139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin mín var um allt annað, hún var um tilurð hins svokallaða ríkisfjármálahóps. Ég tók undir með hv. þingmanni um að við þyrftum að koma á aga í ríkisfjármálum. Meira var nú ekki um þann málaflokk. En ég vil fá að vita, vegna þess að hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur sem varaformaður fjárlaganefndar tekið þátt í að útbúa fjárlagafrumvarpið sem við glímum við. Nú tekur hann við eigin verki og á að gagnrýna það og yfirfara. Ég hef sagt að þetta sé fyrirkomulag sem gangi ekki. Ég spyr, og ítreka spurningu mína: Hvað finnst þingmanninum um þetta, hvernig gekk vinnan í hópnum og hvaða skilaboð hefur þingmaðurinn til þeirra sem koma til með að missa vinnuna í Þingeyjarsýslum út af (Forseti hringir.) niðurskurði í heilbrigðisþjónustunni?