138. löggjafarþing — 168. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[14:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Í þessari miklu umræðu, annars vegar um skýrslu þingmannanefndarinnar og hins vegar um það sem nú er til umræðu, tillögu um ákærur á hendur nokkrum fyrrverandi ráðherrum, hefur því miður allt of mikið verið rætt um allt annað en átti í raun að ræða, allt annað en það sem þingmannanefndin sendi frá sér. Það á bæði við um skýrsluna og ákærurnar.

Hvað skýrsluna varðar hafa menn heimtað alls konar upplýsingar og rannsóknir, nefndarmenn hafa síðan þurft að koma hér upp í ræðustól og benda á að þær upplýsingar sem mönnum þótti vanta væru í skýrslunni og vísa þeim á það á hvaða blaðsíðum væri hægt að finna þær. Það sama á í raun við um umræðuna um ákærurnar. Hún hefur farið út um víðan völl og í mjög mörgum tilvikum snúist fyrst og fremst um annað en rök nefndarmanna og þá menn sem rætt er um að ákæra hugsanlega.

Þetta hefur reyndar sérstaklega átt við í tilviki þingmanna ríkisstjórnarflokkanna og þá kannski sérstaklega Samfylkingar, en þeir hafa lagt ofuráherslu á að ræða um önnur tímabil en þau sem hér eru undir. Því skyldi sú vera raunin? Jú, það er vegna þess að öll þessi umræða hefur því miður farið að snúast um það að dreifa athyglinni í stað þess að ræða vandann, í stað þess að ræða hvernig eigi að taka á vandanum og læra af honum.

Þegar þingmannanefndin skilaði skýrslu sinni, plaggi upp á yfir 300 síður þar sem farið var yfir eitt og annað sem úrskeiðis hefði farið á Íslandi og birtar tillögur um hvernig mætti bæta þar úr, snerist umræðan um það að ekki hefði verið ákveðið að ráðast í nýja rannsókn á einkavæðingu bankanna. Það stóð upp úr. Þrátt fyrir alla þessa skýrslu snerust fréttirnar fyrst og fremst um það að það ætti ekki að fara í enn eina rannsókn á einkavæðingu bankanna vegna þess að fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefðu ekki verið hlynntir því. Það var reyndar lítið fjallað um athugasemdir framsóknarmanna, sjálfstæðismanna og formanns nefndarinnar um einkavæðingu bankanna, spuninn var látinn ráða för og umræðan var að verið væri að reyna að fela eitthvað og reyna að þagga eitthvað niður, sem auðvitað var fjarri sanni.

Þess vegna bar ég fram breytingartillögu þess efnis að einkavæðing bankanna, bæði sú fyrri og hin síðari, yrði rannsökuð enn á ný í þeirri von að ef það yrði gert mundu menn á endanum sætta sig við að það mál hefði verið gert upp og að þeir ætluðu að læra af því. En það átti einmitt að vera tilgangurinn með vinnu þingmannanefndarinnar, bæði varðandi skýrsluna og það að taka afstöðu til þess hvort ráðherrar yrðu ákærðir, að menn mundu læra af því og það mundi hafa þau áhrif að gera störf þingsins og raunar samfélagið allt betra í framhaldinu.

Það hefur hins vegar ekki staðið upp úr í umræðunni. Umræðan varð fljótt afar pólitísk svo ekki sé meira sagt. Menn fóru, eins og ég nefndi áðan, að reyna að dreifa athyglinni, láta umræðuna snúast um eitthvað sem gerðist á öðrum tímabilum og umfram allt hjá öðrum flokkum, hjá þingmönnum eða ráðherrum annarra flokka, þ.e. það var ekki víða fyrir hendi raunverulegur vilji til að gera upp fortíð eigin stjórnmálaflokka, allt gekk út á að koma ábyrgðinni og umræðunni yfir á aðra.

Þess vegna, frú forseti, verð ég að verja nokkrum tíma í ræðu þessari í það að ræða tímabilið í aðdraganda áranna 2007–2009, vegna þess að um það hefur umræðan því miður snúist þó að hún hafi átt að snúast um niðurstöðu nefndarinnar og það sem þar kom fram um hrunstjórnina sem svo var kölluð í ræðu hér áðan.

