139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[16:53]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að endurtaka eina málsgrein úr ræðu minni frá því áðan sem hefur farið fram hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni.

Eftir að hafa fjallað um skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árunum 2005–2010 segi ég í ræðu minni, með leyfi forseta:

„Með þessu er ég ekki að halda því fram að við höfum náð tökum á öllu því sem við þurfum að ná tökum á. Það er enn nokkuð langt í að stjórn ríkisfjármála verði með því móti sem ásættanlegt er og nauðsynlegt er að verði til framtíðar.“

Ég ætla að vona að hv. þingmaður hafi heyrt núna það sem ég sagði um þetta.

Það var ekkert ákveðið los í þeim öra vexti sem átti að hafa verið hér árin 2005, 2006 og 2007. Þar vitnaði ég til skýrslu Ríkisendurskoðunar sem talar ekki um los, hún talar um agaleysi, stjórnleysi og óráðsíu sem er algjörlega óásættanleg. Það eru ekki lausatök. Við getum verið ósammála um niðurstöðu skýrslunnar en agaleysi hefur ríkt nánast fram á þennan dag. Okkur miðar þó í rétta átt. Ég ætla að vona að hv. þingmaður sé mér ekki ósammála um það, okkur miðar í rétta átt hvað þetta varðar. Þar vitna ég til gagna sem hafa borist til fjárlaganefndar frá aðilum sem við höfum kallað eftir áliti frá. Ríkisendurskoðun, sem ég vísaði til áðan, og fleiri aðilar hafa komið inn á gólf til okkar til skrafs og ráðagerða. Ég veit að hv. þingmaður getur sömuleiðis borið vitni um það og örugglega nefnt dæmi um slíkt.

Sama agaleysið er ekki enn við lýði, við erum á réttri leið en við eigum enn talsvert langt í land. Við skulum taka höndum saman um að ná meiri og betri tökum á þessu en verið hefur því að ég held að við hljótum líka að vera sammála um að þetta var óásættanlegt eins og það var.