139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[15:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2011 og hæstv. fjármálaráðherra hefur farið allítarlega yfir helstu atriði þess. Frumvarpið er samið í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og samstarfsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurreisn íslensks efnahagslífs.

Í skýrslunni um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum á árinu 2009–2013 voru sett fram viðbrögð við þeim mikla vanda sem við blasti. Með kynningu hennar í júní í fyrra var ljóst í hvað stefndi og að árið 2011 yrði þungt hvað varðar niðurskurð útgjalda, einkum þar sem sá niðurskurður kemur til viðbótar þeim sem var um mitt ár 2009 og í ár.

Stefnan varðandi ríkisfjármálin miðar að því að stöðva hallarekstur og skuldasöfnun ríkisins en verja grunnþjónustu og kjör þeirra verst stöddu. Nái stefnan fram að ganga mun verða unnt að verja rekstrarafgangi til að grynnka jafnt og þétt á skuldum vegna efnahagshrunsins. Þannig myndist svigrúm til að efla velferðarkerfið að nýju og bæta skilyrði til betri lífskjara.

Virðulegi forseti. Ekki þarf að rifja upp fyrir hv. þingmönnum eða öðrum Íslendingum hvers vegna við erum í þessum vanda sem fjárlagafrumvarpið er liður í að leysa. Vegna mikilla skulda og hallareksturs í kjölfar hrunsins hafa vaxtagjöld og atvinnuleysisbætur aukist mjög en tekjur dregist saman. Þessi staða kallar óhjákvæmilega á róttækar aðgerðir og ljóst er að ríkisreksturinn fyrir hrunið var byggður á tekjum sem koma ekki aftur í bráð. Við þurfum því að sníða okkur stakk eftir vexti, grynnka á skuldum eins fljótt og hægt er, draga saman reksturinn í samræmi við tekjurnar og um leið skapa lífvænlegum fyrirtækjum starfsaðstæður, hvetja til nýsköpunar og vinna á skuldavanda heimilanna. Hallarekstur með þeim mikla mun sem nú er á tekjum og gjöldum leiðir hratt til ófarnaðar ef ekki er hraustlega tekið á og er þá velferð þjóðarinnar til framtíðar teflt í tvísýnu. Ráðast þarf strax á vandann og því boðar fjárlagafrumvarpið róttækar aðgerðir. Meginmarkmið þeirra hafa verið vel kynnt, eins og áður sagði, með áætlununum sem lagðar voru fram og ræddar í fyrra og koma því fáum á óvart.

Leiðarljós til ráðuneyta og stjórnenda ríkisstofnana í hagræðingu og niðurskurði hefur verið að komast hjá uppsögnum starfsmanna eins og kostur er; það er talað um að verja störfin. Það er hins vegar ljóst að engin leið er til að skera niður þjónustu í þeim mæli sem þörf er á á árinu 2011 án þess að það hafi áhrif á starfsmannafjölda.

Til að ná settum markmiðum varðandi ríkisfjármálin hefur verið valin sú leið að blanda saman aðgerðum til tekjuöflunar með skattlagningu og með niðurskurði á ríkisrekstrinum sjálfum. Gert er ráð fyrir að á árinu 2011 verði niðurskurður um 33 milljarðar en skattar 11 milljarðar eins og áður hefur komið fram í umræðunni. Annað árið í röð verður helmingi minni skerðing á framlögum til velferðarmála en til stjórnsýslu og almenns rekstrar á vegum ríkisins.