Hvernig var þetta tímabil, frú forseti? Hvernig hagaði það fólk sér sem nú talar hvað mest um aðdraganda ársins 2007 en vill ekki tala um það ár eða næstu ár þar á eftir? Var það fólk á móti útrásinni, hafði það uppi einhver varnaðarorð? Nei, það var fyrst og fremst óánægt með að komast ekki að stjórn landsins til að geta tekið þátt í að ýta enn frekar undir útrásina. Þess vegna eru svo furðuleg þau rök sem hæst hafa farið í allri umræðunni, sérstaklega hjá þingmönnum Samfylkingarinnar, að ekkert hafi verið hægt að gera eftir árið 2006 og þess vegna engu máli skipt hvernig menn brugðust við.

Eftir að í ljós kom hvert stefndi skipti engu máli hvort menn brugðust við eða ekki. Eftir á að hyggja hefði líklega ekki verið hægt að koma í veg fyrir að bankarnir færu í þrot. Þess vegna hafi mátt láta hlutina fara eins og þeir fóru án þess að gera nokkuð með það.

Hver var afstaðan í aðdraganda þessa? Afstaða þeirra sem ekki voru í ríkisstjórn, t.d. til einkavæðingarinnar? Minnast menn þess ekki þegar við tók ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þegar forsætisráðherra hafði á orði að loksins væri hægt að ráðast í einkavæðingu í heilbrigðismálum, menntamálum og orkumálum vegna þess að Framsóknarflokkurinn hefði alltaf þvælst þar fyrir? Nú væri Samfylkingin komin til sögunnar og hægt væri að halda einkavæðingarferlinu áfram fyrir alvöru.

Hver var afstaðan til útrásarinnar í aðdraganda þess tímabils sem við ættum að vera að ræða? Það var enginn flokkur, held ég að óhætt sé að segja, sem dásamaði útrásina jafnmikið og Samfylkingin. Það var enginn sem varði útrásarvíkingana af jafnmikilli hörku og enginn sem var jafnnátengdur útrásarvíkingum og hagsmunabandalögum eins og Samfylkingin. Nú lætur hún alla umræðu um veru sína í ríkisstjórn snúast um þetta tímabil, tímabilið þar sem Samfylking var í stjórnarandstöðu og sá það einna helst sem hlutverk sitt að verja útrásina.

Hvað með vöxt bankanna? Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson fór yfir það hvernig ályktað var aftur og aftur um mikilvægi þess að bankarnir fengju að vaxa og menn fögnuðu því raunar úr öllum flokkum í álitum frá viðskiptanefnd og efnahags- og skattanefnd. Þetta er hægt að lesa undirritað m.a. af hæstv. núverandi forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur.

Var vöxtur bankanna nokkurn tíma þyrnir í augum Samfylkingarinnar? Eða útrásin? Nei, það held ég ekki. Það eina sem var þyrnir í augum Samfylkingarinnar varðandi útrásina var að henni fannst þáverandi stjórnvöldum í sumum tilvikum þökkuð útrásin eða vöxtur bankanna. Þess vegna þreyttust menn ekki á því ár eftir ár að tala um að ríkisstjórnin þáverandi hefði ekkert með útrásina, hagvöxtinn og bankana að gera, það væri allt EES-samningurinn. Ef ekki væri fyrir EES-samninginn hefði útrásin aldrei orðið, það hefur ekkert með þessa ríkisstjórn að gera.

Rannveig Guðmundsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar sagði t.d. á árinu 2005, með leyfi forseta:

„Neistinn sem einkenndi fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar er löngu slokknaður. Þá fóru jafnaðarmenn fyrir breytingum á efnahags- og viðskiptalífi og EES-samningnum sem skilaði okkur útrásinni.“

Einar Már Sigurðarson, annar þingmaður Samfylkingarinnar sagði, svo dæmi sé tekið, sama ár, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti fjárlaganefndar undirstrikar að margt jákvætt er að finna í þróun efnahagslífsins á undanförnum árum. Það hefur einkennst af sköpunarkrafti og frumkvæði sem birtist glöggt í útrás fyrirtækja erlendis. Þennan þrótt má rekja til aukins frelsis og minni hafta sem lagður var grunnur að með EES-samningnum fyrir áratug. Með frumkvæði sínu að honum áttu jafnaðarmenn stærstan þátt í því frelsi sem lagt hefur grunninn að gríðarlega sterkri samkeppnisstöðu Íslands í dag. Sala bankanna var að sönnu mjög umdeild á sínum tíma, hitt er óefað að hún leysti mikinn kraft úr læðingi í atvinnu- og efnahagslífinu. Þetta er hin jákvæða hlið efnahagsmálanna í dag.“

Dæmin eru fjölmörg og þau einskorðast ekki við þingmenn sem hættir eru á þingi. Við getum skoðað hæstv. núverandi viðskiptaráðherra Árna Pál Árnason.

