138. löggjafarþing — 169. fundur,  28. sept. 2010.

málshöfðun gegn ráðherrum.

706. mál
[17:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel að allt það versta sem menn óttuðust að gæti gerst á grundvelli ráðherraábyrgðarlaganna sé að gerast hér í dag, í fyrsta lagi að matskennd ákvæði eru notuð til þess að kalla saman landsdóm og draga fyrrverandi ráðherra til ábyrgðar vegna embættisfærslna sinna. En við sjáum það líka í atkvæðagreiðslunni að þingflokkar nota þingstyrk sinn til að skjóta samflokksmönnum sínum undan því að verða dregnir fyrir dóminn, sem dregur fram einmitt það sem menn ræddu um sérstaklega þegar lögin voru sett, að þetta væri það sem væri líklegt að gerðist.

Það verður þó ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu þegar þessari atkvæðagreiðslu er lokið en að hugmyndir þeirra sem lögðu fram þessar ákærur hafi fengið býsna harðan dóm hér í þinginu þar sem þingið hafnar því í þremur tilvikum af fjórum að draga viðkomandi ráðherra til ábyrgðar, og því fagna ég sérstaklega. Ég segi nei.