138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni Skúla Helgasyni fyrir ágætlega málefnalega ræðu þar sem kom skýrt fram það sem ég hef sagt að hver og einn þingmaður verði að vega og meta við sína samvisku og sannfæringu og telja þannig hvað vegi þyngra, hægra megin eða vinstra megin, og hvað sé léttara á vogarskálunum.

Mig langar að bregðast við tveimur eða þremur atriðum í ræðu þingmannsins. Hann talaði um að á árunum fyrir 2006, sérstaklega árunum 2002, 2003 og 2004 hefði verið veruleg þensla og talaði um nokkur hagstjórnarmistök sem voru gerð og talin eru upp í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann telji að þær opinberu framkvæmdir sem ríki og borg stóðu fyrir, m.a. við tónlistarhúsið Hörpu og viðbyggingu á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hafi ekki verið verulega þensluhvetjandi á suðvesturhorninu þar sem þenslan var langmest. Hún var miklu minni annars staðar.

Þá kom þingmaðurinn nokkrum sinnum inn á og vísaði stundum svolítið óljóst til skýrslu rannsóknarnefndarinnar um hver bæri meginábyrgð og hverjar væru meginniðurstöður um hvað hefði gerst á árinu 2006 og hvenær ekki hefði verið aftur snúið. Hann vísað rétt til rannsóknarskýrslunnar fyrst í ræðu sinni en í tvígang seinna í ræðunni fór hann óljóst með, eins og því miður margir þingmenn hafa gert í salnum. Þeir hafa haldið því fram að frá miðju ári 2006 hefði alls ekki verið aftur snúið, hér yrði fullkomið fjármálahrun með öllum þeim afleiðingum sem því fylgdu. Það er rangt. Í rannsóknarskýrslunni stendur m.a. að á miðju ári 2007, þegar stærð bankanna var orðin sjöföld landsframleiðsla, þá hefði í síðasta lagi verið hægt að snúa við og gera eitthvað af viti, þ.e. í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Mér finnst það skjóta skökku við.

Ég verð að bæta (Forseti hringir.) þriðja atriðinu við á eftir en mig langar að heyra viðbrögð þingmannsins við þessu tvennu.