Svo seint sem í nóvember árið 2007, eftir að fjármálakrísan hófst segir hann, með leyfi forseta:

„Viðskiptalíf okkar er blessunarlega hnattvætt í síauknum mæli. Íslensk utanríkisþjónusta þarf að vera í stakk búin til að þjóna því hér eftir sem hingað til. Ef ekki hefði verið fyrir EES-samninginn hefði ekki verið um að ræða neina útrás í þeim skilningi sem við höfum upplifað á undanförnum árum.“

Hann heldur svo áfram að útlista það hvernig utanríkisþjónustan þurfi fyrst og fremst að beita sér fyrir útrásina.

Fyrrverandi viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson segir í mars sama ár, með leyfi forseta:

„Við höfum verið að ræða um að lífskjarabata margra Íslendinga frá því að þjóðarsáttarsamningurinn var gerður í lok þarsíðasta áratugar og EES-samningurinn í framhaldi af því. Þessir tveir atburðir í íslenskri stjórnmálasögu skópu grunninn að því að hér hefur verið velmegun á mörgum sviðum og þensla en ríkisstjórn síðustu ára, sem á engan þátt í þessu, sérstaklega ekki framsóknarmenn.“

Þar höfum við það frá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, gekk svo langt í júní 2006 — er það ekki árið sem ekkert var hægt að gera — í júní það ár segir hún að hugmyndafræðilegur grunnur ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefði verið lagður af jafnaðarmönnum með EES-samningnum. Hugmyndafræðilegi grunnurinn væri því uppurinn og stjórnin vissi ekkert hvað hún ætti að gera án þessara leiðbeininga frá jafnaðarmönnum.

Það má telja fjölmörg önnur dæmi, Katrínu Júlíusdóttur árið 2006, Össur Skarphéðinsson í janúar 2008 þegar hann talar um að EES sé hin raunverulega forsenda útrásarinnar. Þetta vilja menn ekki ræða um. Þeir vilja afmarka sig við fulltrúa annarra flokka. Það er það sem er svo dapurlegt við þessa umræðu að menn hafa, margir, því miður fest sig í flokkapólitíkinni.

Það var ekki látið staðar numið í vörn þess sama fólks, sem nú gagnrýnir aðra fyrir útrásina, að verja útrásina og stækkun bankakerfisins. Svo hart gekk Samfylkingin fram í að verja útrásina og bankana úr stjórnarandstöðu að þegar hún loks komst í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum lét hún setja sérstaka klausu í stjórnarsáttmálann til að verja útrásina af ótta við að m.a.s. Sjálfstæðisflokkurinn, hinn mikli frjálshyggjuflokkur, mundi hefta vöxt bankanna eða hrekja útrásarfyrirtæki úr landi.

Hvað segir í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar? Með leyfi forseta:

„Í umbreytingu íslensks atvinnulífs á undanaförnum árum felst meðal annars aukið vægi ýmiss konar alþjóðlegrar þjónustustarfsemi, þar á meðal fjármálaþjónustu. Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi.“

Hvað með skattana sem er svo mikið talað um? Að áður en Samfylking kom til valda hafi menn verið hálfóðir í skattalækkunum? Það bauð enginn jafn vel og Samfylkingin í skattalækkunum og jafnvel á hápunkti þenslunnar, eftir að Samfylking komst til valda, vildu menn lækka skatta meira og auka útgjöld.

Íbúðalánasjóður er einnig nefndur. Meira að segja hæstv. núverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir vildi ganga lengra, miklu lengra en framsóknarmenn í útgjaldaaukningu sjóðsins og hækkun lána.

Svo nefna einhverjir Kárahnjúkavirkjun og framkvæmdirnar fyrir austan. Hversu margir samfylkingarmenn lögðust gegn þeim á sínum tíma þó að þeir leyfi sér núna að gagnrýna þetta sem stórkostleg hagstjórnarmistök Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks? Tveir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn en öll forusta Samfylkingarinnar, þar á meðal núverandi hæstv. forsætisráðherra, studdi framkvæmdina.

