139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:27]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti, góðir tilheyrendur. Ég ætla að tala um ástandið á Íslandi í dag en ekki um stjórnarandstöðuna. Við höfum glímt við mikla erfiðleika nú í tvö ár og gerum enn. Þeir erfiðleikar okkar eru ekki bara efnahagslegir, þeir eru líka félagslegir. Þeir eru hugarfarslegir. Við urðum fyrir miklu áfalli sem þjóð. Þeir erfiðleikar eru vissulega líka pólitískir. Hinar pólitísku haustlægðir hafa komið hart niður á Íslandi að undanförnu. Stjórnmálin og stjórnmálalífið er laskað eins og margar aðrar stoðir samfélagsins. Það gildir um stjórnsýslu og eftirlitsstofnanir. Það gildir um fjölmiðla og fræðasamfélag. Það gildir um hagsmunasamtök, lífeyrissjóði og fleiri og fleiri. Það þurfa allir á Íslandi að líta í eigin barm.

Þótt vissulega hafi ýmislegt áunnist á þessum tveimur árum og því verður ekki á móti mælt, hvarflar heldur ekki að neinum að draga dul á það sem ekki hefur gengið eins og við öll hefðum viljað. Sumt gengur hægar en ásættanlegt er og við vitum öll að fram undan er löng og erfið glíma við að vinna okkur út úr erfiðleikunum, að ná tökum á ríkisfjármálunum og gera þau sjálfbær, að glíma við stóraukið atvinnuleysi sem hér skall á í kjölfar hrunsins, að vinna úr skuldavanda heimila og fyrirtækja, almennt að endurreisa hér traustan efnahag og skapa skilyrði til uppbyggingar á nýjan leik.

Fjárlagafrumvarpið sem hér liggur á borðum þingmanna er ekki gleðiboðskapur. Það má með sanni kalla hin eiginlegu hrunfjárlög. Af hverju? Vegna þess að í því birtist með sársaukafullum hætti hvernig kreppan er að koma fram af fullum þunga í hinum opinbera búskap. Það boðar áframhaldandi erfiðar aðgerðir ofan í þær sem á undan eru gengnar. Þá er komið nær beinunum og þanþolinu, hvort sem er á tekna- eða gjaldahlið.

Hvað er í húfi? Það sem er í húfi er að stöðva hallarekstur og áframhaldandi skuldasöfnun nægilega fljótt til að koma í veg fyrir að vaxtakostnaður og auknar skuldir taki til sín sífellt stærri hluta kökunnar og skerði þar með möguleika ríkisins á að veita þjónustu og standa undir verkefnum sínum, fjárfesta í innviðum samfélagsins o.s.frv. Það verður engin velferð á Íslandi til frambúðar ef ríkissjóður fer á hausinn. Það verður engin velferð ef vaxtakostnaður af stórauknum skuldum tekur til sín stærra og stærra hlutfall ríkisútgjaldanna ár af ári. Nú þegar fara 15% af öllum tekjum ríkisins í það eitt að greiða vexti — fimmtán prósent! Við notum þær krónur ekki í annað. Ekki til þess að borga skóla. Ekki til þess að veita heilbrigðisþjónustu. Ekki til þess að greiða bætur í tryggingakerfin. Erum við sátt við að missa þetta hlutfall upp í 20% eða 25%? Sjáum við fyrir okkur að ásættanlegt sé að innan fárra ára fari fjórða hver króna í vexti? Nei. Og ávísun á hvað er þá sú niðurstaða okkar? Ekkert annað en það að við verðum að takast á við þetta verkefni af ábyrgum hætti.

Menn segja að þjóðhagsforsendur séu óvissar og gagnrýna m.a. nýframkomið fjárlagafrumvarp vegna þess. Já, auðvitað eru þær óvissar. Og hvernig gætu þær annað verið við þessar aðstæður? Þær eru óvissar alls staðar þar sem menn eru að glíma við þær miklu breytingar, þær miklu hamfarir sem hér hafa orðið. Við munum að sjálfsögðu meta eftir bestu föngum þær upplýsingar sem haustmánuðirnir skila okkur sem og það sem fram kemur í nýrri þjóðhagsspá í nóvember og það verður ekki vandamál leggist okkur eitthvað til og þar verði svigrúm að finna hvar megi bera niður til þess að draga úr og milda aðgerðir, en við getum ekki tekið neitt út fyrir fram í þeim efnum. Verkefnið er eins og það er og þó að blikur séu á lofti er það líka þannig að sum teikn eru jákvæð en önnur neikvæð eins og gengur. Að sjálfsögðu mun hin almenna framvinda skipta þarna sköpum.

