139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[14:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stefnan er í fyrsta lagi að ná tökum á hallarekstri ríkissjóðs, koma í veg fyrir að skuldirnar aukist þangað til þær verði orðnar óviðráðanlegar. Við höfum sett okkur ákveðin markmið í þeim efnum, vissulega metnaðarfull en þau, gangi þau eftir, hafa þann stóra kost í för með sér að skuldaaukningin mundi þá stöðvast og vaxtakostnaðurinn færi ekki að ráði upp fyrir það sem hann er nú orðinn. Við mundum ná að halda vaxtakostnaði ríkisins á bilinu 15–17% af tekjum og hann færi aldrei upp úr þeim mörkum. Það er meginstefnan.

Og út frá öllu því sem við erum að ræða hér gætum við spurt okkur: Gerum við þetta ekki, hv. þingmaður, frú forseti, hvernig verður þá staða okkar eftir þrjú ár eða fimm ár? Hvað þurfum við þá að gera í heilbrigðisþjónustu jafnt sem öðrum hlutum? Það er ekki þannig að ég sé mér ekki vel meðvitaður um það hversu stórir og mikilvægir vinnustaðir heilbrigðisstofnanirnar víða í byggðarlögunum eru. Ætli það þurfi nokkuð að segja mér sérstaklega um það sem Þingeyingi? Og haldi einhver að ég hafi gaman af því að leggja fram frumvarp með þessum boðskap, sem m.a. snýr svona að minni heimasýslu, þá er það misskilningur. En það má þá líka segja á móti að ég sé ekki að hlífa sérstaklega mínu heimafólki, ég verð varla sakaður um það.

Þó að atvinnuástandið sé að breyttu breytanda almennt betra á landsbyggðinni, og það viðurkenni ég, það eru staðreyndir úr tölum, þýðir það ekki að það sé ekki jafntilfinnanlegt og þungbært ef störf tapast þar, t.d. sérhæfðs og háskólamenntaðs fólks sem í miklum mæli er að vinna við hina opinberu þjónustu úti í byggðunum, oft og tíðum fyrst og fremst það fólk sem hefur atvinnutækifæri á slíkum stöðum í krafti menntunar sinnar. En við skulum ekki heldur gleyma þeim niðurskurði og þeim samdrætti sem orðinn er hér. Landspítalinn hefur skorið mikið niður tvö ár í röð en náði engu að síður þeim undraverða árangri að halda sig nú innan fjárheimilda sem má kalla nánast kraftaverk og án þess að draga úr þjónustu, en hann hefur auðvitað orðið að fækka fólki. Þannig má t.d. segja (Forseti hringir.) að þegar sé komin fram talsverð fækkun fagfólks og starfsfólks innan heilbrigðisþjónustunnar og fram að þessu hefur hún fyrst og fremst verið (Forseti hringir.) á höfuðborgarsvæðinu.