139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:50]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ræðuna. Hún var upptalning á tölum og mér fannst skorta ansi mikið upp á það að þingheimur og þjóðin fengju að vita hvaða stefnu núverandi stjórnvöld ætla að taka. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að stefna þyrfti að betri og skilvirkari nýtingu fjármagns. Er það gert með því að sópa öllu á suðvesturhorn landsins? Eigum við að leggja landsbyggðina niður? Það mundi alveg örugglega fást betri og skilvirkari nýting fjármuna. Nú stendur til að skera niður 40% í Heilbrigðisstofnun Þingeyinga, 30% á Sauðárkróki og 20% víða um allt land. 70% af niðurskurði í heilbrigðismálum fara fram úti á landi. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hver er stefnan?

Hann nefndi að við þyrftum að horfast í augu við okkar litla íslenska veruleika. Okkar litli íslenski veruleiki er þannig að við erum fámenn þjóð í stóru landi. Ég get ekki séð að það hafi góð samfélagsleg áhrif að færa grunnþjónustu, sem hæstv. fjármálaráðherra talaði um að vernda, á einhvern einn til tvo staði. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra svari þessum spurningum. Hann tók þó fram að það væri vilji til þess að endurskoða þessa stefnu. Ég vona að það reynist innihald fyrir því og þeir þingmenn sem eiga sæti í meiri hluta fjárlaganefndar taki það til greina.