139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:33]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson segir að hann sé til í að skoða alla skapaða hluti og það er undirritaður einnig. Það sem lagt er upp með í þessari stefnumótun í heild, ég hef stutt þá hugmyndafræði, er að reyna að jafna þjónustunni út á landinu, tryggja grunnþjónustuna, efla heilsugæsluna og verja síðan tvö góð fjölgreinasjúkrahús fyrir landið plús það að vera með á ákveðnum stöðum önnur sjúkrahús sem veita góða grunnþjónustu.

Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þessi mikli niðurskurður á Húsavík getur verið býsna erfiður, enda ræddi ég það við forstöðumann stofnunarinnar þar að við mundum fara yfir málið eftir hálfan mánuð, ég kynnti það fyrir honum um leið og við ræddum þetta, og skoða með hvaða hætti hægt væri að framkvæma þetta. Það komu fram í umræðunni líka möguleikar á samstarfi eða sameiningu við Sjúkrahúsið á Akureyri og það hefur þegar verið rætt við forstöðumanninn á Akureyri.

Verkefnið fram undan er að fara yfir þessar tillögur, raunar yfir landið í heild, og sjá hvaða útfærslur gætu verið bestar. Ég hef aftur á móti lýst því yfir að við þurfum að glíma við þessa fjárlagatölu nema eitthvað nýtt komi til varðandi tekjur. Það versta sem getur gerst er að við förum að borga meira í vexti en við gerum í dag og missum þar með velferðartekjurnar sem við þurfum svo mikið á að halda.

Það er ekkert nýtt í því að þetta átti að fara fram með þessum hætti vegna þess að á sínum tíma var það kynnt að við mundum hlífa opinberum starfsmönnum. Árið 2008 var kynnt að við mundum hlífa opinberum starfsmönnum til að byrja með en það mætti búast við að það kæmi fram niðurskurður á árinu 2011.

Þetta er hin nöturlega staðreynd sem við búum við. Við ætlum að snúa þessu samfélagi til rétts vegar og ég býð fram samstarf mitt og ráðuneytisins um það með hvaða hætti við getum gert þetta á sem bestan veg þannig að hægt sé að jafna þessu niður með réttlátum hætti yfir landið í heild.