139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:46]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ef ég hef skilið hann rétt vegna þeirra skýrslna sem ég vitnaði í frá Ríkisendurskoðun, það eru árin 2005, 2006 og 2007, og ef marka mátti orð hans hér áðan þannig að það hefði verið krafa vinstri flokkanna um aukin útgjöld á þessum tíma, þess vegna hafi agaleysið verið með þessum hætti sem þar var. Ég var ekki að tala um kröfu um útgjöld, hverjir hefðu gert kröfu um útgjöld. Vinstri flokkarnir voru ekki í ríkisstjórn á þessum tíma. Ég var ekki að tala um hverjir voru í ríkisstjórn á þessum tíma, hv. þingmaður, ég var að ræða um agaleysið sem Alþingi sýndi fjármálum ríkisins á þessum tíma, burt séð frá því hverjir voru í ríkisstjórn, burt séð frá því hvaða flokkar mynduðu ríkisstjórn, agaleysið var algjört. Það gat ekki orðið meira. Það endurspeglast m.a. í gögnum sem fylgja fjárlagafrumvarpinu og finna má á vef fjármálaráðuneytisins sem sýna nákvæmlega sömu tölur á þessum árum. Það vitnar um agaleysið sem var á þessum árum eins og Ríkisendurskoðun segir að hafi verið.

Þá var fjárlagahallinn algjör, hafði aldrei verið meiri en akkúrat á þessum tíma þegar við mældum góðærið sem mest. Á sama tíma var agaleysið mest. Það skiptir mig engu máli hverjir voru í ríkisstjórn á þessum tíma, það breytir ekki nokkru einasta máli í þessu sambandi.

Ég geri kröfu til þess að við hér inni á Alþingi, fjárlaganefndarmenn sem og aðrir alþingismenn, sýnum aga í ríkisrekstrinum, við sýnum fjárlögunum aga og fylgjum eftir að ákvörðunum sem við tökum verið fylgt eftir. Og ekkert umfram það, það er það sem ég talaði um í ræðu minni og vil vekja (Forseti hringir.) athygli á.