138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[13:59]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Allt orkar tvímælis þá gert er. Það sem gert var í gær kann að orka tvímælis í dag. Þannig er lífið, það gengur upp og niður, það eru skin og skúrir, og þannig er pólitíkin og mannlífið í þessu landi. Við getum endalaust togast á um ákveðna hluti, um lagasmíðar, skyldur og réttindi, en við skulum ekki gleyma því sem allt á að byggjast á, mannlega þættinum. Stjórnmál eru til vegna mannlega þáttarins, skiptra skoðana og misjafnrar reynslu og það er mergurinn málsins. Pólitík er hvunndagsbarátta sem dregur dám af aðstæðum hverju sinni. Það sem hæstv. ráðherra kann að þykja rétt í dag kann að breytast á morgun. Mig langar aðeins til að víkja að þessum þætti vegna þess að mér finnst hann skipta miklu máli þegar kemur að því að taka ákvörðun í viðkvæmum málum.

Það er illt þegar refsigleði ræður ríkjum, þegar alið er á tortryggni, þegar Gróa á Leiti verður höfuðpersónan, þegar efnt er til ófriðar í stað friðar. Íslenskt samfélag hefur löngum byggst á því að maður er manns gaman og þess vegna er það þeim mun meiri skylda að huga að öllum þáttum í mannlífinu þegar kemur að því að velja á milli refsigleðinnar og fyrirgefningarinnar. Það kann að skarast en það er úr vöndu að ráða.

Það er skelfilegt þegar þingmenn halda að þeir séu orðnir lögfræðingar þó að þeir blandi sér í nokkur atriði er varða lagasetningu, það er mikill munur þar á. Maðurinn á götunni stjórnar ekki hjartaaðgerð, það þarf að læra til þess og búa yfir reynslu til þess, og þingmenn geta ekki sett sig í dómarasæti í þessum efnum, síst af öllu yfir samferðamönnum sínum í stjórnmálum. Okkur getur greint á í umræðum, við getum skipst á skoðunum, við getum hnakkrifist og deilt og það er eðlilegt, hvort sem er í hæverskum viðskiptamannastíl eða lúkarstíl, en það er hluti af því að skiptast á skoðunum.

Það er líka skelfilegt að upplifa það eftir að hafa verið viðloðandi Alþingi í á þriðja áratug að þegar nýliðar koma inn á þing, sem eru alls góðs verðir og hið mætasta fólk, þá stilla þeir sér upp eins og þeir þekki allar leikreglur og verklagsreglur í stjórnmálunum og ekki síst í ríkisstjórn landsins. Það er ekki ofsagt að það taki nokkur ár að læra á þetta kerfi, hvort sem það varðar þingnefndir, ríkisstjórn eða aðra þætti. Þess vegna er hryggilegt þegar nýliðar — ég er ekki að gera lítið úr þeim en þeir búa engu að síður ekki yfir mikilli reynslu, þeir búa ekki yfir þekkingu á því hvernig kaupin ganga fyrir sig á eyrinni og stór hluti af stjórnkerfi okkar byggist á þeirri hefð. Við gagnrýnum það oft að stjórnkerfið sé laust í reipunum, það sé ekki samræmi í því en það er hefðin, það er hluti af íslensku samfélagi hvort sem við teljum það vera veikleika eða styrkleika. Við komumst ekkert hjá því. Þess vegna er þeim mun erfiðara að stilla sér upp þannig að menn sitji við sama borð.

Ákæra er mjög alvarleg af því að hún er krafa um refsingu. Hún er ekki krafa um sýknu, hún er krafa um refsingu.

Í ljóði Davíðs Stefánssonar Úr útsæ rísa Íslands fjöll segir, með leyfi forseta:

Úr útsæ rísa Íslands fjöll

með eld í hjarta, þakin mjöll

og brim við björg og sand.

Þó mái tíminn margra spor,

þá man og elskar kynslóð vor

sitt fagra föðurland, sitt föðurland.

Við tölum íslenskt tungumál

Við tignum guð og landsins sál

og fornan ættaróð.

Þeir gjalda best sinn gamla arf,

sem glaðir vinna þrotlaust starf

til vaxtar vorri þjóð, til vaxtar þjóð.

Á meðan sól að morgni rís

og máni silfrar jökulís

og drengskapur er dyggð

skal fólkið rækta föðurtún

og fáninn blakta efst við hún

um alla Íslands byggð, Íslands byggð.