Fjárlög 2010 voru m.a. byggð á breytingum á skattkerfinu og sú breyting hefur skilað tekjum til rekstrar en einnig stuðlað að jöfnuði þar sem stór hluti skattgreiðenda greiðir nú hlutfallslega lægri skatta á árinu 2010 en á árinu 2009. Árið 2011 eru engar breytingar boðaðar á helstu tekjustofnunum á borð við tekjuskatt einstaklinga, virðisaukaskatt og tryggingagjald. Hins vegar eru boðaðar breytingar á skattstofnum sem fæstir hafa áhrif á vísitöluna, undantekningar eru þó þar á. Rætt er um í því sambandi að hækka gjald á áfengissölu Fríhafnarinnar. Slíkt gjald er ekki stór hluti sérstakra tekjuaðgerða ársins 2011 en getur hins vegar haft mikil áhrif á starfsemi Fríhafnarinnar. Gæta verður þess að gjaldið vegi ekki það þungt að það valdi því að rekstrarniðurstaða Fríhafnarinnar verði svo slæm að hækkunin leiði til taps fyrir ríkið en ekki tekna eins og áætlað var. Með sama hætti verður að fara yfir hvern þann lið sem þetta varðar.

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að settum markmiðum verði náð vegna þess að annars mun skuldasöfnun og tilheyrandi vaxtagjöld aðeins auka á vandann. Því fyrr sem við komumst upp þessa bröttu brekku því fyrr getum við varið frekari framlögum til velferðarmála og grunnþjónustu. Það sem mun þó ráða úrslitum er að hagvöxtur næstu ára verði nægilegur til að tekjur ríkissjóðs vaxi jafnt og þétt.

Í frumvarpinu er miðað við hagspá Hagstofunnar frá því í júní eins og fram hefur komið fyrr í dag. Næsta hagspá kemur ekki fyrr en í nóvember. Frumvarpið gæti því tekið breytingum fyrir 2. umr. ef sú hagspá verður mjög frábrugðin þeirri sem sett var fram í júní. Þetta er einn af óvissuþáttum frumvarpsins, eins og rætt var um áðan, en við eitthvað verður að miða.

Við verðum að minna okkur á þegar svartsýni grípur okkur og við höldum að óvinnandi sé að vinna okkur út úr lægðinni að mannauður landsins hrundi ekki, hann er til staðar. Það eru líka framleiðslutækin, mannvirkin, fasteignirnar, innviðir samfélagsins og auðlindirnar. Þetta verður allt að virkja og nýta til að vinna á vandanum.

Á árinu 2011 er áfram gert ráð fyrir miklu atvinnuleysi en að það fari minnkandi á næstu árum þar á eftir. Að skapa eftirsóknarverð atvinnutækifæri er okkur nauðsyn og í því sambandi er úrlausn skuldavanda fyrirtækja lykilatriði, það kemur næst á eftir því brýna verkefni sem er lausn á skuldavanda heimilanna.

Í texta með frumvarpinu er rætt um breytt vinnulag við gerð fjárlaga. Nú er t.d. í fyrsta skipti settur fram bindandi útgjaldarammi á nafnvirði til að mæta útgjöldum næstu tveggja ára. Hann felur í sér þá stefnumörkun að ramma fyrir heildarútgjöld áranna 2011–2012 verði ekki breytt svo fremi sem frávik í verðlagsforsendum verði innan hóflegra marka. Að öðru leyti verða allar ákvarðanir og frávik að rúmast innan rammans þannig að beita verður forgangsröðun eða grípa til mótvægisráðstafana vegna breytinga á fjárheimildum eða við framkvæmd fjárlaganna. Í langtímaáætluninni eru einnig markaðir leiðbeinandi rammar fyrir árin tvö þar á eftir, 2013 og 2014, sem geta þó komið til endurskoðunar vorið 2012 við undirbúning fjárlagafrumvarps árið 2013 með tilliti til launa, verðlagsforsendna og hugsanlegra breytinga á aðstæðum.

