139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Á bak við allar þær tölur sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu, á bak við öll þau númer sem þar eru tilgreind er fólk, fólk sem fylgist nú með þessari umræðu, vegna þess að það veit að þær ákvarðanir sem eru teknar í þessum þingsölum koma til með að hafa áhrif á lífsafkomu þeirra og framtíð. Það er mikið í húfi og okkur sem eigum sæti í fjárlaganefnd er skapað erfitt hlutverk. Ég skorast ekki undan því og mun leggja mig allan fram við að bæta það sem má bæta og leiðrétta það sem þarf að leiðrétta í þessu fjárlagafrumvarpi.

Í þessu frumvarpi kemur einnig fram stefna núverandi ríkisstjórnar, hvernig núverandi stjórnarflokkar ætla að ná Íslendingum út úr þeirri kreppu sem þjóðin glímir nú við. Í því verð ég að segja að ég hef orðið fyrir töluvert miklum vonbrigðum. Í raun kemur ekkert annað fram heldur en að hér verði viðvarandi atvinnuleysi næstu árin. Gert er ráð fyrir því að á næstu þremur, fjórum árum muni atvinnuleysi aðeins minnka um 3,7 prósentustig og það verði um 5% atvinnuleysi á Íslandi árið 2014. Það finnst mér metnaðarleysi. Það finnst mér gríðarlega mikið metnaðarleysi. Ég hefði viljað sjá forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar leggja höfuðið að veði og segja: Við ætlum að ná atvinnuleysinu niður. Það er stefnan. Kannski er það ekki stefna þessarar ríkisstjórnar að vinna bug á atvinnuleysinu, vegna þess að stefna hennar er nú ekkert sérstaklega skýr.

Við sem höfum ákveðið að bjóða okkur fram undir stefnu og merkjum Framsóknarflokksins teljum, og það er mín skoðun, að fjárlagagerðin eigi að miða að því að útrýma atvinnuleysi. Við eigum að stefna að því að framleiða eins mikið og við getum og búa til atvinnu úti um allt land þannig að sem fæstir séu án atvinnu. Atvinnuleysi er eitthvert það mesta böl sem Íslendingar þurfa að glíma við.

Ég hef sagt að við þolum það verr en aðrar þjóðir ef hér er mikið atvinnuleysi vegna þess að við erum dugmikil, kraftmikil þjóð. Ég held að þau mótmæli sem eru hér á Austurvelli snúist kannski um það, stefnuleysi stjórnvalda, úrræðaleysi í atvinnumálum. Það er vonleysistónn sem kemur frá stjórnvöldum. Það finnst mér ekki gott.

Ég aðhyllist miðjustefnu sem gengur út á það að við eigum að búa í landi þar sem menntun og heilbrigðisþjónusta er fyrir alla, hún sé ókeypis og allir eigi aðgang að henni óháð kyni, aldri og búsetu. Það er ekki ódýrt að reka slíkt kerfi, ég geri mér fyllilega grein fyrir því. Ég hef þess vegna sagt og lagt áherslu á að við eigum hér dugmikið og öflugt atvinnulíf. Þess vegna legg ég höfuðáherslu á það að við höldum yfirráðum yfir sjávarútveginum okkar, yfir landbúnaðinum og þeim auðlindum sem við eigum til sjávar og sveita, vegna þess að við verðum að nota allar þessar tekjur í samneysluna til þess að geta búið vel í haginn fyrir þá sem minna mega sín, aldraða og öryrkja, ungt barnafólk, einstæðinga, einstæðar mæður, einstæða feður. Þetta er sú stefna sem ég aðhyllist.

Ég tel mig vera ansi langt frá Sjálfstæðisflokknum vegna þess að ég samþykki ekki að velferðarkerfið verði einkavætt. Ég er líka mjög augljóslega langt frá Vinstri grænum vegna þess að ég hef allt aðrar áherslur í atvinnumálum og frá Samfylkingunni vegna þess að ég vil vernda grunnatvinnuvegi þjóðarinnar til sjávar og sveita. Ég held að það verði þjóðinni til óheilla að ganga inn í Evrópusambandið og vil það alls ekki. Enginn hefur sannfært mig um að það sé betra að gefa frá sér auðlindir þjóðarinnar. Jafnvel þó að evran hljómi lokkandi á stundum og erfitt sé að eiga við krónuna þá held ég að evran færi okkur ekkert annað en atvinnuleysi. Við þurfum á sveiflum í hagkerfi okkar að halda, þær eru óhjákvæmilegar. Við þurfum gjaldmiðil sem tekur mið af þeim. Við eigum ekki að gefast upp á því verkefni og segja að krónan sé ónýt. Hún er það ekki. Við höfum bara haft peningamálastefnu og Seðlabanka sem hefur ekki tekið á og reynst þjóðinni nægilega vel í því að halda utan um efnahaginn og gjaldmiðilinn okkar.