Svo var það þenslan, þenslan sem mikið hefur verið rætt um að hafi öll orðið fyrir tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þegar Samfylkingin komst til valda sló hún öll met Íslandssögunnar í útgjaldaaukningu í ráðuneytum sínum. Á hápunkti þenslunnar árið 2007 voru útgjaldametin slegin. Svo kemur þetta sama fólk hér og ætlar að kenna öðrum um.

Hvers vegna er ég að fara yfir þetta allt og eyða í það tíma? Vegna þess að frá því að ég fór að skipta mér af stjórnmálum hefur umræða um stjórnmál ekkert snúist um pólitísk áhersluatriði eða leiðir og lausnir. Hún hefur öll verið látin snúast um spuna um fortíðina. Ef menn ætla að festa sig í fortíðinni nú tveimur árum eftir hrunið — í dag eru tvö ár liðin frá því stjórnendur Glitnis fóru í Seðlabankann og lýstu því yfir að þeir gætu ekki endurfjármagnað bankann — ef menn ætla að réttlæta stjórnarhætti núverandi ríkisstjórnar eingöngu út frá fortíðinni þá verður að ræða hana og gera hana upp eins og hún var í stað þess að leyfa mönnum endalaust að skrifa söguna eftir á og falsa.

Við verðum að komast út úr þessu. Við verðum að segja þetta gott af umræðunni um fortíðina þar sem mistök voru gerð og menn hafa gengið mislangt í að gera þau upp. Það er óhætt að segja að í mínum flokki hafi menn ráðist í róttækustu endurnýjun í sögu íslenskra stjórnmála í framhaldi af efnahagshruninu. Hver hefur sú endurnýjun verið t.d. í Samfylkingunni? Hver er nú hæstv. forsætisráðherra Samfylkingarinnar? Er það ekki ráðherra sem sat í efnahagsráði sömu ríkisstjórnar og hér er til umfjöllunar, sat við hlið ráðherranna sem rætt er um að draga fyrir landsdóm? Hvernig er uppgjörið þar? Væri ekki best fyrir þetta fólk og okkur öll að snúa okkur að framtíðinni? Ef við viljum festa okkur í fortíðinni er örugglega hægt að setja út á býsna margt hjá býsna mörgum.

Komum þá að árinu 2007 og 2008. Á þeim tíma var heilmikil umræða um að grípa þyrfti til aðgerða. Ég er með fjölmargar útprentaðar ræður þingmanna Framsóknarflokksins um nauðsyn þess að grípa til neyðaraðgerða í efnahagsmálum, menn nefna jafnvel hugmyndir um þjóðstjórn, að menn komi sér saman um neyðarúrræði og þar fram eftir götunum. Ég ætlaði að lesa upp úr þessum ræðum allt frá maí 2007 en mér sýnist ég ekki hafa tíma til þess. Það er hins vegar vel þess virði eða hefði verið vel þess virði að rifja þetta upp nú þegar menn láta eins og ekkert hafi verið hægt að gera og ekki farið fram nein umræða um viðbrögð við ástandinu. Hér er að finna fjölmargar tillögur að viðbrögðum. Það sama má segja um þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem lögðu ítrekað fram slíkar tillögur.

Þá að ákærum í tengslum við árin 2007 og 2008. Í ljósi þess að umræðan hefur fyrst og fremst snúist um pólitík og samanburð við önnur tímabil, þ.e. talsmenn núverandi ríkisstjórnar, verðum við þá ekki að setja það í samhengi við samtímann, ríkisstjórnina sem situr við völd? Ég velti því fyrir mér hvernig núverandi ríkisstjórn hefði brugðist við þegar neyðarlögin voru sett. Við þurfum líka að halda því til haga sem vel var gert. Menn sjá það best núna að þetta var nauðsynleg ráðstöfun. Það hefði kannski komið betri útfærsla ef menn hefðu haft tíma til þess að finna hana en það þurfti töluverðan kjark til þess að ráðast í þessa miklu ráðstöfun. Það er óhætt að segja að ef ekki hefði verið gripið til svo róttækra aðgerða hefði Ísland ekki átt sér viðreisnar von næstu árin.