Það er órói í samfélaginu eins og við heyrum glöggt hér. Réttlát gremja og reiði er útbreidd vegna alls þess sem gerst hefur á Íslandi. Margir eiga um sárt að binda. Við skulum sýna því skilning og skilaboðin sem berast til okkar utan af Austurvelli fara ekki á milli mála. Fjöldi fólks er ósáttur og sár. Fólki finnst allt of hægt ganga að greiða úr ýmsum vandamálum, ekki síst skuldavanda heimilanna og það er rétt að margt hefur reynst tafsamt og torsóttara en menn vonuðu í þeim efnum.

Með fordæmisgefandi dómum um svokölluð gjaldeyris- eða myntkörfulán eru þau mál þó loksins að skýrast. Þar stefnir í niðurstöðu sem mun laga umtalsvert stöðu tugþúsunda sem eiga í miklum vanda vegna gengislækkunar krónunnar. Höfuðstóll bíla- og húsnæðislána verður nú færður niður og óvissunni eytt á næstu vikum og allra næstu mánuðum um þann þátt mála.

Við settum á fót bankakerfi á grunni þess sem hrundi, ekki síst til að vinna úr skuldavanda heimila og fyrirtækja og taka þátt í endurreisninni. Þar hefur gengið allt of hægt. Bankar og önnur fjármálafyrirtæki sem nutu opinberrar aðstoðar voru sett af stað með sterka fjármögnun til þess m.a. og ekki síst að geta sinnt sínu hlutverki í þessum efnum, lagt sitt af mörkum til endurreisnar Íslands. Ég segi það alveg skýrt: Stjórnvöld ætlast til þess að þessi mál, skuldaúrvinnslumál, verði sett í algeran forgang. Við eigum að sameinast um það nú, stjórnvöld, bæði stjórn og stjórnarandstaða, bankar og fjármálafyrirtæki, aðilar vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðir, Íbúðalánasjóður, aðilar af því tagi, og samtök eins og Hagsmunasamtök heimilanna að stilla saman strengi okkar og sameina kraftana. Við eigum að skoða allar raunhæfar og færar leiðir til að aðstoða heimilin. Tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna eru á margan hátt athyglisverðar í þeim efnum og það er rétt og skylt að setjast yfir þær þó svo að við kunnum mörg hver að hafa efasemdir um hvort þær séu raunhæfar eða viðráðanlegar eins og þær snúa t.d. að skuldsettum ríkissjóði. En setjumst þá yfir það og skoðum það.

Ég vil taka það fram vegna fjölmiðlaumfjöllunar sem verið hefur í dag um að íslensk stjórnvöld hafi afsalað sér öllum rétti eða jafnvel beðið um að fá að afsala sér öllum rétti til þess að aðhafast frekar í skuldavanda heimilanna að það er einfaldlega fjarstæða. Það er rangtúlkun á því sem stendur í samstarfsyfirlýsingunni og ekkert slíkt afsal eða framsal hefur farið fram enda ekki hægt. Valdið til þess liggur hér í þessari stofnun ef við kjósum að setja lög um eitthvað sem að því snýr. Hitt er rétt að þar er tekið fram að ekki séu fyrirhugaðar flatar skuldaniðurfærslur, enda hefur það verið mat manna fram að þessu að ef eitthvað ætti að muna um slíkar ráðstafanir yrðu þær fljótt óviðráðanlega dýrar og ekki skilvirkar til að ná til þeirra hópa sem í mestum vanda eru.

Ég vil segja um skuldavanda fyrirtækjanna að það er sannfæring mín að eitt af því mikilvægasta sem nú þarf að gera til að koma hjólunum af stað er að vinna það verk. Ef við ætlum að tryggja viðsnúning í hagkerfinu verður að koma fyrirtækjunum betur í gang. Þau eru enn þá allt of mörg lömuð vegna þess að ekki hefur verið greitt úr efnahag þeirra jafnvel þótt um lífvænleg rekstrarfélög sé að ræða. Fyrir utan óleyst Icesave-mál þá er það að mínu mati þetta sem stendur helst í vegi fyrir því að bati og viðsnúningur hefjist í hagkerfinu. Þegar við sjáum hversu mikið vextir hafa lækkað og þegar við höfum í huga þá staðreynd að nú er hagstætt að ráðast í framkvæmdir og fjárfestingar, þá er það þetta sem er mesti þrándur í götu þess að hjólin komist af stað. Bankar og fjármálafyrirtæki verða að fara í þetta verkefni þó að þau séu vandasöm og þó að engar einfaldar og gallalausar leiðir séu til þegar þarf að takast á við það að meta hvað á að gera í hverju og einu tilviki fyrir sig. Á að setja fyrirtæki í þrot eða fella niður skuldir þeirra? Á að gera það með núverandi eigendum eða láta þau í hendur einhverra annarra? Allt eru þetta matsatriði og allt orkar tvímælis þá gert er. En sú gagnrýni sem bankar hafa fengið, sumpart ómaklega, fyrir að vinna úr þessum málum má ekki verða til þess að verkið sé ekki unnið því eitt það mikilvægasta fyrir Ísland í dag er að unnið verði úr skuldum heimila og atvinnulífs og það sett í forgang og klárað á næstu mánuðum.

