139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti, ágæti þingheimur. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011. Þetta er fyrsta mál þessa þings, samkvæmt venju og gott ef ekki stjórnarskrá, á þskj. 1. Ég mun fyrst fara yfir ástæður þess vanda sem ríkissjóður glímir nú við og færa rök fyrir þeim orðum mínum sem ég hef látið falla, að þetta fjárlagafrumvarp sé ekki síður hrunfrumvarp en fjárlög yfirstandandi árs eru, enda birti það með mjög skýrum hætti mjög alvarlegar afleiðingar fjármála- og skuldakreppunnar og hrunsins haustið 2008 á efnahag ríkisins. Það er svo að áhrif fjármála- og skuldakreppunnar haustið 2008 sem víða geisaði á þeim tíma hafa þó óvíða orðið jafnafdrifarík og á Íslandi. Hrun bankakerfis af þeirri stærðargráðu sem við upplifðum þekkist vart í öðrum þróuðum löndum ásamt viðlíka falli á verðmæti verulegs hluta fyrirtækja landsins. Þá á hrun gjaldmiðilsins sér fáar hliðstæður og endurspeglast nú í ströngum gjaldeyrishöftum. Í kjölfar alls þessa gengur þjóðarbúið í gegnum dýpri efnahagslægð en dæmi eru um áður. Áætlað er að samdráttur landsframleiðslu áranna 2009 og 2010 geti orðið allt að 10%. Sjá allir í hendi sér hversu þungbært það er. Ísland varð engu að síður, rétt eins og það varð frægt að endemum að segja má, sem undanfari hrunsins á haustdögum 2008, eitt af fyrstu löndunum til að bregðast við eftir að afleiðingar alþjóðlegu fjármálakreppunnar og hrun ofvaxins bankakerfis hér á landi komu að fullu í ljós.

Gripið var til skjótra ráðstafana þegar á miðju ári 2009 og í beinu framhaldi með fjárlögum fyrir árið 2010 til að draga hratt úr stórfelldum halla ríkissjóðs. Um leið var leitast við að takmarka eins og kostur var að afleiðingar kreppunnar bitnuðu af fullum þunga á þeim sem lakast voru settir fyrir, svo sem öryrkjum og öldruðum. Engu að síður er ljóst að vegna mikillar skuldabyrði sem ríkissjóður hefur þurft að axla eru því mikil takmörk sett í hvaða mæli er unnt að beita ríkisfjármálunum til þess að milda efnahagsáfallið eða örva hagvöxt með þeim hætti sem gert hefur verið í mörgum öðrum löndum.

Viðsnúninginn sem varð á stöðu ríkissjóðs við hrunið má rekja annars vegar til stóraukinna útgjalda sem tengdust bankahruninu og efnahagsáfallinu og hins vegar til tekjubrests sem varð þegar tekjustofnar hrundu. Eitt þyngsta höggið sem lenti á ríkissjóði var vegna tapaðra krafna Seðlabankans á fjármálafyrirtæki sem ríkið þurfti að taka yfir og afskrifa til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot Seðlabankans. Það tjón nam um 192 milljörðum kr. og var gjaldfært í ríkisreikningi ársins 2008. Þá vega þungt skuldir sem ríkið hefur þurft að taka á sig og áhrif þeirra á vaxtakostnað. Í fyrsta lagi má reikna með því að kostnaður við endurfjármögnun banka og sparisjóða geti nálgast 200 milljarða kr. þótt þar komi á móti eignarhlutar sem ættu að geta skilað arði eða sölutekjum þegar fram í sækir.

Í öðru lagi gaf ríkið út 270 milljarða kr. verðtryggt skuldabréf til að endurfjármagna Seðlabankann og koma í veg fyrir að hann færi í þrot. Það skuldabréf hefur nú verið lækkað niður í 170 milljarða kr. eftir að bankinn yfirtók aftur hluta af kröfum vegna dag- og veðlána sem gengið höfðu til ríkisins.

Í þriðja lagi hefur ríkið þurft að standa að mjög verulegum lántökum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nokkrum samstarfslöndum um áætlunina um efnahagsendurreisn til þess að stækka gjaldeyrisvaraforða landsins. Hluti af þeim lánum færist í reikninga Seðlabankans en reikna má með því að sá hluti sem telst til skulda ríkissjóðs geti legið nærri 120 milljörðum kr. í lok þessa árs.

Í fjórða lagi leiðir hallarekstur ríkissjóðs til aukinnar skuldasöfnunar en hallinn var um 140 milljarðar kr. á árinu 2009 og verður að líkindum hátt í 100 milljarðar kr. í ár. Þessir samverkandi fjármögnunarþættir hafa í för með sér gríðarlega hækkun á vaxtakostnaði ríkissjóðs.

