139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:06]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins um spárnar og frávikin. Það væri náttúrlega ein leið til að nálgast þetta, ef maður vildi vera bjartsýnn, að segja sem svo, sem er staðreynd, að fram að þessu hefur gengið betur en spár gerðu ráð fyrir. Fram að þessu, allt frá hruninu, hefur útkoman orðið betri en allar spár sem við höfðum í höndunum gerðu ráð fyrir. Þegar við vorum að sauma saman fjárlagafrumvarp þessa árs og reyndum að meta forsendur þess með okkar eigin spá í höndunum í maí og júní 2009 gerðum við ráð fyrir 10,6% samdrætti landsframleiðslu á því ári. Hann varð 6,5–6,8. Sú staðreynd að hagkerfið dróst minna saman skilaði yfir 20 milljörðum meiri tekjum í ríkissjóð. Við gerðum ráð fyrir meira atvinnuleysi en útkoman varð o.s.frv. Það sama gildir að hluta til um þróun þessa árs. Í forsendum þessa fjárlagafrumvarps er enn gert ráð fyrir að atvinnuleysið verði 9,1% að meðaltali á þessu ári. Af hverju? Af því að það er í júníspá Hagstofunnar og við breytum ekki einstökum breytum þó að við vitum vel núna að það er ofmat, sem betur fer. Meðaltalsatvinnuleysið á þessu ári samkvæmt nálgunum núna er einhvers staðar á bilinu 8,4–8,7%. Bara það munar þó nokkru, enda mun fjárheimild til Vinnumálastofnunar verða færð niður um umtalsverðar fjárhæðir í fjáraukalagafrumvarpinu.

Að sjálfsögðu hefur það áhrif á launagreiðslusummuna og að sjálfsögðu þýðir þetta vinnumagn á þeim stofnunum sem taka á sig samdráttinn. Það væri óheiðarlegt annað en horfast í augu við það og viðurkenna það. Þýðir það uppsagnir? Já, það er engin leið að lofa því að svo verði ekki, vonandi ekki í stórum stíl. Fram að þessu hefur starfsmannaveltan, minni yfirvinna, jafnvel hlutastörf að mestu getað mætt þessu (Forseti hringir.) en hvort það er hægt í eina umferð í viðbót er ekki hægt að lofa.