139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það var afar dapurlegt að fylgjast með atburðunum sem urðu við setningu Alþingis og messu í Dómkirkjunni síðastliðinn föstudag. Það er ástæða til að þakka lögreglu og starfsmönnum Alþingis fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður. Einnig þeim fjölda fólks sem mætti til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum. Það verður að viðurkennast að í samfélaginu er að skapast hættuástand. Tvennt þarf til að hindra að það fari úr böndum. Tryggja þarf að fólk sem hefur orðið fyrir efnahagslegum skakkaföllum og er við að missa heimili sín fái sanngjarna málsmeðferð og stjórnvöld sýni að þau séu reiðubúin að verja hagsmuni þegnanna fremur en að sýna alþjóðastofnunum þjónkun. Hitt sem þarf að gera til að koma í veg fyrir glundroða er að stjórnvöld geri almenningi ljóst að ofbeldi verði aldrei liðið og ekki umborið. Hvort tveggja snýr þetta að því að fólk geti verið fullvíst að stjórnvöld standi vörð um réttlæti.

Að undanförnu hefur talsvert verið rætt um virðingu Alþingis. Margir svo kallaðir álitsgjafar og þingmenn, þar með talið hæstv. forsætisráðherra, telja að ástæðan sé sú að karp og skotgrafahernaður hafi aukist í störfum þingsins. Talað er um að umræðuhefð íslenskra stjórnmála sé meginástæðan fyrir lakri ímynd þingsins. Þetta finnst mér vera einföld skýring á vandanum, þ.e. að telja að óánægja almennings snúist um umræðuvenjur í þinginu. Hinn raunverulegi vandi liggur í því að stjórnmálin hafa ekki skilað þeim lausnum sem þarf til að fólk fái von um að geta unnið sig úr vandræðum sínum. Reyndar hefur karp og skotgrafahernaður ekki verið mikill í þinginu að undanförnu miðað við það sem oft hefur verið. 95% af umræðum í nefndum og þingsal fara ágætlega fram. Það er hins vegar eingöngu fjallað um þau tilvik þar sem mönnum lendir saman.

Frá áramótum hafa verið samþykkt 25 frumvörp á Alþingi. Í fjórum af hverjum fimm málum greiddi enginn, ekki einn einasti þingmaður atkvæði gegn frumvarpi. Í langflestum tilvikum voru frumvörpin samþykkt samhljóða. Í aðeins þremur málum á þessu ári greiddu fleiri en tveir þingmenn atkvæði gegn frumvarpi. Mesti fjöldi nei-atkvæða á þessu ári er 12. Langmest af því sem kemur frá ríkisstjórninni fær greiða leið í gegnum þingið. Stjórnarandstaðan reynir stundum að betrumbæta málin en samþykkir þau síðan. Skotgrafahernaður eða átök eru ekki vandinn. Vandinn er sá að það er ekki nærri því nóg gert til að takast á við efnahagsvandann. Stjórnarandstaðan kemur engum málum að. Tillögur úr þeirri átt eru ýmist látnar hverfa eða kvaddar í kútinn. Það er ákaflega miður vegna þess að það er ótal margt hægt að gera til að ráða bót á vandanum, þannig hefur það verið undanfarin tvö ár. Þessi tvö ár hafa því miður farið fyrir lítið. Ekki út af karpi, heldur vegna þess að röng stefna varð ofan á.

