139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

mótmæli á Austurvelli og umræða um skuldavanda heimilanna.

[14:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel að auðvitað sé eðlilegt og sjálfsagt að forseti og formenn þingflokka fundi og ræði með hvaða hætti Alþingi fyrir sitt leyti bregðist við þeim erfiðu og viðkvæmu aðstæðum í samfélagi okkar sem m.a. mótmælin í gærkvöldi eru til marks um. Hvernig þingið taki sér tíma til að ræða og vinna í þeim málum. Mér finnst engin deila vera um það að þessi mál hljóti að vera í algerum forgangi hjá okkur á næstu dögum, í starfi bæði ríkisstjórnar og Alþingis.

Ég vil líka nota þetta tækifæri, vonandi fyrir hönd okkar allra, til að færa lögreglunni þakkir fyrir það hversu vel hún leysti verkefni sitt af hendi við erfiðar aðstæður í gærkvöldi.