139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

mótmæli á Austurvelli og umræða um skuldavanda heimilanna.

[14:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Okkur þingmönnum hefur verið fullljóst að heimili landsins eiga við mikinn skuldavanda að etja. Við höfum rætt þetta mikið og lengi en höfum ekki náð árangri og það er mjög sorglegt. Þingheimur allur fór saman í gegnum það á sumarþingi að samþykkja úrræði til handa heimilunum, þ.e. þeim heimilum sem eru verst stödd. Jafnframt fór þá inn í efnahags- og viðskiptanefnd sú spurning hvort og þá með hvaða hætti væri hægt að ráðast í almennar aðgerðir fyrir heimilin. Út úr þeirri vinnu kom að því er mér skilst afskaplega lítið og það væri ágætt ef inn í þá umræðu sem er verið að kalla eftir kæmu einhverjar upplýsingar frá formanni þeirrar ágætu nefndar, Helga Hjörvari, um það hvers vegna þetta mál sofnaði inni í nefndinni og hvort einhvers árangurs sé að vænta af starfi nefndarinnar.