139. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2010.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:57]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Kæra þjóð. Ég tilheyri þeim meiri hluta þjóðarinnar sem treystir ekki Alþingi. Þegar ég hélt að botninum væri náð tókst þinginu hið ómögulega; að sökkva enn dýpra í áliti hjá þjóðinni.

Það er hefð fyrir því og þykir góð þingvenja að ávarpa þingmenn með orðinu „háttvirtur“ en ráðherra með „hæstvirtur“ úr ræðustól Alþingis. Mér hafa alltaf þótt þessi ávarpsorð úr takti við nútímann en nú þegar bæði þingið og þingmenn eru rúnir virðingu virka þau eins og öfugmæli eða lélegur brandari. Hvorki þingmenn né ráðherrar öðlast virðingu með hjákátlegum ávarpsorðum sem fela í sér stéttskiptingu, stigveldi og ójöfnuð sem stríðir gegn lífsskoðunum mínum og þeirri samfélagsmynd sem ég vil vinna að. Virðingu verða menn að öðlast með verkum sínum en ekki embætti og nú liggur það verkefni fyrir þinginu og þingmönnum að endurheimta þá virðingu hjá þjóðinni. Ég mun ekki nota hin hefðbundnu ávarpsorð háttvirtur og hæstvirtur framar. Mér finnst þau ekki viðeigandi. Það þýðir þó ekki að ég beri ekki virðingu fyrir því fólki sem hér starfar. Ég ber virðingu fyrir því sem manneskjum, en ekki vegna embættis þess.

Þingið hefur legið undir ámælum frá landsmönnum um aðgerðaleysi í málefnum heimilanna. Ég get tekið undir það. Því hefur verið fleygt að þingmenn eyði öllum sínum tíma í karp um lítilsverða hluti og því sitji málefni skuldsettra heimila á hakanum. Það er ekki rétt. Heimilin sitja á hakanum vegna þess að ríkisstjórnina og meiri hluta þingmanna skortir vilja til að leysa mál þeirra með réttlæti að leiðarljósi. Það verður að breytast strax. Enginn heiðvirður maður getur horft upp á það óréttlæti sem felst í því að tjóninu af því bankaráni sem hér virðist hafa verið framið sé velt yfir á almenning á meðan kvótagreifar og útrásarþjösnarar fá afskrifaða milljarða á milljarða ofan en halda samt öllu sínu.

Kæru landsmenn. Fyrir tæpum tveimur árum bað þáverandi forsætisráðherra guð að blessa þjóðina. Í kjölfarið voru sett neyðarlög til bjargar fjármálakerfinu. Nú er löngu kominn tími á ný neyðarlög til bjargar heimilunum í landinu og munum við þingmenn Hreyfingarinnar leggja fram þingsályktunartillögu á næstu dögum þar sem farið er fram á að ráðist verði í allar þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til bjargar heimilunum í landinu. Við viljum leiðréttingu á skuldum heimilanna, bæði verðtryggðum sem gengistryggðum. Við viljum vinda ofan af þeim nauðungaruppboðum sem hafa þegar farið fram á ólöglegum forsendum því að fjöldi fólks og fyrirtækja hefur þegar misst allt sitt vegna gengistryggðra lána. Við viljum tryggja að enginn verði borinn út af heimili sínu nema ljóst sé að hann eigi í önnur hús að venda.

Nauðungarsölum verður að fresta þar til okkur hefur tekist að finna ásættanlega lausn á vanda fólksins, ekki bara þeirra verst stöddu, heldur allra hinna sem flæktir eru í skuldafjötra þess forsendubrests sem varð við hrunið. Þá verður að tryggja mannréttindi þeirra sem hafa verið gerðir gjaldþrota og fyrna allar kröfur á þremur árum. Annað er útskúfun úr mannlegu samfélagi. Að síðustu viljum við verðtrygginguna burt.

Sú ríkisstjórn sem nú er við völd, alla vega enn þá, hefur fylgt stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins við hina svokölluðu uppbyggingu efnahagslífsins. Þeir sem hafa unnið heimavinnuna sína vita að þær aðgerðir sem AGS beitir sér fyrir eru gerðar með hag fjármagnseigenda í fyrirrúmi en ekki almennings. Víða þar sem farið hefur verið að ráðum AGS hefur millistéttin nánast þurrkast út. Það er einmitt það sem virðist vera að gerast hérna núna. Bara í upphafi þessa mánaðar fara 100 íbúðir á uppboð í Reykjanesbæ.

Í dag bárust fréttir af því að AGS fagni afléttingu á frestunum uppboða. Starfsmenn sjóðsins hafa þó áhyggjur af því að stjórnvöld hafi ekki haldið niðri væntingum um frekari úrræði. Nú er aukinnar þátttöku heimilanna krafist, eins og það orðað í skýrslu sjóðsins. Ætlum við virkilega að láta þetta gerast? Hvar er réttlætið? Hvar er samstaðan? Hvar er hugrekkið?