Lífeyrissjóðirnir okkar verða að taka á með okkur. Þeir þurfa að ráðast með stjórnvöldum í þær mannaflsfreku framkvæmdir sem eru í undirbúningi og leggja í þær fjármuni á ásættanlegum kjörum. Að aðstoða við uppbyggingu íslensks efnahagslífs mun reynast þeim sjálfum besta fjárfestingin sem þeir geta lagt fé sitt í um þessar mundir.

Atvinnuástandið verður líka að vera í forgrunni, það er verst á Suðurnesjum. Ég vil segja að þar eiga ríkisvaldið og heimamenn að taka höndum saman. Hættum þessu tilgangslausa hnútukasti og þessum umkenningaleik. Það hefur ekkert upp á sig. Setjumst yfir þetta saman, forsvarsmenn Suðurnesja og stjórnvöld, og reynum að gera það sem við getum í þessum efnum.

Hættan á langtímaatvinnuleysi og atvinnuleysi meðal ungs fólks er sennilega ein mesta meinsemd sem að okkur steðjar. Ríki og sveitarfélög þurfa að setjast saman yfir það hvað er hægt að gera til að sporna við hættunni á alvarlegri og vaxandi fátækt og aðstoða þá sem lakast eru settir. Er t.d. hægt að hugsa sér að ríki og sveitarfélög tryggi sameiginlega einhvers konar afkomu þeirra sem misst hafa rétt til atvinnuleysisbóta? Húsnæðismálin, þar sem mikið af húsnæði er að lenda í eigu sjóða og banka, það húsnæði þarf að setja aftur út á markað í formi leigu, búseturéttar, kaupleigu o.s.frv.

Árið 2011 verður erfitt, þó kannski síst undirbúningurinn undir það. Bæði afgreiðsla fjárlaga og fjárhagsáætlanagerð sveitarfélaga fer nú fram við óvenjuerfiðar aðstæður, en það verk þarf að vinna og koma því í höfn rétt eins og öðrum. Það sem leggst með okkur er að við erum ríkt, þróað og vel uppbyggt samfélag. Skuldir margra sveitarfélaga eru jafnmiklar og raun ber vitni vegna þess að þau hafa fjárfest af metnaði í góðum skólamannvirkjum, íþrótta- og tómstundamannvirkjum o.s.frv. Við eigum baráttu fyrir höndum að endurreisa efnahagsstyrk okkar og fyrri lífskjör, en það getur það enginn nema við sjálf saman sem þjóð. Við verðum að vinna okkur út úr þessum erfiðleikum, byggja brýr á milli okkar, byggja traust og tiltrú í samfélaginu á nýjan leik. Ábyrgðin snýr ekki bara að okkur sjálfum í núinu, hún snýr að börnum okkar, barnabörnum og framtíðinni. Því liðna fáum við ekki breytt hversu mikið sem við vildum. En það er hlutverk okkar að reyna að hafa góð áhrif á framtíðina.

Það fær enginn mannlegur máttur mig til að trúa öðru en því að Ísland muni vinna sig út úr erfiðleikum sínum. Hefði ég ekki þá trú þá stæði ég ekki hér, þá gæti ég það ekki. Við munum hafa okkur í gegnum þennan vetur rétt eins og þá 1150 sem við höfum lifað af sem þjóð í þessu landi. Þá mun aftur vora og þá mun aftur fara að ganga betur. Öll él birtir upp um síðir.

Það sem við skulum gera, góðir landsmenn, er að hlúa að voninni í brjóstum okkar, hlúa að trúnni á framtíðina. Því ef við missum þetta, þá missum við allt, næstum því allt, sem gerir það einhvers virði að lifa lífinu.