138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[12:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta þingmn. um skýrslu RNA (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal fullyrðir að ekki hafi verið kallað eftir frumgögnum. Ég vísa til þess að nefndin skrifaði forsætisráðuneytinu bréf fyrir hönd ráðuneytanna — sem hún verkstýrir sem slík, hæstv. forsætisráðherra — og enn fremur Seðlabankanum til að kalla eftir gögnum. Þau gögn liggja fyrir, meðal annars endurrit af fundum samráðshóps um efnahagsmál. Ég verð síðan að ítreka að lögin um landsdóm eru sérlög um sakamálaréttarfar, sérlög sem eru talin standast fyllilega. Þau mæla fyrir um aðra málsmeðferð en lög um meðferð sakamála sem eru nýsett á þingi. Þessi sérlög um málsmeðferð fyrir landsdóm eru talin standast fyllilega. Þetta vildi ég taka fram vegna þess sem fram kom í ræðu hv. þingmanns.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann: Telur hann að unnt sé að víkja frá stjórnarskrárákvæðum, og þá á ég við 17. gr., um ríkisstjórnarfund um mikilvæg stjórnarmálefni, vegna meintrar lausmælgi? Hvernig má það vera að við getum ýtt stjórnarskránni í burtu á þeim grundvelli?