Þessi vinnubrögð eru til þess fallin að auka festu við fjárlagagerðina og gefa góða vísbendingu um þróun í ríkisfjármálum fram í tímann. Stjórnvöld haldi sig við langtímaáætlanir í fjármálum hins opinbera og hindri þannig skammsýnar ákvarðanir. Vinnulagið gefur einnig stofnunum ríkisins tækifæri til að gera áætlanir fram í tímann og minnka þar með óvissu um rekstur þeirra. Nú er liðin sú tíð að agaleysi í ríkisrekstri geti viðgengist. Það bjargaðist fyrir horn á árunum fyrir hrun þegar stofnanir fóru fram úr áætlunum því að tekjur gerðu það einnig þannig að möguleiki var að bjarga málum með fjáraukalögum. Nú er hins vegar gengið út frá því að í áætlunum sé gert ráð fyrir ófyrirséðum útgjöldum og að út fyrir þau verði ekki farið nema í neyð. Innan fjárlaganefndar hefur verið unnið að breyttu vinnulagi við úthlutun safnliða. Í þeirri vinnu er haft að leiðarljósi að farið sé enn betur með opinbert fé til þessara liða og að þarfagreining, aðhald og eftirlit aukist. Það verði gert með því að auka hlutverk lögbundinna sjóða en einnig með öðrum hætti, svo sem með því að færa aukið fjármagn til menningarráða sveitarfélaganna og auka ábyrgð þeirra á úthlutun og eftirliti.

Breytt vinnulag við fjárlagagerð er líka boðað með kynjaðri hagstjórn og kynjaðri fjárlagagerð. Tilraunaverkefni eru af þeim toga í öllum ráðuneytum. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Við ákvarðanir um útgjaldaramma til næstu fjögurra ára verði […] lögð áhersla á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar. Kynjuð hagstjórn verði höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn.“

Með kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð hafa stjórnvöld betri upplýsingar um hvaða áhrif aðgerðir þeirra hafa á samfélagið og eru þar af leiðandi betur í stakk búin til að taka upplýstar ákvarðanir í samræmi við stefnu sína og markmið. Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð stuðla þannig að betri stjórnunarháttum.

Í september sl. voru samþykkt lög á Alþingi um breytingar á Stjórnarráði Íslands þar sem fækkun ráðuneyta var ákveðin. Í kjölfarið fer fram endurskipulagning á opinberri þjónustu. Allar stofnanir ríkisins eru undir hvað endurskipulagningu varðar, ekki bara þær sem heyra undir ný ráðuneyti. Sameiningar stofnana eru undirbúnar og samstarf eflt þvert á ráðuneyti. Hugmyndin er að hagræða en einnig að styrkja stjórnsýsluna þannig að hún geti betur tekist á við stór og erfið verkefni. Liður í þessu er fækkun ráðuneyta, að skyldum verkefnum verði komið fyrir á sama stað og starfskraftur og starfsaðstaða verði betur nýtt.

Þegar draga þarf úr útgjöldum er augljóst að forgangsraða þarf verkefnum og huga að því hvað má spara tímabundið en einnig verður að hafa í huga stefnumótun til langs tíma. Vinna þarf að sterkari stjórnsýslu en einnig að skapa góðan grunn fyrir skynsamlega hagræðingu í ríkisrekstri. Við höfum byggt upp ríkisrekstur og þjónustu sem gerði ráð fyrir tekjum sem við höfum ekki í bráð. Í efnahagslægðinni neyðumst við til að endurskipuleggja en þar liggja jafnframt tækifærin til að byggja upp betra kerfi sem nýtir betur mannauð og starfsaðstæður. Færri og stærri ráðuneyti verða öflugri starfseiningar og yfirsýn yfir málaflokka og þarfir þeirra sem nýta sér þjónustu ráðuneytanna verður betri. Það styrkir starfsemina. Of fámenn ráðuneyti takmarka möguleika til sérhæfingar og einnig takmarkar fámennið sveigjanleika sem felst í að færa starfsmenn á milli viðfangsefna eftir því sem álag gefur tilefni til.