Eins og ég sagði hér áðan þá vil ég að allir eigi rétt á heilbrigðisþjónustu óháð aldri, kyni og búsetu. Nú er það þannig í þessu frumvarpi að það hallar verulega á einn þjóðfélagshóp. Það hallar verulega á þá sem búa í hinum dreifðu byggðum landsins. 70% niðurskurðar í heilbrigðisþjónustu fer fram úti á landi, hlutfallið er jafnvel hærra. Það er eitthvað sem samrýmist ekki stefnu minni og hugsjónum. Það sem við framsóknarmenn höfum ávallt lagt ofuráherslu á í umræðunni er að vera ábyrgir og sanngjarnir. Það þarf að skera niður. Á því leikur enginn vafi. Það eru erfiðir tímar. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við árið 2007 var mikil þensla í þjóðfélaginu og það gerðu sé allir grein fyrir því. Í rannsóknarskýrslunni kemur fram að á árunum á undan hafi ýmis mistök verið gerð í hagstjórninni. Við, þá nýkomin í stjórnarandstöðu og ég nýkominn á Alþingi, tókum þá ákvörðun að vera ábyrg og detta ekki í popúlismann sem því miður mér finnst of oft ráða ríkjum hér á Alþingi. Þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hækkaði fjárframlögin um 20% í miðri þenslunni sögðum við nei. Það var afar óvinsælt að vilja ekki nota það sem menn töldu þá vera botnlausa sjóði ríkisins. Að vilja ekki vera með í að gera allt fyrir alla. Það var það sem sú ríkisstjórn lagði upp með, enda fór illa skömmu síðar.

Í fyrra lagði ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, fram gríðarlega miklar skattahækkanir sem ég gagnrýndi og sagði að mundu gera það eitt að hafa letjandi áhrif á atvinnulífið, það mundi hægja á hjólum atvinnulífsins þegar við þyrftum á því að halda að koma þeim af stað. Ég bætti við og sagði: Þetta mun líka gera það að verkum að það munu skapast minni tekjur til velferðarkerfisins sem við þurfum að vernda með öllum tiltækum ráðum. Á þetta var ekki hlustað. Nú eru afleiðingarnar að koma í ljós, því miður. Skelfilegur niðurskurður víðs vegar um landið sem er afleiðing af hagstjórnarmistökum síðasta árs.

Í fyrra varaði ég líka við því að gengið yrði nær grunnþjónustu víðs vegar um land og benti á að niðurskurður þar þýddi ekki uppsögn á tveimur, þremur starfsmönnum heldur einfaldlega það að stofnunum í hinum dreifðu byggðum landsins yrði lokað. Stofnað hefur verið til 90% til 95% nýrra starfa í hinum opinbera geira hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er hinn bitri sannleikur, því miður.

Hver er stefnan? Hverjar eru áherslur núverandi ríkisstjórnar? Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra að því áðan hverjar þær væru og mér fannst hann vera á hálfgerðu undanhaldi með þessar tillögur. En Geir Gunnlaugsson landlæknir svarar þessu ágætlega í viðtali í Morgunblaðinu þar sem hann segir að það eigi að leggja höfuðáherslu á heilsugæsluna. Það sé mikilvægt að tryggja grunnþjónustu heilsugæslunnar í nærsamfélaginu og hann spyr hvort við eigum að halda úti öflugum sjúkrahúsum í hverjum landshluta. Sú starfsemi er í eðli sínu dýr og þessi mál þurfi að vera í sífelldri endurskoðun. Geir segir mikilvægt að í hverju heilbrigðisumdæmi sé þverfagleg þjónusta með stóru sjúkrahúsi. Þannig sé jafnvel hægt að tryggja fjölbreyttari og hagkvæmari þjónustu en í dag. Hitt verður þó að hafa í huga að víða úti á landi séu héraðssjúkrahús mikilvægir vinnustaðir. Þess vegna sé umræðan um skert framlög og hugsanlega fækkun starfsfólks í senn viðkvæm og sársaukafull.

Þetta er umræða sem hefur ekki farið fram í sölum Alþingis. Við höfum ekki rætt hér í þessum ræðustól hvernig við sjáum fyrir okkur heilbrigðisþjónustuna í landinu á komandi árum. Stefnan er einfaldlega boðuð með niðurskurði á landsbyggðinni í fjárlagafrumvarpi sem hefur verið gagnrýnt fyrir forsendubresti og óvönduð vinnubrögð.

Ég er hjartanlega ósammála þessari nýju sýn stjórnarflokkanna í heilbrigðismálum. Ég tel að við eigum fyrir alla muni að halda uppi öflugri heilbrigðisþjónustu úti um allt land. Ég vil ekki að öll þjónusta á Norðurlandi verði færð til Akureyrar. Það er miklu mikilvægara fyrir íbúa Akureyrar að vita af því að öflug sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir séu í nærsveitum og nágrannabæjarfélögum. Þetta er allt saman eitt og sama atvinnusvæðið. En atvinnusvæðið er því miður þannig að langt er á milli og erfitt að keyra.