Árið 2007 námu vaxtagjöldin um 1,7% af vergri landsframleiðslu, eða sem svaraði til um 4,5% af heildartekjum ríkisins. Á næsta ári er gert ráð fyrir að þessi útgjöld verði um 4,5% af vergri landsframleiðslu sem svarar til nærri 16% af heildartekjum.

Meginniðurstaða frumvarpsins er að á næsta ári verði stigið stórt skref á leiðinni til þess að gera ríkisfjármálin aftur sjálfbær og þar með til þess að ríkisstjórninni takist það ætlunarverk sitt að tryggja að ríkissjóður hafi áfram bolmagn til að standa undir grunnþjónustu við samfélagið og velferðarkerfi fyrir þá þjóðfélagshópa sem mest þurfa á því að halda. Farin verður sem fyrr blönduð leið aukinnar tekjuöflunar og samdráttar í útgjöldum en í þessum áfanga verður þó þungi aðgerðanna að mestu á útgjaldahliðinni.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir beinum aðgerðum til að bæta afkomu ríkissjóðs frá því sem ella hefði orðið sem nema um 44 milljörðum kr. Er það í samræmi við markmið um að frumjöfnuður ríkisrekstrarins, þegar vaxtatekjur og vaxtagjöld eru undanskilin, verði orðinn jákvæður á næsta ári. Gert er ráð fyrir ráðstöfunum til aukinnar tekjuöflunar sem nema 11 milljörðum kr. og til samdráttar í útgjöldum eða aðgerðum til að koma í veg fyrir útgjöld sem nema 33 milljörðum kr. miðað við mat á horfum að óbreyttu.

Verða þá helstu niðurstöðutölur þær að heildarjöfnuður sem var neikvæður um tæpa 140 milljarða kr. samkvæmt ríkisreikningi fyrir árið 2009, áætlaður samkvæmt gildandi fjárlögum neikvæður um 98,8 milljarða kr. en nú, samkvæmt nýrri áætlun sem lesa má um í fylgigögnum með fjárlagafrumvarpinu, áætlaður neikvæður um 74,5 milljarða kr. verði þá neikvæður á árinu 2011 um 36,4 milljarða kr., eða sem nemur um 2,1% af vergri landsframleiðslu.

Gangi það í grófum dráttum eftir hefur að sjálfsögðu gríðarlegur árangur náðst í að snúa halla á ríkissjóði úr þeim 13% eða svo sem hann varð á árinu 2008, að teknu tilliti til bókfærðra tapa, úr þeim 9,3% af vergri landsframleiðslu sem hann var neikvæður um í fyrra úr því 6,1% sem hann var áætlaður neikvæður samkvæmt gildandi fjárlögum yfirstandandi árs frá þeim mínus 4,6% sem hann er nú áætlaður að verða neikvæður á árinu samkvæmt nýrri áætlun sem koma mun fram með fjáraukalagafrumvarpi niður í þau 2,1% sem áætlunin gerir ráð fyrir á næsta ári.

Að sama skapi hefur þá frumjöfnuður sem hlutfall af vergri landsframleiðslu farið úr því að vera neikvæður um 6,6% 2009, áætlað neikvæð um 1,7% samkvæmt áætlun nú fyrir árið 2010, og yfir í 1% afgang samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Í samræmi við þá forgangsröð sem ríkisstjórn hefur unnið eftir er leitast við að hlífa eins og kostur er velferðarþjónustu og tekjutilfærslum til þeirra sem búa við lökust kjör og ákveðið að aðhaldsaðgerðir á útgjaldahlið væru af þrennum toga: Í fyrsta lagi er ekki um að ræða sérstakar hækkanir á launaútgjöldum fjárlagafrumvarpsins né á grunnfjárhæðum bótakerfa. Áætlað er að það lækki útgjaldahorfur að óbreyttu um a.m.k. 5 milljarða kr. Í öðru lagi verða gerðar sértækar ráðstafanir til lækkunar á nokkrum útgjaldaþungum liðum sem nema um 10 milljörðum kr., svo sem vegaframkvæmdum, vaxtabótum og fæðingarorlofi. Að samanlögðu gerir þetta tvennt kleift, í þriðja lagi, að ekki þarf að skerða beinlínis bætur almannatrygginga líkt og nú er talið óhjákvæmilegt í ýmsum öðrum Evrópuríkjum og að unnt er að setja almenn markmið um aðhald í útgjaldaveltu ráðuneyta þar sem gengið er út frá mun lægri hlutfallslegri hagræðingarkröfu í sjúkratryggingum, 3%, velferðarþjónustu, framhaldsskólum og löggæslu, 5%, en í almennri stjórnsýslu en þar er gert ráð fyrir 9% samdrætti.