Í byrjun árs 2009 töldum við í þingflokki framsóknarmanna að engan tíma mætti missa að taka á bráðavanda heimila og fyrirtækja. Við töldum að það hlyti að vera alveg sama hver tæki það að sér, aðalatriðið væri að koma á starfhæfri ríkisstjórn. Í febrúar í fyrra lögðum við fram ítarlegar tillögur að bráðaaðgerðum í efnahagsmálum þar sem m.a. var útskýrt hvernig hægt væri að ráðast í almenna skuldaleiðréttingu og hvers vegna það væri nauðsynlegt og hagkvæmt fyrir alla, þar með talið ríkið. Ég þarf varla að rifja upp viðtökurnar sem það fékk frá minnihlutastjórninni sem þó var varin með því skilyrði að hún mundi ráðast í nauðsynlegar aðgerðir. Eftir á að hyggja hefði verið æskilegra að Framsókn hefði verið með í þeirri ríkisstjórn í stað þess að verja minnihlutastjórnina, þá hefðu viðbrögðin við tillögunum líklega orðið önnur. Þá var uppi hávær krafa um að þingmenn endurnýjuðu umboð sitt og við töldum að það hlyti að vera sama hver sæi um framkvæmd nauðsynlegra aðgerða fram að kosningum. Ef þær leiðir sem við lögðum áherslu á á sínum tíma hefðu verið farnar væri staðan allt önnur nú, ekki bara varðandi stöðu fjölskyldna og atvinnulífs, heldur einnig ríkisins. Ef stjórnvöld hefðu t.d. ráðist í að kaupa skuldir Íslendingar á gríðarmiklum afslætti eins og við lögðum til fyrir kosningar í fyrra og ef ríkið hefði notfært sér að búið var að afskrifa Ísland efnahagslega og keypt kröfur bankanna sem á þeim tíma voru á gjafverði, væri fjárhagsstaða ríkisins einhver sú besta í Evrópu og aðstaðan til að koma til móts við fólk og fyrirtæki allt önnur. Eins og við útskýrðum fyrir kosningar var þetta framkvæmanlegt. Slík kaup gátu aldrei orðið annað en skynsamleg því skuldir Íslendinga eru alltaf verðmætari fyrir okkur en erlenda vogunarsjóði. Þegar rætt var um að Ísland væri orðið gjaldþrota blasti það við að lán á íbúð í Grafarvogi á Íslandi hlaut alltaf að vera meira virði fyrir Íslending en þýskan eða bandarískan áhættufjárfesti.

Þessi tvö glötuðu ár hafa á margan hátt verið kjöraðstæður fyrir fjárfestingu í nýjum atvinnugreinum á Íslandi. Útlendingar sem hingað koma benda okkur á þetta, en með óáreiðanlegu stjórnarfari, öfugri skattstefnu, ofurvöxtum og beinum hindrunaraðgerðum stjórnvalda hefur þetta tækifæri ekki verið nýtt. Á sama tíma hafa flest vestræn lönd risið hratt úr kreppunni. Hér hefur kreppan hins vegar orðið lengri en spáð var. Enn er þó hægt að bregðast við, bæði varðandi atvinnuuppbyggingu og skuldamálin þó það sé bæði orðið flóknara og dýrara en það var á sínum tíma. Það verður að bregðast við. Ástandið er slíkt, og hefur verið í tvö ár, að það kallar á róttækar aðgerðir. Forsenda þess að stjórnvöld séu reiðubúin í slíkar aðgerðir er sú að þau átti sig á umfangi vandans. Þess vegna fannst mér ræða forsætisráðherra hér áðan vera verulegt áhyggjuefni. Ekki var annað að heyra en ráðherrann teldi vandann helstan þann að fólk gerði sér ekki grein fyrir hvað ástandið væri gott. Það minnti á yfirlýsinguna sem ráðherrar í ríkisstjórninni gáfu fyrir nokkrum mánuðum um leið og þeir boðuðu að ekki yrði um frekari aðgerðir að ræða í þágu heimilanna. Vandinn væri ekki skortur á lausnum, heldur að fjölmiðlar hefðu ekki fjallað nógu mikið um þær. Fólkið hér fyrir utan er ekki að fagna góðum árangri ríkisstjórnarinnar.

Forsætisráðherra nefndi að verðbólga fari lækkandi. Það er ekki við öðru að búast í landi í kreppu. Ástæða þess að verðbólguþrýstingurinn er ekki til staðar er sú að hagkerfinu er að blæða út. Það er jákvætt að vextir hafa lækkað, en þeir eru enn allt of háir og fjármagni er eftir sem áður ekki veitt í atvinnuuppbyggingu. Það er afgangur af viðskiptum við útlönd enda féll krónan gríðarlega. Fólk hefur auk þess ekki efni á að kaupa jafnmikið af vörum og við flytjum út.

Loks nefndi forsætisráðherra að skuldatryggingarálag ríkisins hefði lækkað mikið, krónan styrkst verulega á þessu ári. Það var ánægjulegt að forsætisráðherra skyldi benda á þetta, en ýmsir ráðherrar ríkisstjórnarinnar héldu því fram hvað eftir annað mánuðum saman að ef ekki yrði gengið að Icesave-samningi ríkisstjórnarinnar mundi krónan hrynja og skuldatryggingarálag rjúka upp úr öllu valdi. Ég og fleiri héldum hinu gagnstæða fram, enda augljóslega rangt að aukin skuldsetning bæti lánshæfi ríkisins og aukin skuldsetning í erlendri mynt styrki gjaldmiðilinn. Beinu áhrifin af því að fallast ekki á Icesave-samninginn eru líka mikil. Upphæðin sem sparast í vaxtagreiðslur á þessu ári er jafnhá og allur niðurskurður og skattahækkanir ríkisstjórnarinnar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Raunar er sparnaðurinn tvöfalt meiri vegna margföldunaráhrifanna sem verða þegar við sendum ekki peninga úr landi og fáum ekkert fyrir þá en notum þá í staðinn til að greiða hjúkrunarfræðingi laun. Hann þarf þá ekki á atvinnuleysisbótum að halda en fær þess í stað kaup sem hann notar til að greiða af lánum sínum og kaupa vörur og þjónustu og greiða skatta.

