138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:32]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þetta svar og vil um það segja að það er nákvæmlega sami skilningur og ég hef á þessari stöðu. Ljúft væri hitt að geta með einhvers konar samviskuúrskurði sagt: Ja, þessir eru meiri kónar og þessir eru verri glæponar — fyrirgefið orðbragðið, þetta er til dæmis en ekki upp kveðinn dómur um þetta fólk, ekkert af því, — og þess vegna eiga þeir að sleppa sem við höfum þó náð í. Það er ekki þannig í venjulegu réttarfari og getur ekki heldur verið þannig hjá okkur.

Þá kemur eiginlega hin spurningin og hún er þessi: Lýsing hv. þingmanns á störfum forsætisráðherra einkum — og ég tel að það sé kannski hann sem við eigum fyrst og fremst að ræða því að þeir aðrir sem eru undir koma í raun og veru allir á eftir skipstjóranum, ábyrgð þeirra hlýtur að ráðast sem fall af ábyrgð skipstjórans að nokkru leyti — var satt að segja áhrifamikil lýsing og ég vil spyrja þingmanninn hvort hann geti skilið ákvæði laganna um alvarlega vanrækt og stórkostlegt gáleysi á einhvern annan hátt en þann sem hann lýsti í störfum fyrrverandi forsætisráðherra. Hvað er alvarleg vanrækt og stórkostlegt gáleysi ef ekki þetta?