil ekki í mönnum sem þykjast dýrka mannréttindi og þykjast berjast fyrir þeim að brjóta þau svona greinilega.

Svo vitnaði þessi ágæta kona, af einhverjum ástæðum, í 145. gr. laga nr. 88/2008, um sakamál — ég held að þau heiti það, ég man ekki hvað þau heita. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Þegar ákærandi hefur fengið gögn máls“ — ég er núna ákærandi ásamt hv. nefnd — „í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið …“ Frú forseti, þetta segir aðalvitni nefndarinnar sem lagði til að ákært yrði. Hann segir í framhaldinu: „… athugar hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki.“ — Þetta var ekki gert. Það var engin rannsókn, frú forseti, og ákæran var birt 11. september 2010. Mér finnst það alveg með ólíkindum, og fólkið veit ekki enn þá að það sé með stöðu sakaðs manns. En menn fer reyndar að gruna ýmislegt þegar það kemur fram í fjölmiðlum að það eigi að fara að kæra það með þingsályktun frá Alþingi. En það hefur aldrei verið yfirheyrt með stöðu sakaðs manns.

Þessi regla er öll brotin Sakarefnin eru svo óljós að ekki er nokkur einasta leið að henda reiður á þeim. Hvað þýðir að þú hafir átt að skipa nefnd? Hvenær átti hún að skila áliti? Þú áttir að skipa nefnd í maí, skulum við segja, til að rannsaka hvað var að gerast. Átti hún að skila áliti í nóvember, eða hvað? Það hefði reyndar orðið eftir hrun. Svo er sagt að ekki hafi verið haldnir fundir. Enginn spyr: Af hverju voru ekki haldnir fundir? Af hverju var þetta mál ekki tekið upp í ríkisstjórn? Þá gæti komið fram, sem ég held að sé, að það sé vegna lausmælgi. Nú veit ég það ekki og það veit enginn af því að það var ekki spurt. Það var ekki spurt í hv. nefnd: Af hverju voru ekki haldnir ríkisstjórnarfundir um þetta málefni? Það var ekki spurt. Þetta er náttúrlega ekki hægt, frú forseti, þetta er ekki hægt.

Það er hluti af því að vera með réttlát réttarhöld að þau séu hlutlaus. Þessi eru ekki hlutlaus. Hér eru vinir og óvinir að fjalla um ákærur á hendur sessunautum sínum. Það eru fyrst níu þingmenn sem eiga að kæra, eða sjö þeirra, ráðherra sem eru í flokkum sem eru þeim andsnúnir, nema tveir sem eru í Samfylkingunni. Síðan koma 63 þingmenn. Sumir hafa verið mjög reiðir í stjórnarandstöðu í 18 ár, mjög reiðir, vinstri grænir eru mjög reiðir. Ég hef séð þá blána af reiði í ræðustól út í þá menn sem þeir eru að fara að ákæra. Ég nefndi tvo þeirra, hæstv. ráðherra, í fyrri ræðu minni og ætla ekki að endurtaka það, menn geta flett því þar upp. Svo gerist það í þessu merkilega hlutlausa réttarhaldi að Alþingi kýs saksóknara. Það er aftur sami hópur manna, vinir eða óvinir hinna ákærðu, sumir reyndar hlutlausir, sem þar ræður ferð. Sá saksóknari rannsakar málið — hann er náttúrlega valinn eftir því sem meiri hlutinn telur vera skynsamlegt — og það fer fyrir landsdóm þar sem Alþingi kýs átta af 15. Aftur er kominn sami hópur að dæma þessa félaga sína. Þetta er ekki hlutlaust réttarhald, frú forseti. Við verðum að breyta þessu til framtíðar. Ég vil ekki sjá svona réttarhöld í framtíðinni jafnvel þó að það mundi gagnast mér að fara að kæra þá ráðherra sem nú eru að véla um hlutina. Það er ýmislegt sem ég hef við það að athuga.

