138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:34]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er margt sem ég tel að við þurfum að taka til skoðunar þegar við reynum að komast að niðurstöðu í þessu erfiða máli. Í fyrsta lagi er það mat á þessum ákæruatriðum og hversu vel okkur finnst þau standast skoðun. Ég gerði tilraun í ræðu minni til að fara í gegnum það áðan og mér finnst það vera afar mismunandi eftir því hvaða ráðherra á í hlut.

Í annan stað tel ég mikilvægt til að sanngirni sé gætt og það sé mikilvægt leiðarljós í því vandasama hlutverki sem við erum í að skoða hvort viðkomandi einstaklingar eigi sér málsbætur, hvort þeir t.d. hafi gripið til einhverra aðgerða sem ætla mætti að hefðu skipt máli varðandi það að lágmarka tjónið fyrir þjóðina.

Í þriðja lagi: Hver var aðgangur þeirra annars vegar að upplýsingum og hvaða tæki höfðu þeir til að grípa til aðgerða? Ég held að í sjálfu sér geti ég svarað því að þau ákæruatriði sem hv. þm. Mörður Árnason spyr um gefa í sjálfu sér tilefni til að fallast á þá niðurstöðu flutningsmanna að um alvarlega vanrækslu hafi verið að ræða. En það er ekki endanlegt svar við spurningunni. Við þurfum líka að taka til skoðunar bæði niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar um að meginábyrgðin liggi fyrr í tíma, að örlög fjármálakerfisins hafi í reynd verið ráðin þegar þessi ríkisstjórn tekur við, og því til viðbótar að meta hversu þungt við vegum þær málsbætur sem viðkomandi aðilar hafa hver í sínu lagi.