Virðulegi forseti. Eigum við þingmenn og þeir þegnar landsins sem telja að eindregin umsókn Samfylkingarinnar um aðild að Evrópusambandinu sé sakarverð — við erum mörg sem teljum að slík umsókn ógni sjálfstæði Íslands, ógni öryggi Íslands og valdi því, ef til kemur, að við yrðum að láta af stýringu á auðlindum okkar bæði til lands og sjávar — að kæra Samfylkinguna? Á það að vera opin leið? Auðvitað ekki. Þetta er pólitík og við getum deilt um hana án þess að þurfa að ganga til dómstóla. Við getum skipst á skoðunum, við getum barist fyrir sjónarmiðum okkar hver sem þau eru, lagt þau fyrir fólkið í landinu, lagt þau í dóm fólksins en við eigum aldrei að gerast dómarar yfir sessunautum okkar, aldrei. Það er óeðlilegt, það er óart, það er skelfileg óart og það eru skelfileg mistök hjá hæstv. Alþingi að setja þá nefnd sem við köllum þingmannanefnd í það hlutverk sem hún var sett í. Það verður bara að viðurkennast, það voru skelfileg mistök, því að þetta ágæta fólk var sett í aðstöðu sem ekki er hægt að leysa með neinum friði eða neinni sátt. Þá er betra heima setið en af stað farið, betra að taka ekki áhættu á því að slíta friðinn, rjúfa friðinn, sem við höfum státað af í þúsund ár vegna einnar ákvörðunar um kristni í landinu hvað svo sem hún nær langt.

Þegar komið er að því að það á að dæma menn fyrir að taka þátt í félagslífi, stjórnmálalífi, fyrir það að sinna pólitískum verkum með öllum þeim agnúum sem þeim fylgja þá erum við komin í vond mál. Það er sagt að þeir stjórnendur landsins sem um er rætt hafi ekki séð fyrir ákveðna hluti, sjá menn virkilega ekki fyrir í dag að ef gengið verður til sakamála gagnvart stjórnmálamönnum á Íslandi er fjandinn laus og það verður ný Sturlungaöld í landinu með kærum, kærum, kærum, kærum og kærum. Þurfum við á því að halda í dag, góðir alþingismenn? Nei, hv. alþingismenn, við þurfum ekki á því að halda. Við þurfum á því að halda að víkja okkur frá vandanum og vinna verkin sem bíða fyrir næsta dag. Við erum föst í hjólfari í dag, þingið tekur viku eftir viku í það að fjalla um mál sem skipta í raun engu máli þegar kemur að því að ná árangri fyrir heimilin í landinu, atvinnulífið, þjóðfélagið í heild. Ef eitthvað hefur farið úrskeiðis er sjálfsagt að fara ofan í saumana á því en það getur tekið langan tíma.

Hafskip var á sínum tíma sett á hausinn á röngum forsendum. Hafskip var ekki gjaldþrota en það tók eitt og hálft ár að komast að því hvernig fjárhagsleg staða Hafskips var í raun og veru. Þá var búið að slátra fyrirtækinu og þá var búið að slátra sumum stjórnendum þess sem urðu veikir til dauðadags, urðu úr leik vegna þess að þeir urðu veikir, helsjúkir menn. Til þess eigum við að horfa og læra af því þegar við göngum til ákveðinna verka í dag, þegar við göngum út úr brimgarði vandamálanna.

Ég trúi því að flestir þingmenn séu þingmenn af hugsjón, ekki hagsmunapoti heldur hugsjón. Það er mjög hæpið að þingmenn fari í þá stöðu sem við erum í nema af hugsjón. Það eru tvö ár liðin frá hruni, við þurfum miklu lengri tíma til að meta hluti sem vissulega liggja í loftinu en liggja ekki á hreinu. Þegar maður lendir í brotsjó, lendir inni í brimgarði þar sem er nánast ekkert hægt að gera, og það hef ég sjálfur upplifað, þá getur maður hvorki tekið ákvarðanir né skipulagt hluti. Maður bregst ósjálfrátt við og svo ræður lukkan hvað kemur út úr því.

Enginn þeirra sem hér er fjallað um til ákæru hefur sýnt nokkurn hlut sem er hægt að taka sem fugl í skógi í hönd og segja: Þarna voru mistök. Það eru engin klár dæmi nema við viljum byggja á pólitísku réttlæti.

Í næsta húsi við Alþingishúsið, Dómkirkjunni, flutti séra Hjálmar Jónsson ræðu á sunnudag, með leyfi, virðulegi forseti:

„Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.““

Við þekkjum reyndar ágætt dæmi úr Njálssögu þegar Þráinn höfðingi í Holti kom í brúðkaup Gunnars á Hlíðarenda, settist yst til sæta og sagði: Nú mega allir vel við una. Farið að taka sæti.

