139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi spurning er að sjálfsögðu fullgild. Ég tek reyndar undir að það er erfitt að fá alltaf botn í það, það er svolítið með hagfræðingana eins og lögfræðingana að þeir eru snillingar í að geta verið ósammála þegar þeir nálgast sama viðfangsefnið og það þarf ekki annað en skoða ólíkar hagspár, bæði nú upp á síðkastið eða frá fyrri tíð og sjá hvernig þær sveiflast og hvernig mismunandi aðilar líta á hlutina. Ef við horfum t.d. á mat greiningardeilda og greiningaraðila kemur sömuleiðis býsna ólík mynd út úr því. Það má kannski segja að það sama gildi um þjóðhagsáætlanirnar og ónefndur stjórnmálamaður á hinni öldinni sagði um stjórnarsáttmálana, að þegar upp væri staðið skipti ekki mestu máli hvað stæði í þeim, það sem skipti máli væri hvernig fiskaðist. Það er auðvitað það sem gerist raunverulega sem skiptir okkur máli.

Eru forsendur frumvarpsins raunhæfar? Ja, við teljum að þær séu eins raunhæfar og þær geta verið. Við grundum það á síðustu opinberu stóru þjóðhagsáætluninni sem fyrir liggur. Í henni eru að sjálfsögðu fjölmargir óvissuþættir. Við getum reynt að lesa inn í það hvernig líklegt er að næsta spá verði út frá þeim upplýsingum sem við fáum annars staðar að og núna upp á síðkastið úr ríkisbókhaldinu, af vinnumarkaði, spár annarra aðila eins og Seðlabankans eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, og á heildina litið sýnist okkur ekki tilefni til að gera ráð fyrir miklu fráviki. Við höfum ekki annað betra í höndunum en um það bil það sem þarna er lagt upp með.

Það er alveg rétt, þegar maður skoðar t.d. beinu skattana er sumt sem veldur manni áhyggjum þar. Á móti kemur að óbeinir skattar hafa skilað meiri tekjum en áætlanir gerðu ráð fyrir þannig að einkaneysla virðist hafa haldist betur uppi. Við vitum af vissum þáttum sem standa væntanlega betur á haustmánuðum en spáin frá því í júní, sem unnin var í maí, gerði ráð fyrir, (Forseti hringir.) eins og minna atvinnuleysi, eins og meiri skipting á raungengi krónunnar o.s.frv. þannig að óvissuþættirnir ganga í báðar áttir (Forseti hringir.) og kannski er þá meðaltalið nokkurn veginn á pari.