Fleiri ríkisstofnanir heyra undir nýju ráðuneytin en áður og samlegðaráhrif verða sýnilegri og sameining stofnana augljósari kostur. Því auðveldar þessi skipulagsbreyting ein og sér sameiningu stofnana þó að ekki eigi að hverfa frá því að sinna megi verkefnum þvert á öll ráðuneytin. Skipulagsbreytingin er nauðsynleg til að ná fram hagræðingu á öllum sviðum ríkisrekstrar. Markmiðið er að vera með færri og sterkari ráðuneyti og færri og sterkari stofnanir sem auk þess verði rekin fyrir minna fé en nú er gert. Tryggja þarf að hagkvæmni og gæði fari saman.

Eftir 1. umr. um fjárlagafrumvarpið taka þingnefndir við því. Ég hef ekki farið yfir einstakar tölur í frumvarpinu eða einstaka málaflokka sérstaklega, það verður gert í þingnefndum og þær verða að vinna hratt og vel því að verkefnið á næstu tveim mánuðum er stórt. Við yfirferð í nefndum þarf að vega frumvarpið og meta og tryggja að markmiðum þess verði í raun náð, þ.e. að unnið verði á halla ríkissjóðs en jafnframt verði velferðar- og grunnþjónusta varin eins og mögulegt er og jafnrétti og byggðasjónarmið höfð í frammi.

Virðulegi forseti. Fara þarf gaumgæfilega yfir frumvarpið með þessi sjónarmið að leiðarljósi. Skoða þarf þjónustu ríkisstofnana út frá þörfum notenda, þörfum íbúa þeirra svæða sem stofnanirnar starfa innan og þeim áhrifum sem breytingar á þjónustu hafa á nærsamfélagið. Það verður einnig að líta á stöðu atvinnulífs á svæðunum, atvinnuleysið sem fyrir er og hlutfall kynjanna hvað það varðar. Nefndir koma síðan með tillögu að breytingum eftir yfirferð og breyta áherslum ef ástæða þykir til. Heildarniðurstaðan verður samt sem áður að rúmast innan rammans sem fjárlagafrumvarpið gefur.

Frú forseti. Það er þjóðinni mikilvægt að vel takist til með fjárlögin fyrir árið 2011. Það er enn mikilvægara en áður. Trúverðugleiki endurreisnar efnahagslífs landsins verður að stórum hluta metinn út frá stöðu ríkisfjármála og þeim fyrirætlunum sem unnið er eftir. Brýn nauðsyn er á að við Íslendingar endurheimtum traust og trúverðugleika bæði innan lands sem utan. Það gerum við m.a. með staðfestu í ríkisfjármálum sem skref fyrir skref leiðir okkur út úr efnahagslægðinni og tryggir velferð. Starfsemi ríkisins verður styrk og góð og í takt við þær tekjur sem við höfum úr að spila.

Við útfærslu aðhaldsaðgerða árið 2011 er velferðarþjónustu og tilfærslum til þeirra sem búa við lökustu kjörin hlíft eins og kostur er og sneitt hjá skerðingu lífeyrisbóta. Þó þurfa flestir hópar að taka á sig skerðingu á þjónustu og stuðningi ríkisins í einhverjum mæli. Það er brekkan sem við verðum að komast upp. Náist sett markmið og trúverðugleiki endurheimtist innan lands og utan verður lánsfjáröflun jafnframt auðveldari og ódýrari. Það á bæði við um lánsfé til ríkisins og til fyrirtækja sem nú glíma við þann vanda að fá annaðhvort ekki lán vegna þess að Íslandi er ekki treyst eða bjóðast allt of dýr lán. Þetta hefur afdrifarík áhrif á starfsemi fyrirtækja til hins verra og tefur endurreisnina. Ríkið verður því að ganga fram og gefa gott fordæmi.

Úr þessum ræðustóli við dynjandi undirtón frá mótmælendum á Austurvelli í gær voru notuð orð eins og samvinna, réttlæti, að nýta styrkleika, leiða saman ólík sjónarmið, heiðarleiki og virk hlustun. Það er von mín að allt þetta verði haft að leiðarljósi í vinnu þingsins með fjárlagafrumvarpið á næstu vikum og að góður árangur náist.