Ráðuneytin hafa útfært þessar ráðstafanir í frumvarpinu með margvíslegri forgangsröðun og áformum um endurskipulagningu verkefna og er þeim aðgerðum ætlað að skila 18 milljarða kr. sparnaði. Annað árið í röð verður því helmingi minni skerðing á framlögum til velferðarmála en til stjórnsýslu og almenns rekstrar á vegum ríkisins. Samtals er þannig gert ráð fyrir að draga úr útgjöldum eða koma í veg fyrir útgjaldahækkanir sem nema 33 milljörðum kr. í fjárlagafrumvarpinu. Það ber að undirstrika að niðurskurðurinn er ekki flatur og það þýðir því að hann kemur misjafnlega niður á málaflokkum og stofnunum.

Hluti þessara aðhaldsaðgerða snýr að liðum sem undir fjármálaráðuneytið falla, svo sem barna- og vaxtabætur. Gert er ráð fyrir því að barnabætur nemi um 9,2 milljörðum kr. á næsta ári sem er um 900 millj. kr. lægri upphæð en er í núgildandi fjárlögum. Áætlanir gera hins vegar ráð fyrir að heildarupphæð barnabóta eftir álagningu verði nálægt 10,5 milljörðum kr. á þessu ári. Fyrirhugað er að breyta reglum um úthlutun bótanna til að ná þessu markmiði þannig að barnabætur vegna barna yngri en sjö ára verði skertar af tekjum eins og aðrar bætur. Enn fremur verði tekjuskerðingarhlutfall vegna eins barns hækkað úr 2% í 3%. Þetta er gert til þess að lækkun bótanna komi fremur fram hjá þeim sem hafa hærri tekjur. Rétt er að taka það skýrt fram að tekjulægstu hóparnir meðal þeirra sem eiga rétt á barnabótum verða með þessu fyrir langminnstu skerðingunni.

Þetta eru einstæðir foreldrar með eitt barn undir sjö ára aldri. Sá hópur foreldra telur um 3.800 manns og fólk í þeim hópi sem er tekjulægst, með 1 millj. kr. og undir í árstekjur, fær enga skerðingu á barnabótum. Þær verða áfram 314.907 kr. á ári. Næstlægsti tekjuhópurinn, sem er með 2 millj. kr. í árstekjur sem er reyndar tíðasta gildið, meðal einstæðra foreldra með eitt barn undir sjö ára aldri verður fyrir um 3% skerðingu, þ.e. um 8.000 kr. á ársgrundvelli. 600 einstæðir foreldrar eru með tvö börn undir sjö ára aldri. Barnabætur til þeirra sem eru með hæstu tekjurnar, 2,5 millj. kr. í árstekjur eða meira, í þessum hópi skerðast um nálægt 11%, þ.e. úr 636.360 kr. niður í 566.360 kr.

Um vaxtabætur er það að segja að gerð er tillaga um að um 9.800 millj. kr. samkvæmt fjárheimildum gangi til greiðslu vaxtabóta á næsta ári sem er um 270 millj. kr. lægri fjárhæð en gert var ráð fyrir í fjárlögum 2010. Nú er hins vegar áætlað að þessi útgjöld verði að óbreyttu allt að 1,9 milljörðum kr. hærri en reiknað var með í fjárlögum 2010 vegna vanmats í áætluninni og vegna innbyggðrar aukningar í bótakerfinu milli ára. Til þess að ná settum markmiðum um lækkun þessara útgjaldagjalda og að hún bitni sem minnst á hinum tekjulægri og fremur á hinum tekjuháu er gert ráð fyrir því að gerð verði sú breyting á bótaréttinum að tekjutenging þeirra verði 7% í stað 6% nú. Þannig reiknaðar vaxtabætur verði síðan skertar um 8% þannig að bæði í barna- og vaxtabótum er reynt að hlífa þeim sem minnstar hafa tekjurnar.

