139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framlagningu á frumvarpinu. Ég vildi óska þess að hæstv. utanríkisráðherra léti það vera að skattyrðast við þingmenn í ræðustóli eins og hann gerði með mjög ósmekklegum hætti áðan.

Við getum endalaust rifist um spár hagfræðinga um hagvöxt og annað því um líkt. Skoðanir þeirra í þeim efnum eru sennilega álíka margar og margvíslegar eins og þeir eru margir. Það er ágætt að hafa til viðmiðunar afkomu einstaklinga og þá tilfinningu sem þingheimur hefur fyrir því fyrirbæri og ég held að við sjáum það ágætlega á því sem er að gerast í þjóðfélaginu þessa dagana hvernig þeim málum háttar til.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvernig hann meti þá umræðu sem verið hefur allt frá því að frumvarpið kom fram um forsendur frumvarpsins sem lúta að hagvexti. Þegar maður skoðar álagningu á skattskyldar tekjur einstaklinga 2007–2010 kemur sívaxandi hluti og þáttur þeirra fram í greiðslum frá Tryggingastofnun, greiðslum úr lífeyrissjóðum, þar með talið séreignarlífeyrissjóðunum og sérstökum útborgunum úr séreignarsparnaði, þær koma úr húsaleigubótum og þær koma úr atvinnuleysisbótum. Í mínum huga er þetta stærsta einstaka vafamálið varðandi tekjuáætlun ríkisins, ekki síst þegar haft er í huga að fjárlögin gera ráð fyrir því að vöxtur verði í þeim tekjum sem hafa á af tekjuskatti einstaklinga á árinu 2011. Þá spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hann meti það, hvort það sé raunhæft að gera ráð fyrir því í ljósi þess ástands sem uppi er í íslensku þjóðfélagi í dag.