139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, svar mitt við því er alveg skýrt. Það er einfaldlega vond ríkisstjórn með vond skilaboð til umheimsins varðandi þá fjárfestingarkosti sem eru hér í boði. Þá er ég ekki að tala bara um stóriðjuframkvæmdirnar eins og í Helguvík sem er bráðnauðsynlegt að fara í. Við þurfum að fara af stað með framkvæmdir hvort sem er í stóriðju eða á öðrum sviðum.

Við erum að tala um gagnaver, þar segir ríkisstjórnin lok, lok og læs. Við erum að tala m.a. um ECA-verkefnið. Það má ekki af því að þar er eitthvert hernaðarbrölt á ferðinni að mati Vinstri grænna. Það má ekki fara af stað með sjúkrahús af því að svo vill til að það eru einkaaðilar sem koma að uppbyggingu sjúkrahússins.

Við höfum komið með tillögur sem stuðla að því að efla atvinnu, ekki síst á Suðurnesjunum, til að koma hreyfingu á atvinnulífið sem leiðir til þess að skatttekjur ríkisins verði hærri. Þetta er svo einfalt. Að skatttekjur ríkisins verði hærri svo við getum frekar hlúð að því að efla velferðarkerfið og að Þingeyingar eða Hafnfirðingar þurfi ekki að standa frammi fyrir stórfelldum niðurskurði til heilbrigðismála.

Síðan vil ég vekja athygli á því og þakka sérstaklega hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að vera eini fagráðherrann (Forseti hringir.) sem situr vaktina í þingsalnum í dag. Fyrir það vil ég sérstaklega þakka.