Um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins er það að segja að það er sömuleiðis reynt að hafa tekjujöfnunarsjónarmið að leiðarljósi og bera þar niður sem minnst hefur verðlagsáhrif og minnst er íþyngjandi fyrir allan þorra almennings. Gert er ráð fyrir ráðstöfunum til að auka tekjurnar sem nemi 11 milljörðum kr. eins og áður sagði. Á tekjuhliðinni er ekki um að ræða teljandi breytingar á helstu tekjustofnum á borð við tekjuskatt einstaklinga, virðisaukaskatt og tryggingagjald, heldur er borið niður með sértækari hætti í öðrum minni tekjuliðum. Hvað tekjuöflun varðar er áfram lögð áhersla á jafnræði og tekjujöfnun í skattkerfinu auk þess sem umhverfissjónarmið og ábyrg nýting auðlinda landsins eru mikilvægir þættir í stefnumótuninni. Þær breytingar á tekjuöflun sem þegar hafa verið gerðar mótast mjög glögglega af þessum sjónarmiðum og þegar gætir meiri jöfnuðar í skattlagningu en verið hefur hin síðari ár. Sem dæmi um það er að skatthlutfall í tekjuskatti við álagningu 2010 lækkaði frá því sem það hafði verið fyrir 2009 fyrir einstaklinga með árstekjur allt að 5–6 millj. kr. en hækkaði þar fyrir ofan. Þessi lækkun nær til milli 60% og 70% allra gjaldenda. Varðandi aðgerðirnar á tekjuhlið skiptast þær með þeim hætti að gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur verði hækkaður úr 18 í 20 af hundraði og gefur það áætlaða 1,5 milljarða kr. í tekjuauka. Tekjuskattur lögaðila verður hækkaður sömuleiðis úr 18 í 20 af hundraði og hefur það lítils háttar tekjuáhrif á árinu 2011, þ.e. upp á 0,5 milljarða kr. en að sjálfsögðu meiri tekjuáhrif á árinu 2012. Erfðafjárskattur sem á Íslandi er einhver sá lægsti sem fyrir finnst á byggðu bóli verður hækkaður úr 5% í 10% og með nokkurri hækkun frítekjumarks á móti er gert ráð fyrir því að það gefi um 1 milljarð kr. Auðlegðarskattur verður sömuleiðis hækkaður, væntanlega með blöndu af prósentuhækkun og eignamörkum, þannig að hann gefi 1,5 milljarða kr. í viðbót. Áfengis- og tóbaksgjald og ýmsar fleiri breytingar, þar á meðal mögulega breyttir afslættir í fríhafnarverslun, gefa samtals um 1,3 milljarða kr. í tekjuauka. Kolefnisgjald verður hækkað úr þeirri 50% viðmiðun af verðgildi losunarheimilda innan ESB sem það var sett í á fyrra ári í 75% sem gefur um 1 milljarð kr. Með kerfisbreytingum í bifreiðagjöldum sem aðallega eru til þess ætlaðar að færa andlag skattlagningarinnar yfir í losun og ná þannig fram markmiðum í umhverfismálum og hvata til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en lítils háttar tekjuáhrif upp á um 0,2 milljarða kr. yrðu af þeim breytingum. Þá er loks gert ráð fyrir því að innheimt verði gjald á fjármálastofnanir, þ.e. bankaskattur, að bresk-sænskri fyrirmynd ef svo má að orði komast, þar sem væntanlega verður valin svipuð leið til skattlagningar og þar hefur verið notuð og gæfi slíkur skattur miðað við slíkar álagningarforsendur nálægt 1 milljarði kr.

Þetta gerir alls 8 milljarða kr. í sértækar tekjuöflunaraðgerðir af þessum toga en þá er loks gert ráð fyrir því að með rýmkun reglna eða nýjum úttektarreglum varðandi útgreiðslu séreignarsparnaðar falli ríkinu til 3 milljarða kr. tekjuauki af þeim sökum á árinu 2011.

Allar verða þessar tekjuöflunaraðgerðir útfærðar í frumvörpum sem vonandi ná hér inn á borð þingmanna í þessum mánuði.

Það má segja um þessar breytingar að almennt hafa þær hverfandi verðlagsáhrif eðli málsins samkvæmt miðað við þá skattstofna sem þarna hafa verið taldir upp. Fæstir þeirra hafa með beinum hætti verðlagsáhrif, einhverjir óbein og fáeinir bein, en verðlagsáhrifin eru hverfandi og ganga hvort í sína áttina að hluta til þannig að reikna má með að heildarverðlagsáhrif af þessum breytingum gætu í mesta lagi orðið 0,05–0,1%.

Ég vil næst víkja að því, frú forseti, að eins og reyndar kom fram í upphafsorðum mínum hefur þegar náðst talsverður árangur í því að takast á við vandann sem í ríkisfjármálunum hefur myndast í kjölfar hrunsins. Það er líka ljóst að það er eitt af mikilvægustu verkefnum sem stjórnvöld hafa með höndum um þessar mundir. Það sem hefur áunnist birtist okkur í þegar minni halla ríkissjóðs og reyndar betri útkomu, bæði á árinu 2009 og áætlun á nýjan leik um betri útkomu á árinu 2010 en fjárlög og áætlanir í báðum tilvikum höfðu gert ráð fyrir.

Skuldatryggingarálag á ríkissjóð hefur lækkað mikið, gengi krónunnar hefur styrkst umtalsvert á árinu án inngripa Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði og reyndar með öfugum formerkjum nú upp á síðkastið þar sem Seðlabankinn hefur hafið kaup gjaldeyris á markaði. Lætur nærri að raungengi krónunnar hafi styrkst um 14% á þessu ári. Endurfjármögnun bankakerfis og sparisjóða er að mestu lokið og klárast það sem út af stendur í tilviki nokkurra minni sparisjóða og fjármálastofnana sem yfirteknar voru á þessu ári væntanlega á allra næstu vikum eða mánuðum. Það hefur verið gripið til margvíslegra aðgerða til að reyna að aðstoða heimili og fyrirtæki í þeirra vanda eins og hv. þingmönnum er vel kunnugt um. Flestar hafa þær aðgerðir verið afgreiddar í góðri samstöðu á Alþingi þótt hinu sé ekki að leyna eins og umræðan nú ber með sér að ýmsum þykir að meira þurfi til.