Það sér það hver í hendi sér að ef íbúar á Húsavík eða Sauðárkróki þurfa að keyra alla leið til Akureyrar er það bæði dýrara auk þess sem það stofnar heilbrigði og heilsu fólks í hættu. Það er hinn bitri sannleikur.

Ég ætla örstutt að fara yfir atvinnuhorfur í þessum landshluta, sér í lagi Þingeyjarsýslu. Við höfum barist fyrir því að Þingeyingar og heimamenn fái að stjórna því hvernig atvinnustarfsemi verði reist á grundvelli þeirrar orku sem þar finnst. Þingeyjarsýslur eru í raun sjálfbært samfélag ef þær fá að nýta alla þá orku sem þeim stendur til boða. Ég ætla að leggja fram þingsályktunartillögu um að sú orka sem finnist í Þingeyjarsýslunum verði fyrst og fremst nýtt til atvinnusköpunar á því svæði. Það er einfaldlega komið á það stig núna að það verður að leggja í róttækar aðgerðir til að vernda þetta svæði. Það eru engin önnur tiltæk ráð.

Ég hef barist fyrir því lengi að það komi til stórframkvæmda á Bakka við Húsavík. Vinstri grænir svöruðu því til þegar þeir voru spurðir fyrir nokkrum árum hvað annað ætti að koma í staðinn: Bara eitthvað annað. Þegar gengið var á þá sagði, að mig minnir, hæstv. fjármálaráðherra að það væri til að mynda hægt að efla heilbrigðisþjónustuna á Húsavík, fjölga hjá sýslumanninum, fjölga í lögreglunni. Fjölga opinberum störfum. Nú þegar hæstv. fjármálaráðherra ræður ætlar hann ekki að stuðla að atvinnuuppbyggingu. Orkan er til. Það er hægt að leggja af stað. Nei, hann er líka að skera niður í opinbera geiranum, heilbrigðisgeiranum um 40%. Það á að leggja niður sjúkrahúsið á Húsavík og úr Skagafirði berast þær fréttir að það komi líka til með að verða lokað þar.

Austfirðingar þurfa að taka á sig 20% niðurskurð. Það eru gríðarlega vondar fréttir. Þeir hafa barist fyrir því að halda sinni heilbrigðisstofnun á lífi. Fjárhagur þeirra hefur verið erfiður. Þar er langt á milli byggða og samgöngur erfiðar. Við verðum að taka tillit til þess. Við getum ekki látið eins og við búum í borgríki þar sem allir geti sótt heilbrigðisþjónustu um stuttan veg. Það er margt sem hægt er að segja um fjárlögin og ég mun segja það í seinni ræðum mínum.

En af því að við erum að tala um stefnu stjórnvalda þá stendur hér á bls. 5 í frumvarpi til fjárlaga í riti sem ber einmitt heitið Stefna og horfur, að það hafi verið gripið til margvíslegra aðgerða til að aðstoða heimili og fyrirtæki vegna skuldavanda þeirra. Þetta hlýtur að vera grín. Það eru allir sammála um að það hefur ekki verið nóg gert. Það er alveg sama í hvaða flokki menn eru. Valgerður Bjarnadóttir hv. þingmaður sagði að menn yrðu bara að horfast í augu við það að það hefði ekki nóg verið gert og að mönnum hefði mistekist.

Síðan kemur kannski meira grín, ég veit það ekki, um að gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða til að örva atvinnusköpun sem þegar hafi skilað verulegum árangri. Þetta er grín vegna þess að þetta fjárlagafrumvarp byggist á spá Hagstofu Íslands sem spáir 3,2% hagvexti, sem byggist til að mynda á því að það verði ráðist í framkvæmdir við Helguvík, sem eru nú í frosti út af aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Atvinnusköpun og uppbygging um allt land eru í frosti út af aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Við skulum líka hafa í huga að það sem af er þessu ári hafa skatttekjur ríkissjóðs af flestum skattstofnum verið minni en gert var ráð fyrir í áætlun fjárlaga. Tekjuskattur á einstaklinga skilar ríkinu 7,4% minna það sem af er ári en gert var ráð fyrir í fjárlögum síðasta árs. Tekjur af fyrirtækjaskatti eru tveimur prósentum undir áætlunum. Tekjur af fjármagnstekjuskatti verða 7,9% minni það sem af er ári en fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir. Þetta er því miður staðreyndin.

Ég skora á þá þingmenn sem eiga sæti í fjárlaganefnd að við tökum höndum saman og leysum þetta verkefni. (Forseti hringir.) Alþingi er vanbúið til þess, en við eigum ekki að láta það stoppa okkur í því að breyta því frumvarpi sem er hér til umræðu. (Forseti hringir.) Það er hægt ef menn leggjast á eitt og ráðast í verkið.