Boðaður niðurskurður í heilbrigðismálum og aðstoð við öryrkja er sláandi. Það verður rætt nánar þegar umræða hefst um fjárlagafrumvarpið á morgun. Stefnan sem þar er boðuð bitnar á þeim sem minna mega sín. Hún getur skaðað landsbyggðina gífurlega og leiðir af sér áframhaldandi samdrátt. Forsenda þess að ekki þurfi að ráðast í slíkan niðurskurð er að verðmætasköpun aukist. Reyndar er fjárlagafrumvarpið byggt á hagspá sem þegar er fallin úr gildi. Getur forsætisráðherra fullyrt að af framkvæmdunum verði, t.d. verkefnunum sem hún kynnti sem forsendu bjartsýni sinnar; Búðarhálsvirkjun, gagnaver í Reykjanesbæ og Helguvíkurverkefninu?

Forsætisráðherra taldi að kaupmáttur færi vaxandi. Í dag upplýsti ASÍ að kaupmáttur hefði rýrnað um 15,5% í fyrra. Annað eins hefur aldrei gerst áður. Hrunárið 2008 féll kaupmáttur um 0,5%. En rétt eins og menn óttuðust lá skaðinn ekki síður í viðbrögðunum við bankahruninu en hruninu sjálfu. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti að 128 mál einstaklinga hefðu verið leyst í bönkum eftir þeirri forskrift sem ríkisstjórnin lagði til — 128 mál. Forsætisráðherra virtist undrandi á þessu og hneyksluð, en þetta lá alveg fyrir. Á þetta var bent strax í upphafi hversu gjörsamlega óraunhæfar leiðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum væru, ekki síst vegna þess að það væri óframkvæmanlegt að fara í gegnum svo mörg mál á svo skömmum tíma. Það þarf almennar aðgerðir og aðstaðan er enn til staðar til þess að ráðast í slíkt. Ég taldi að í dag gætum við rætt að ríkisstjórnin ætti að skoða hug sinn í þeim efnum.

Sagðar hafa verið fréttir af því að nokkrir ráðherrar ynnu saman að því að móta nýja stefnu varðandi almennar aðgerðir. Síðan komu upplýsingarnar um að ríkisstjórnin hefði enn ítrekað afstöðu sína gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þess efnis að almennar aðgerðir, niðurfærslur lána, væru algjörlega út úr myndinni. Þetta er miður. Hér eru allar aðstæður til að snúa dæminu við.

Íslendingar eiga meiri auðlindir á mann en nokkurt annað ríki í heimi. Í meira en 1100 ár, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi, höfum við komist af í þessu landi laus við utanaðkomandi pólitískar erjur eða stríðsátök og á 20. öldinni var Ísland mesta framfaraland veraldar. Hér eru enn þá allar aðstæður til þess að halda þeirri framfaraþróun áfram og aðstæður miklu betri en víðast hvar á Vesturlöndum. Bankakerfi okkar hrundi. Við eyddum ekki peningum skattgreiðenda í að reyna að viðhalda vonlausu bankakerfi. Fyrir vikið er aðstaðan hér til leiðréttinga skulda betri en víðast hvar annars staðar. Gjaldmiðillinn er lágt skráður og áhugi á því að fjárfesta í útflutningsgreinum er gríðarlega mikill. Það eina sem þarf er að stjórnvöld breyti um stefnu. Til þess að það megi verða verðum við að ræða pólitík. Við þurfum að takast á um hvernig eigi að leysa úr vandanum og þora því, en ekki óttast rökræður og umræður í þinginu, hvað þá að krefjast þess að fallið verði aftur í farveginn sem hér ríkti þar sem meðvirkni var allsráðandi og ekki mátti segja styggðaryrði um stefnu stjórnvalda. Þessi stjórnvöld, því miður, hafa haldið þannig á málum að það verður að segja sannleikann. Verði það gert og náð fram almennilegri pólitískri umræðu eru allar forsendur til þess að framtíðin sé ákaflega björt á Íslandi.