Þannig eru þær ráðstafanir fjölmargar sem góð samstaða hefur verið um að grípa hér til og nefndir þingsins unnu að, t.d. í fyrravor. Sömuleiðis hafa ýmsar ívilnandi aðgerðir verið í boði fyrir fyrirtæki í vanda, svo sem eins og dreifing gjalddaga, lækkun dráttarvaxta, lög um að heimila fyrirtækjum að gera upp gamlar skattskuldir með skuldabréfi til langs tíma o.fl. mætti nefna.

Gera má ráð fyrir því, eftir því sem okkur vinnst úr erfiðleikum okkar, að aukin athygli beinist á næstunni að ríkisfjármálunum sjálfum, enda er það ljóst að þar er um bæði gífurlega vandasamt verk að ræða, að koma þeim í viðunandi horf, og einnig um viðfangsefni að ræða sem varðar miklu fyrir trúverðugleika þeirrar efnahagsendurreisnar sem hér þarf að verða. Án þess að fullnægjandi árangur náist á sviði ríkisfjármála er ólíklegt að Íslendingar muni búa við efnahagslegan stöðugleika og öflugt velferðarkerfi til framtíðar litið. Næstu árin er því líklegt að trúverðugleiki endurreisnarinnar verði að stórum hluta metinn út frá stöðu ríkisfjármála og því hvernig þær fyrirætlanir og þau áform sem þar er unnið eftir ganga fram á hverjum tíma.

Í nefndri skýrslu um aðlögunaráætlun í ríkisfjármálum sem lögð var fram á Alþingi í júnímánuði 2009 og er uppfærð hér í fyrra hefti fjárlaga með 3. kafla voru sett fram markmið um árangur í þessum efnum, sem sagt þau að bati frumjafnaðar, þ.e. rekstrarafkomu án fjármagnstekna og fjármagnsgjalda, verði í nágrenni við 3–4% að meðaltali á ári yfir áætlunartímann. Mestum árangri verði þó náð fyrstu tvö árin, þ.e. á yfirstandandi og næsta ári. Áætlunin er með öðrum orðum framhlaðin eins og ráðleggingar almennt ganga út á. Miðað við afkomu ársins 2009 á rekstrargrunni og áætlaða afkomu í ár sem birt er í frumvarpinu verður bati á frumjöfnuði á árinu 2010 rétt um 4% ef frá eru taldar einskiptis- óreglulegar tekjur vegna Avens-samkomulags Seðlabankans, ríkisins og lífeyrissjóðanna um kaup á íbúðabréfum. Bókfærðar tekjur ríkissjóðs vegna samkomulagsins nema um 17,5 milljörðum kr. Á næsta ári er stefnt að því að batinn á frumjöfnuði verði litlu minni, um 3,8%, og að hann verði síðan nálægt 2,5% árið 2012 og um 2% árið 2013. Á árinu 2013 er því gert ráð fyrir því að afgangur á frumjöfnuði verði orðinn ríflega 5% af vergri landsframleiðslu og afgangur á heildarjöfnuði verði um 2,5%. Eftir það er leitast við að halda afkomunni í því sem næst óbreyttu horfi þannig að jafnt og þétt verði unnt að lækka skuldabyrðina og draga þar með úr vaxtakostnaði og hefja á nýjan leik að veita fjármuni til mikilvægustu viðfangsefna ríkisins í auknum mæli.

Í upphaflegu aðlögunaráætluninni sem kynnt var í fyrravor var gert ráð fyrir því að bati á frumjöfnuði þyrfti að vera enn meiri en þetta til að settum markmiðum yrði náð, þ.e. rúmlega 16% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu sem áætlunin nær yfir, þ.e. 2009–2013. Auðvitað er ljóst að áætlanagerð af þessum toga um þróun í ríkisfjármálum felur í sér umtalsverða óvissu og fara þarf fram reglubundin endurskoðun á henni í ljósi aðstæðna til að endurmeta þörf fyrir nauðsynlegar ráðstafanir. Fjölmargir áhrifaþættir geta þróast á annan veg en spáð var og stuðlað að því að framgangur að settum markmiðum verður ýmist betri eða lakari þannig að metin aðlögunarþörf getur breyst töluvert í hverri endurskoðun. Núverandi áætlanir miðast við að bati frumjafnaðar verði um 12% á tímabilinu og samtals um 13% þegar fjármál ríkis og sveitarfélaga eru tekin saman. Helsta ástæða þess að aðlögunarferillinn hefur mildast er að þróun efnahagsmála á árinu 2009 var mun jákvæðari en fyrri spár sögðu til um. Vaxtakostnaður ríkisins hefur reynst nokkru minni og fleiri jákvæða þætti, svo sem eins og minna atvinnuleysi, mætti einnig nefna.

