139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:29]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var verið að gera grín að því að ég kæmi upp sem félagsmálaráðherra og ætli að ræða heilbrigðismál.

Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ræðu hans og get alveg tekið undir áhyggjur hans af stöðu landsbyggðarinnar almennt og hvernig við eigum að búa í haginn í þessu samfélagi. Það sem skiptir máli í því er auðvitað að horfast í augu við raunveruleikann sem hv. þingmaður raunar hefur gert og gerir enn. Hann þekkir það mætavel frá þeim tíma sem við unnum saman í fjárlaganefnd að lagt var upp strax ári eftir hrunið 2008 með ákveðið prógramm þar sem við ætluðum að reyna að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næsta ári, þ.e. frumjöfnuði þar sem útgjöldin færu að nálgast það að tekjurnar færu að duga fyrir útgjöldum.

Í heilbrigðisráðuneytinu er heilbrigðishlutinn u.þ.b. 97 milljarðar og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skera niður um 4,8 milljarða sem eru um það bil 4,7% og er það þriðja árið í röð sem þetta eru minni upphæðir en áður, þ.e. en í öðrum málaflokkum. Það kemur að sjálfsögðu samt mjög víða við og þar er settur fram ákveðinn forgangur þar sem heilsugæslan er varin og síðan tveir stóru spítalarnir, á Akureyri og Landspítalinn í Reykjavík, en gengið er harðar fram gagnvart sjúkrasviðum eða litlum sjúkradeildum eða skurðstofum á sjúkrahúsum á landsbyggðinni.

Á sínum tíma var lagt upp með það að reyna að sameina stofnanir, m.a. heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi og þá rætt um t.d. Fjallabyggð, Þingeyjarsýslur eða Húsavík og Akureyri. Mig langar að spyrja hv. þingmann um hvort honum finnist það koma til greina og hvort þá sé hægt þar sem sjúkrahúsinu á Akureyri er nú hlíft í fjárlagafrumvarpinu að jafna þessum niðurskurði á þetta svæði í heild.