Hvernig hefði ríkisstjórnin sem nú situr brugðist við? Hefði hún haft kjark til að ganga gegn kröfuhöfum bankanna, voldugum evrópskum og bandarískum bönkum og ríkisstjórnum annarra ríkja með því að setja neyðarlögin? Stjórn sem talaði um skjaldborg um heimilin en hefur ekki enn þorað að taka málstað heimilanna gegn erlendum lánardrottnum. Stjórn sem mátti ekki heyra minnst á forsendubrest þegar staða heimilanna var rædd. Um leið og stjórnin sá að kröfuhafar bankanna gætu orðið fyrir tapi vegna viðskiptahátta þeirra sjálfra var farið að ræða um forsendubrest og jafnvel lagasetningu til að grípa inn í. Hefði slík ríkisstjórn þorað að setja neyðarlög? Ekkert sem hún hefur gert frá því að hún tók við völdum bendir til þess. Þessi ríkisstjórn hefur fyrst og fremst einbeitt sér að því að gera erlendum bönkum, ríkisstjórnum og stofnunum til hæfis. Samanburðurinn, ef menn vilja fara í samanburð við önnur tímabil, er nokkuð sláandi.

Það er ekki aðeins að þessi stjórn hafi sýnt aðgerðaleysi í því sem þó var mikilvægasta ráðstöfun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, reyndar með stuðningi Framsóknarflokks. Það er líka það sem þessi ríkisstjórn hefur gert, til að mynda hvernig staðið var að stofnun nýju bankanna þar sem ríkið tók yfir erlend lán sem menn máttu vita að væru gölluð, væru ekki mikils virði, sem síðan voru dæmd ólögmæt. Svo ekki sé minnst á Icesave-samningana og hvernig að þeim málum var staðið.

Þá kemur upp spurningin um jafnræðið og pólitísk áhrif af því. Því hefur þegar verið hótað að fari þessi stjórn frá völdum verði menn dregnir fyrir landsdóm fyrir afbrot til að mynda við gerð Icesave-samninganna. Þá er komin upp óþægileg staða, menn telja sig þurfa að halda í völdin til þess að komast hjá ákærum. Það er ákaflega óheppileg þróun í stjórnmálum ef raunin er sú að aðeins sá sem fer með völdin getur ákært hinn. Þá búa menn við stöðugan ótta um ákærur. Eins og segir í kvæði Einars Benediktssonar um Gretti Ásmundarson að „sekur er sá einn sem tapar“.

Það breytir því þó ekki að í gildi eru lög. Þegar farið var af stað með þingmannanefndina lá það fyrir hvers eðlis þau lög væru. Þess vegna þótti mér ræða hæstv. forsætisráðherra nokkuð sérkennileg þar sem hún gagnrýndi af mikilli hörku, í a.m.k. tólf liðum, þingmannanefndina og ýmislegt sem hún hafði gert eða látið ógert. Það lá alveg fyrir frá byrjun hvernig vinnulagið yrði.

Þingmannanefndin hefur fært rök fyrir afstöðu sinni varðandi ákærur. Reyndar skiptist hún í þrjá hópa. Rök þingmanna Framsóknarflokks sem í nefndinni sátu, þingmanna Vinstri grænna og Hreyfingarinnar. Rök þingmanna Samfylkingar í nefndinni, að ákæra þrjá fyrrverandi ráðherra, hafa því miður lítið verið rædd eins og ég kom inn á í upphafi. Menn hafa talað um allt annað. Þeir hafa talað um pólitík og helst pólitík á öðrum tímabilum en eru til umræðu. Menn hafa ekki náð rökræðu um hvort skýringarnar halda eða ekki, hvort hin lagalega túlkun er rétt eða ekki. Það hafa reyndar verið á þessu undantekningar. Ég tek það fram að hér hafa verið fluttar ræður þar sem menn ræða lögfræðileg atriði og stöðu þingsins.

Nú þegar kemur að atkvæðagreiðslu um málið vona ég, hvernig sem umræðan hefur verið, að menn taki afstöðu til tillagna nefndarinnar út frá rökum hennar og út frá því hvernig hún skýrir mál sitt annars vegar og hins vegar því sem menn telja að verði afleiðing niðurstöðunnar. Hvort menn telja ákærur til þess fallnar að skila betri stjórnmálum og betra samfélagi eða ekki. Einungis þannig geta menn verið sáttir við niðurstöðuna hvort menn verði ákærðir eða ekki. Ef menn taka afstöðu út frá því hvort þeir trúa að lagalegu rökin séu til staðar, þau haldi en menn verði dæmdir og hverjar menn telji að afleiðingarnar verði, hvort þær verði til góðs eða ills.