Í þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins frá maí 2009 var t.d. áætlað að landsframleiðsla á árinu 2009 mundi dragast saman um 10,6%, en bráðabirgðatölur samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar frá júní sl. bentu til þess að samdrátturinn hefði orðið um 6,5% og nýleg endurskoðun á þeirri tölu bendir nú til 6,8% samdráttar. Jafnframt hefur skuldsetning ríkissjóðs og þar með vaxtabyrði orðið minni en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir, svo sem eins og vegna þess að ríkissjóður slapp með minni fjárskuldbindingar frá endurreisn bankakerfisins. Einnig hafa horfur batnað hvað varðar endurheimtur krafna upp í Icesave-skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og vonir má binda við hagstæðari útkomu í þeim efnum en reiknað var með lengi framan af. Síðast en ekki síst varð útkoma ríkisrekstrarins einfaldlega betri á árinu 2009 en búist hafði verið við þar sem tekjur ríkissjóðs urðu umtalsvert meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir samhliða því að útgjaldamarkmið gengu fyllilega eftir og voru reyndar nokkuð undir áætlun.

Útlit er fyrir að á næsta ári fari hagkerfið að taka við sér eftir þá djúpu lægð sem gekk yfir það í kjölfar fjármálakreppunnar haustið 2008. Samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar frá júní sl., sem fjárlagafrumvarpið byggist á, er reiknað með að vöxtur landsframleiðslu verði um 3,2% á næsta ári og um 3,4% árið 2012 eftir 6,5–6,8% samdrátt á árinu 2009 og spá um 2,9% samdrátt á yfirstandandi ári. Eðlilegt er og í raun var óumflýjanlegt að ganga út frá spá Hagstofunnar frá því í júní sl. og svo endurskoðun í samræmi við nýja spá Hagstofunnar í nóvember. Tiltekið hefur verið í umræðunni að forsendur fjárlaga séu þegar brostnar, rétt eins og þau séu sett orðin, vegna þess að veigamikil forsenda sé uppbygging álvers í Helguvík og þar með gangi þetta ekki eftir eins og júníspáin tiltók. Hér gætir ákveðinnar ónákvæmni þar sem spá Hagstofunnar gekk aðeins út frá 1. áfanga í uppbyggingu í Helguvík. Einnig ber að líta til þess að ekki var gert ráð fyrir jafnmikilli fjárfestingu í uppbyggingu álversins í Straumsvík. Breytingar í spá Hagstofunnar ganga líka í ýmsar áttir. Atvinnuleysið í spánni er sem betur fer væntanlega ofmetið eins og tölur nú benda skýrt til. Ekki var gert ráð fyrir jafnmikilli styrkingu raungengis í júníspánni og nú blasir við og sömuleiðis virðist hafa verið gert ráð fyrir minni hagvexti í ýmsum mikilvægum viðskiptalöndum Íslands en spár ganga nú út frá.

Fyrir utan þetta má svo auðvitað nefna það sem eru engin ný sannindi að almennt er óvissa mjög mikil við aðstæður af því tagi sem við glímum við í efnahagsmálum og sú óvissa er langt frá því að vera bundin fyrst og fremst við einstök stóriðjuverkefni. Reyndar gerði Hagstofan, ef ég man rétt, í sínum spám í júní ekki ráð fyrir fleiri þáttum sem núna má augljóslega sjá að ganga í báðar áttir. Spá Seðlabankans frá því síðsumars gerði ráð fyrir nokkuð minni hagvexti, um 2,5% ef ég man rétt, en nýjasta spáin sem fram hefur komið er spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var með þriðju endurskoðun efnahagsáætlunar og þar er gert ráð fyrir 3% hagvexti. Í ljósi þeirrar óvissu sem við er að glíma er í raun og veru ekki hægt að segja að stórfelld frávik séu í þeim nýjustu spám sem við er að búa.

Það má vera sérstakt áhyggjuefni okkar ef kreppan hefur meiri áhrif og neikvæðari í viðskiptalöndum okkar en menn hafa gert ráð fyrir og leiði þannig til versnandi viðskiptakjara fyrir Ísland. Sem stendur er þó ekki ástæða til að hafa af því stórar áhyggjur og jafnvel eru hagvaxtarhorfur eða hagvaxtartölur betri í augnablikinu fyrir yfirstandandi ár í mörgum mikilvægum viðskiptalöndum Íslands en meiri óvissa um horfurnar í framhaldinu.