Þannig eiga alþingismenn að hugsa. Þeir eiga að hefja sig yfir hvunndagshégómann og gefa færi á því að allir megi vel við una hvar sem þeir sitja, háir eða lágir, fátækir eða ríkir.

Það segir einnig í ræðu dómkirkjuprests, með leyfi forseta:

„Með sérhverju góðu verki sem Kristur vann, urðu fræðimennirnir og farísearnir vissari um að hann væri stórhættulegur maður, sem virti engin takmörk og bryti lögin. Allt þyrfti að gera til að stöðva hann. Ein meginástæðan fyrir því að Kristur var tekinn af lífi var sú að hann læknaði fólk á hvíldardögum, með öðrum orðum vann á hvíldardeginum og gerðist með því brotlegur við lögin.“

Þannig voru lögin sem farið var eftir og það mátti ekki sinna neinum verkum á hvíldardögum. En það mátti bjarga gripum úr brunni, úr ám frá dauða en það mátti ekki bjarga fólki. Þetta braut Jesús og hlaut illt hjá dómurunum, hjá lögmönnunum sem hönkuðu hann á þessum lagabrotum.

Á hvaða leið erum við, hv. þingmenn, í að hanka samstarfsmenn okkar á lagabrotum? Á hvaða leið erum við? Á hvaða refsistigi viljum við vera? Viljum við upphefja Sturlungaöld á Íslandi eða viljum við vinna til árangurs fyrir þjóð okkar þannig að fólk geti staðið upp með reisn og virðingu?

Virðulegi forseti. Ræða dómkirkjuprests, séra Hjálmars Jónssonar, á sunnudaginn var mögnuð. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Kristur var sífellt gagnrýndur, hversu mjög sem hann lagði sig fram. Hann neitaði aldrei nokkrum um hjálp. Hann afþakkaði heldur aldrei boð gestrisins fólks. Allt til loka vænti hann þess að fólkið sæi þetta sjálft. Eins og varð til að mynda í húsi Sakkeusar. Þegar nærvera Krists varð til þess að tollheimtumaðurinn og fólk hans breytti um innstillingu og lífsstíl. Hann þáði líka boð andstæðinga eins og faríseans í texta dagsins. Ekkert breytist ef við lokum á samskipti, það getur þurft viljastyrk til að láta sem ekkert sé, halda áfram þrátt fyrir svikráð og undirhyggju. En góðverkið í dag var notað gegn honum síðar. Kristur linaði þjáningu manns á röngum tíma, það vatt upp á sig, það varð á endanum dauðasök. Fólkið varð múgur, hamslaus og sefjaður múgur sem hrópaði í sífellu „Krossfestu hann.““

Á hvaða stigi erum við þegar við, svo dæmi sé nefnt, krefjumst þess að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sé krossfest? Á hvaða stigi erum við? Við erum á skammarlegu stigi sem er vanvirðing við Alþingi, vanvirðing við sjálfstæði þessa lands og vanvirðing við þjóðina. Svona hlutir eiga ekki að geta gerst, virðulegi forseti. Það er alveg sama hvað dómararnir í okkar röðum telja sig mikilmektuga, klára, snjalla og sanngjarna þá gengur þessi vinnuaðferð ekki.

Dómkirkjuprestur sagði í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Sumpart svipar þessu til Íslands í dag. Áþekkir atburðir hafa alltaf verið að gerast í heiminum — einnig í okkar litla landi. Eftir siðbótina varð rétttrúnaðartímabilið. Þá þurfti að hreinsa kirkjuna, hreinsa af fornum bábiljum. Við hin lútersku og aðrar kirkjudeildir siðbótarinnar urðum kaþólskari en páfinn. Reglugerðir og ákvæði, sem var vandlega framfylgt urðu markmið margra.