Ég vil benda á að ákæra er alltaf mikið áfall fyrir þann sem fyrir verður, sérstaklega í þessu tilfelli. Þetta fólk fær væntanlega hvergi vinnu. Hver vill ráða fyrrverandi ráðherra sem sætir ákæru fyrir landsdómi? Það hefur sennilega enga vinnu í 2–3 ár, þann tíma sem þessi málaferli taka. Þau munu gera það, ég spái því. Þetta fólk fær væntanlega einhvern tíma réttarstöðu grunaðs manns þó að þegar sé búið að ákæra það — þetta er alveg ótrúlegt. Það er sem sagt fyrst ákært og síðan rannsakað. Þannig var það ekki í Danmörku, í Tamílamálinu sem mikið hefur verið vitnað til. Þetta er sem sagt pólitískt mál.

Þegar ég var kosinn á þing var ég kosinn á grundvelli pólitíkur. Ég var í framboði fyrir ákveðinn flokk og það var pólitík. Ég stunda lagasetningu sem er pólitík, ég stunda fjárveitingar sem eru pólitík og ég stunda eftirlit með ráðherrum sem er pólitík. En ákæra er ekki pólitík. Ég lít á mig núna sem einstakling sem stendur hérna og get ekki annað. Ég kveinka mér ekki en þetta hefur ekkert með pólitík að gera. Ég er að taka ákvörðun um það hvort ég eigi að ákæra fólk og krefjast þess að það verði dæmt sem glæpamenn og sett í fangelsi. Það er það sem ég er að taka ákvörðun um núna, ég sjálfur. Og þessir ákærðu eru samstarfsmenn mínir nema tveir. Einn var sessunautur minn í ákveðinn tíma og það fór vel á með okkur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er fjarlægari, hún var einu sinni með mér í nefnd. Ég get varla sagt að ég þekki hana neitt sérstaklega vel en hún er andstæðingur minn, það eru tveir af þessum ráðherrum andstæðingar mínir í pólitík. Það skiptir mig engu máli. Tveir þeirra eru samherjar mínir og ég er að reyna að vona að það skipti mig heldur ekki máli.

Ég hef í gegnum tíðina ekki verið neitt sérstaklega flokkshollur, og stjórnarandstaðan hefur oft bent á það, og ég er það ekki núna. Ég hlusta ekki á þingflokk Sjálfstæðisflokksins, frú forseti, í þessu máli. Ég stend algerlega einn í þessu máli. Ég hlusta ekki á þingflokkinn. Ég hlusta ekki á þingmenn yfirleitt. Ég hlusta ekki á sjálfstæðismenn eða ályktanir þeirra. Ég hlusta ekki á skoðanakannanir. Ég stend hér einn og fer eftir sannfæringu minni. Og mér finnst að þessi málatilbúnaður sé allur á þann veg að hann sé allt of mikið litaður af pólitík. Þetta eru ekki hlutlaus réttarhöld, það er ekki búið að færa sönnur á sekt, það er bara ekki búið að því. Ég tel mig á þeim tíma ekki hafa getað gert betur. Það var hellingur sem menn gerðu. Menn voru að vinna mjög margt og mikið og margt mistókst en sumt tókst alveg svakalega vel.

Ég vil benda á eitt sem var kraftaverk, það voru neyðarlögin. Neyðarlögin héldu efnahagslífinu gangandi í gegnum hrunið. Ég hef talað við útlendinga, menn frá Taívan, og spurt þá: Hvað mundi gerast ef 80% af bankakerfinu ykkar hryndi? Þeir horfðu á mig og svo sögðu þeir: Heyrðu, það yrði sennilega hungursneyð þegar fólk getur ekki keypt mat í margar vikur og mánuði. Hér á landi tókst að halda þessu gangandi í gegnum allt hrunið og það var kraftaverk. Það var kraftaverk, frú forseti, og við skulum ekki gleyma því.

Nú stend ég hér og á að setja fram kærur á fólk eins og það sé glæpamenn, svo að það fari í fangelsi fyrir mjög óljósar sakir og í ákæru og réttarhöldum sem eru engan veginn hlutlaus. Þar sem ég trúi á mannréttindi get ég ekki staðið að þessum ákærum á hendur ráðherrum, engum þeirra.