En aðalatriðið er það að við hljótum að endurmeta forsendurnar eins og þær liggja fyrir á hverjum tíma og gera okkar besta til þess að laga fjárlagafrumvarpið að þeim efnahagslega veruleika sem við okkur blasir hverju sinni. Og það gildir um þessa vinnu nú, ekkert síður en aðra. Ég vil þó láta eftir mér að segja það hér að ég hef efasemdir um að við höfum valið það heppilegasta verklag eða fyrirkomulag sem völ væri á varðandi aðferðafræði við þjóðhagsspár og skiptingu verkefna innan Stjórnarráðsins í þeim efnum. En það er önnur saga og bíður síns tíma að takast á við þá hluti.

Það er alltaf vandasamt að vega og meta hvaða gögn á að notast við þegar gengið er frá forsendum fjárlagafrumvarps. Eitt er víst og það er að menn verða að halda sig við einhverja samfellda aðferðafræði í þeim efnum. Vegna hugmynda um að það sé hægt að taka inn einstakar breytur frá öðrum spáaðilum og setja þær inn í t.d. þjóðhagsspá Hagstofunnar en notast við hana óbreytta að öðru leyti ganga hlutirnir nú ekki svoleiðis fyrir sig. Menn verða að byggja á einhverri samræmdri aðferðafræði þar sem aðstæður eru metnar í heild og það er ekki hægt að tína inn í þjóðhagsgrunn eða þjóðhagsspá þetta frá einum og annað frá öðrum. Þannig ganga hlutirnir einfaldlega ekki fyrir sig.

Hvort við eigum til lengri tíma litið að endurskipuleggja þetta fyrirkomulag, samanber hugmyndir um að endurreisa jafnvel Þjóðhagsstofnun, er svo önnur saga og bíður síns tíma að ræða.

Það er ekkert launungarmál, frú forseti, að það er margt erfitt sem fram er fært í þessu fjárlagafrumvarpi eins og umræður um það nú þegar bera með sér. Það má kannski nefna þar þrennt sem sérstaklega hefur orðið að umtalsefni og það varðar heilbrigðisstofnanir og rekstur sjúkrasviða ýmissa minni heilbrigðisstofnana, bæði á landsbyggðinni og hér á suðvesturhorninu. Það er alveg ljóst að þar er um mjög þungbærar ráðstafanir að ræða sem vega verður og meta hversu raunsætt er að gangi fram með þeim hætti sem frumvarpið ber með sér og það hefur heilbrigðisráðherra þegar boðað og í samráði við mig að verði gert. Ég vil þó láta það sjónarmið mitt koma fram að ég tel að sú faglega stefnumótun heilbrigðisyfirvalda sem þar er boðuð sé á margan hátt skynsamleg. Við Íslendingar verðum að horfast í augu við það að við þurfum að endurskipuleggja þessa starfsemi og reyna að gera hana eins skilvirka og bæta þar nýtingu fjármuna eins og nokkur kostur er og nýta til þess m.a. bættar samgöngur og nýja tækni af ýmsum toga sem með okkur leggst.

Ég held að það sé skynsamleg áhersla að efla heilsugæsluna og nærheilbrigðisþjónustuna, hjúkrunarstarfsemi og aðra slíka hluti en í staðinn verðum við að sætta okkur við að í einhverjum mæli færist sérhæfðasta og dýrasta þjónustan á færri staði. Þar kemur margt til. Eins og ég áður sagði má með bættum samgöngum og efldum sjúkraflutningum tryggja að gæði þjónustunnar séu síst minni með slíkum ráðstöfunum. Það er afar dýrt að veita hana með aðfluttum sérfræðingum á stofnunum sem ekki hafa ráðrúm til þess að hafa í sínu starfsliði sérfræðinga á mörgum sérgreinasviðum. Og ef það er betri og skilvirkari nýting fjármuna að efla undirstöðuþætti heilbrigðisþjónustunnar sem nærþjónustu og endurskipuleggja hina dýru og sérhæfðu hluta hennar í takt við breytta tíma og þannig náum við bestri nýtingu heildarfjármuna ber að sjálfsögðu að vinna að því. Í hvaða takti það er gert og með hvaða hraða er síðan viðfangsefni fyrir sig að ræða.

Í öðru lagi vil ég nefna rekstur framhaldsskólans þar sem ljóst er að til mikils er ætlast af framhaldsskólunum að taka við öllum þeim sem nokkur kostur er og kjósa að nota tíma sinn til náms. Það er eindreginn ásetningur ríkisstjórnarinnar að reyna að tryggja að svo verði og það hefur tekist fram að þessu að tryggja nær öllum skólavist í framhaldsskólum og háskólum sem þess óska þrátt fyrir samdrátt í fjárveitingum en það er auðvitað krefjandi verkefni og gerir miklar kröfur til þeirra sem þar stjórna. Einnig þar er að finna niðurskurð sem er þungbær og kemur við starfsemina í framhaldsskólanum og þar er sömuleiðis á ferðinni, rétt eins og í tilviki heilbrigðisstofnananna, liður sem eðlilegt er að viðkomandi fagráðherrar og fjárlaganefnd fari í sameiningu yfir.

