139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra telur að ég hafi of miklar áhyggjur af kynjaðri fjárlagagerð og hagstjórn. Það getur vel verið rétt en mér finnst þetta bara vera svo augljóst. Þegar menn skilgreina þetta út frá einhverju jafnréttissjónarmiði þá eru auðvitað allir jafnréttissinnaðir, hvort sem það er ég eða einhver annar. Ég geri ekki lítið úr því. En það blasir við að verið er að taka 50 milljónir og setja í þetta verkefni á sama tíma og konurnar sem vinna á sjúkrastofnunum og heilbrigðisstofnunum úti á landsbyggðinni eru reknar atvinnulausar út á götuna. Þetta er spurning um forgangsröðun. Ég var að benda á það. Ef mikill afgangur væri á fjárlögum gætu menn farið í svona verkefni. Mér finnst þetta vera gæluverkefni, einhvers konar femínistaverkefni. Það getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér en þannig lít ég á það af því niðurstaðan liggur alveg klár í mínum huga.

Varðandi flutning á fjárheimildum milli ára sem hæstv. ráðherra kom inn á, það er nú eitt sem hefur verið rætt endalaust í fjárlaganefnd. Því miður er það þannig og tilfinningin er sú að ekki gildi jafnt um alla. Því er gríðarlega mikilvægt og um það er algjör samstaða í hv. fjárlaganefnd að þessu verði komið í mun fastara form en verið hefur. Það er algjörlega óþolandi að sumir forstöðumenn stofnana þurfi að fara í erfiðar aðgerðir og laga til í sínum rekstri á meðan aðrir sinna ekki slíkum aðgerðum en fá síðan að flytja á milli ára og gera alls konar hundakúnstir. Það er óþolandi. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að þessu verði komið í betra horf.

Hvað varðar Landspítalann lá það fyrir og ég sagði í ræðu minni að við bentum á þetta trekk í trekk. Ég hélt margar ræður um þessi mál í fyrra og benti oft á þetta með Landspítalann. Við sögðum: Fjárlögin 2010 eru ekki raunhæf. (Forseti hringir.) Það var ekkert hlustað á það. Síðan er brugðist við á miðju ári 2010 og ég geri svo sem ekkert athugasemdir við það að Landspítalanum (Forseti hringir.) sé hjálpað. En af því að ég á sæti í fjárlaganefnd þá geri ég mjög alvarlegar athugasemdir við að þurfa að lesa um það í blöðunum (Forseti hringir.) að búið sé að taka þessa ákvörðun af heilbrigðisráðherra án þess að hún hafi verið svo mikið sem borin undir fjárlaganefnd.