Stundum hefur sú skoðun verið uppi að hægt sé að stjórna siðferði fólks með lögum. Að lög og reglur geti náð yfir allt og þannig sé hægt að skapa fullkomið samfélag. Á dögum Kristjáns IV., í þeim jarðvegi sem þá var, varð Stóridómur til. Leit hófst að afbrotum, jafnvel minnstu afbrotum varð nánast takmarkalaus. Vandlæting og rannsókn allra gagnvart öllum. Þá galt margur saklaus maðurinn, karlinn og konan, fyrir litlar sakir með lífi sínu. Galdraofsóknirnar, múgsefjunin, sem grasseraði bæði hér í Evrópu og í Ameríku, voru svo engu betri en rannsóknarrétturinn illræmdi og ofsóknir aðrar. Þessi hætta“ — hv. þingmenn — „er alltaf fyrir hendi. Enda þótt svo ætti alls ekki að vera á okkar tímum. Við teljum okkur fremri fáfróðum almenningi fyrr á öldum. Samt sem áður er nú alið á hatri, tortryggni og óvild. Miðað við upplýsinguna, þekkinguna, gáfurnar, skynsemina, ætti varla að þurfa að óttast fordóma og sefjun. Upplýst íslenskt samfélag á ekki að þurfa að falla í slíka gryfju. Því miður eru samt mörg teikn um að það sé einmitt raunin. Kristur vitnaði í undantekningu í reglugerðum skriftlærðra forðum. Ef dýr féll í gryfju eða brunn mátti bjarga því. Hvers vegna má þá ekki bjarga mönnum?“

Dómkirkjuprestur sagði á sunnudaginn, með leyfi forseta:

„Nú er meðferðin slík á nokkrum fyrrverandi ráðamönnum á Íslandi að dýraverndunarsamtök væru komin á fulla ferð ef skepnur ættu í hlut.“

Nú er meðferðin slík á nokkrum fyrrverandi ráðamönnum á Íslandi að dýraverndunarsamtök væru komin á fulla ferð ef skepnur ættu í hlut. Hver er munurinn hér, stigsmunurinn á milli Dómkirkjunnar og Alþingis? Þættir sem hafa flotið saman í þúsund ár og reynt að finna skynsamlegan farveg. Þetta er skelfilegur vitnisburður og örugglega réttur og það er það sorglega.

Gildran sem var lögð fyrir hv. þm. Atla Gíslason, einn færasta lögmann landsins, sú gildra að ætla honum það hlutverk að stýra nefnd til farsældar í þessu máli var dauðagildra. Hún var dauðagildra fyrir virðingu, metnað, traust og reisn fólks á Íslandi, því að við getum ekki lifað í þessu landi nema við ástundum kærleika, fyrirgefningu, samstöðu og samúð, að maður geti verið manns gaman, þó að við að sjálfsögðu gleymum ekki að við höfum dómstóla til þess að fjalla um mál sem þar eiga heima. Og við eigum nógan mannskap í því í landinu og þurfum ekki setja þingmenn í þá gildru að taka sér það hlutverk. Það er dauðagildra.

Dómkirkjuprestur, séra Hjálmar Jónsson, sagði í seinni hluta ræðu sinnar:

„Ég sá uppfærsluna á leikverkinu Enron í Borgarleikhúsinu í vikunni. Vel er því þar lýst hvað fór úrskeiðis í því stóra gjaldþroti. Boðskapurinn kemst prýðilega til skila. Það sem bilaði voru vissulega mennirnir sjálfir. Stjórnendur orkurisans Enrons fundu leiðir fram hjá lögum og leikreglum samfélagsins, þeir voru lögbrjótar og svindlarar og þeir vissu það auðvitað sjálfir. En þeir héldu því áfram, gegn betri vitund, meðan hægt var. Það gerðu þeir með fulltingi lögmanna og löggiltra endurskoðenda. Þeir voru einnig dyggilega studdir af yfirborðskenndu fjölmiðlafólki, lítilþægum stjórnmálamönnum og hugsunarlitlum lýð. … Múgsefjun var það, Hrunadans, þar sem hálfærður almenningur dansaði með og hóf viðskiptajöfrana til skýjanna, mærði þá á allan hátt og vonaðist um leið til að græða eitthvað sjálfur. Nú eru liðin átta ár frá því gjaldþroti. Aðeins eru tvö ár frá gjaldþroti íslensku bankanna. Sá tími kemur vonandi fljótlega, að við getum skoðað hrunið í sögulegu ljósi og byggt á hinum réttu upplýsingum um staðreyndir mála.“

Í dag eigum við að taka ákvörðun um það hvort við rjúfum friðinn, hvort við ölum á tortryggninni, öfundinni, óvildinni og allsherjarillindum landsmanna á milli. Á það er ekki bætandi í dag. Við þurfum að standa saman um það að snúa vörn í sókn og snúa okkur að þeim brýnu verkefnum sem bíða, hætta þessum málfundaræfingum hér á hv. Alþingi, taka af skarið og sinna þeim verkum sem varða heimilin í landinu, atvinnulífið í landinu, menninguna, stöðu landsins inn á við og út á við, sjálfstæði Íslands, framtíð Íslands, því við eigum að véla um það fyrst og fremst að það sé leikgleði og framfarasókn í því sem við erum að gera en ekki að ala á illu.