Loks mætti nefna til viðbótar vissa þætti í félagsþjónustunni þar sem að sjálfsögðu er erfitt að mæta þeim kröfum um aðhald og sparnað sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég held að við verðum að ræða þessa hluti, erfiðir sem þeir eru, ágætir þingmenn, í ljósi þeirrar stöðu sem við okkur blasir og í ljósi mikilvægis þess verkefnis að ná tökum á þessu ástandi og gera ríkisfjármálin aftur sjálfbær. Það hljótum við öll að vera sammála um að við þurfum að gera. Hitt, nákvæmlega hvernig við útfærum þær aðgerðir, hvaða blöndu leiða við veljum og hvaða takt í aðlöguninni við veljum, er sjálfsagt og þarft að rökræða og ég lýsi mig reiðubúinn til að gera það við þingmenn og við fjárlaganefnd hér eftir sem hingað til.

Það er vissulega þjóðhagslega vandasamt verk að vega og meta saman annars vegar mikilvægi þess að ná sem fyrst tökum á skuldaþróuninni, stöðva hana og verjast því að vaxtakostnaðurinn fari sífellt upp á við og taki til sín stærri og stærri sneið af kökunni, og hins vegar að vega á móti þau víðtæku samfélagslegu og þjóðhagslegu áhrif sem aðgerðir af þessu tagi hafa, þar á meðal á eftirspurnarstigið í samfélaginu. Ég viðurkenni það vel að það er vandasamt og þar er engin ein töfraformúla til sem gefur einhlíta leiðsögn.

Maður reynir að kynna sér skoðanir og umfjöllun fræðimanna um þessi efni og fylgjast með þeim umræðum sem í gangi eru, m.a. í öðrum löndum. Og þar er ljóst að menn deila um leiðir og er ekki nýtt af nálinni. Þeir takast jafnvel á upp úr gröfinni gömlu mennirnir sem lögðu til mismunandi aðferðir í kreppunni 1930 og á árunum eftir það í gegnum núlifandi fræðimenn. Það standa deilur milli aðila vestan hafs og austan þar sem Bandaríkjamenn greinir á við Evrópu í veigamiklum atriðum um það hvaða aðferðir séu vænlegastar til að reyna að koma hagkerfunum í gang og út úr kreppunni. Það er þarflegt og gagnlegt að fylgjast með slíku en að lokum er það okkar litli íslenski veruleiki sem mestu máli skiptir og það hvernig okkur tekst til í þessum efnum. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um það, hv. þingmenn, að það er þungbært að sjá nú 15% af öllum tekjum ríkisins renna til greiðslu vaxtakostnaðar. Og það er ekki falleg tilhugsun ef við missum það hlutfall upp á næstum missirum og árum þannig að bráðum færi kannski fimmta hver króna eða fjórða hver króna eingöngu í að greiða vexti. Þeir fjármunir verða þá ekki notaðir til annars og þeim mun erfiðara verður fyrir ríkið að standa undir þeim verkefnum og skyldum sem ríki á að gera við eðlilegar aðstæður. Og hverjar er þær? Jú, það er að standa eins vel og myndarlega að velferð og samneyslu í landinu og efnahagur þjóðar leyfir á hverjum tíma. Það er að geta stuðlað að fjárfestingu í innviðum og uppbyggingu samfélagsins og skapað mannlífi og atvinnulífi blómleg skilyrði.

Það er ekki í lítið ráðist, frú forseti, það skal vissulega viðurkennt en það er líka óendanlega mikið í húfi. Við skulum ekki gleyma hvað á bak við liggur og í hverju okkar ábyrgð er fólgin. Það er framtíðin sjálf sem er undir því komin að okkur takist þetta verkefni því að það verður ekkert velferðarsamfélag rekið á Íslandi til lengri tíma litið með ríkissjóð á hausnum.

Ég vænti góðra og uppbyggilegra skoðanaskipta við hv. þingmenn hér við umræðuna sem og góðs samstarfs við hv. fjárlaganefnd þegar frumvarpið verður komið þangað. Það verður bæði óvenjulega vandasamt en um leið óvenjulega mikilvægt að okkur takist vel í þessum efnum. Ég lofa því að leggja allt mitt af mörkum sem að gagni má verða í formi samráðs og aðstoðar við fjárlaganefnd þegar hún fær sitt mikilvæga verkefni í hendur nú að lokinni þessari umræðu.

Það er að lokum tillaga mín, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar.