138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:38]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir þessar fyrirspurnir. Ég tel í sjálfu sér að það sé ekkert svar við gagnrýni minni á hagstjórnarmistök áranna 2002–2006 að benda á að aðrar ríkisstjórnir hafi sömuleiðis hvatt til þenslu. Ég geri engan greinarmun á því. Það er ábyrgðarhluti að ýta undir þensluhvetjandi aðgerðir þegar hagkerfið er í yfirsnúningi, alveg sama hverjir eiga í hlut og alveg sama á hvaða tímum það er.

Svo get ég verið sammála hv. þingmanni um að mikilvægt er að menn fari rétt með ívitnanir í heimildir. Ég las beint upp úr skýrslunni varðandi þessi skil sem rannsóknarnefndin telur að hafi orðið á árinu 2006. Þar er því haldið fram í meginniðurstöðum skýrslunnar að þá hafi í reynd verið síðasta tækifærið til að afstýra hruni en það er hárrétt hjá hv. þingmanni að ýmislegt var hægt að gera eftir það til að lágmarka eða draga úr því tjóni sem almennings beið, ef svo má segja, af þeim fjármálaáföllum sem voru yfirvofandi. Auðvitað vissi enginn beinlínis að allt fjármálakerfið mundi hrynja á haustmánuðum 2008 en það átti að vera morgunljóst að hér voru það alvarlegir hlutir á ferðinni að það kallaði á miklu kröftugri viðbrögð en við sáum á þeim tíma.