139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:27]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárlög næsta árs. Sumir hafa kallað þau hrunfjárlög og þar á meðal hæstv. fjármálaráðherra sjálfur. Við ræðum þau við einkennilegar aðstæður. Þau ættu kannski frekar að heita taktfjárlög eða eitthvað svoleiðis. Ég hef sjálfur efasemdir um að þessi fjárlög komist nokkurn tímann til framkvæmda og það væri að margra mati ekki versta niðurstaðan. Ég hef alltaf talað um — eða í hitt skiptið sem ég talaði um fjárlög talaði ég um að hlutskipti fjármálaráðherra við þessar aðstæður væri ekki öfundsvert og þetta væri eitthvert það erfiðasta starf sem hægt væri að takast á við aðstæður eins og nú eru, hvaða aðferðafræði og hugmyndafræði sem menn nota til að styðjast við, vegna þess þrönga stakks sem fjármál ríkissjóðs eru í og vegna þess samnings sem ríkisstjórnin hefur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Afstaða Hreyfingarinnar til fjárlaga byggist fyrst og fremst á því sem stendur í stefnuskrá Hreyfingarinnar um það að við höfnum því að skuldum vegna bankahrunsins sé velt yfir á almenning í landinu, og þetta eru önnur fjárlögin í röð þar sem það er gert. Það er verið að raungera þetta hrun með því að hækka skatta og skera niður þjónustu við almenning í landinu. Og við höfum alla tíð haldið því fram að hægt væri að sækja þessa peninga með meira afgerandi hætti í vasa þeirra sem ollu hruninu. Að upplaginu til höfnum við því aðferð ríkisstjórnarinnar við fjárlagagerðina, þ.e. hvernig hún nær í auknar tekjur og hvernig hún sker niður.

Það er vitað mál að innan þess ramma sem fjármálaráðherra hefur sett sér varðandi þessi fjárlög er stakkur mjög þröngt sniðinn. Að okkar mati er niðurskurður í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum allt of mikill. Minna er skorið niður í mörgum öðrum málaflokkum en efni standa til, en sá niðurskurður sem gert er ráð fyrir í þessum þremur málaflokkum er of mikill. Þetta eru þær grunnstoðir samfélagsins sem við verðum að halda gangandi. Margir þingmenn og ráðherrar skarta bleikum slaufum á jakkaboðungum sínum þessa dagana. Afleiðingar þessara fjárlaga eru meðal annars þær að þeir færu læknar sem við höfum hér eru að flytjast úr landi vegna kjaraskerðingar og niðurskurðar í heilbrigðismálum. Það má ekki gerast að við fórnum of miklu í þeim efnum. Það einfaldlega má ekki gerast. Ég tel að verið sé að ganga allt of langt. Vissulega er svigrúm til hagræðingar. Sjálfur þekki ég til á Landspítalanum þar sem búið er að skera inn í merg. Vissulega er það hagræðing en mórallinn á vinnustaðnum er farinn út um gluggann. Landspítalinn, sem á að vera staður mannúðar og umhyggju, er orðinn staður örvæntingarfulls starfsfólks. Það er ekki góð staða að vera í með sjúkrahús.

Hvað varðar þau sjúkrahús á landsbyggðinni sem mönnum verður tíðrætt um þá skil ég mætavel þau sjónarmið sem komið hafa fram um niðurskurðinn þar. Ég vil aftur á móti aðeins taka þátt í þeirri umræðu á þeim forsendum að það er ekki þörf fyrir fullmannaðar, fullbúnar, skurðstofur á vöktum og bakvöktum allan sólarhringinn þegar klukkutími eða tveir eru á næsta stóra sjúkrahús. Með fullri virðingu fyrir því fólki sem starfar á umræddum stöðum og þeirri blóðtöku sem það yrði fyrir sveitarfélagið ef þessi starfsemi legðist af þá er sjúkrahúsrekstur ekki atvinnubótavinna og má ekki líta á hana sem atvinnubótavinnu. Sjúkrahúsrekstur er einfaldlega brýn þjóðfélagsleg nauðsyn sem er mjög dýr og þarf að vera mjög vel skipulagður til að fjármunirnir sem fara í hann séu vel nýttir.

Þetta á líka við um hin svokölluðu kragasjúkrahús. Það eru þrjú sjúkrahús hér í nágrenni höfuðborgarinnar, á Akranesi, Selfossi og í Keflavík, sem eru með fullbúnar skurðstofur, mannaðar vaktir, að ég veit best, allan sólarhringinn. Það getur verið þörf á því í ákveðnum tilvikum en að öllu jöfnu er það einfaldlega, miðað við þá nýtingu sem er á slíkum stofnunum, óhagkvæmt.

Það býr aftur á móti til önnur vandamál ef þessu fólki er sagt upp. Það lækkar í launum, jafnvel um hundruð þúsunda á mánuði, og það flytur úr byggðarlaginu og jafnvel úr landi. Það er blóðtaka sem við megum heldur ekki við. Þannig að það er vandratað í þessum heimi. En það eru sjónarmið sem hægt er að færa góð og gild rök fyrir varðandi hagræðingu í þessum geira þó að vissulega megi ekki ganga of langt.

Ég hef sjálfur, frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram, ekki haft nægilegan tíma til að leggjast yfir einstaka afmarkaða þætti þess. Það hefur ýmislegt gengið á í samfélaginu frá 1. október, þegar við fengum fyrst kynningu á frumvarpinu, og það tekur talsverðan tíma að setja sig inn í fjárlagafrumvarpið. Ég mun því ekki halda sérstaklega langa ræðu um þetta mál að öðru leyti en því að áhugavert verður að fá þetta til fjárlaganefndar og ég vona að fjárlaganefnd nái að fjalla um þetta með rökrænum hætti. Við höfum fengið nýjan formann fjárlaganefndar, Oddnýju Harðardóttur. Hún er annar kennarinn og skólastjórinn í röð sem stýrir fjárlaganefnd og það er gott því bæði hún og Guðbjartur Hannesson, fyrrverandi formaður, eru mjög leikin úr starfi sínu að vinna með börnum — (KÞJ: Það er ekki búið að halda fund í nefndinni.) Nei, en þau þekkja það vel að vinna með öðru fólki og að starfa með börnum og það kemur sér vel þegar kemur að fjárlaganefndarvinnunni.

Í þessu fjárlagafrumvarpi, eins og í hinu síðasta sem ég kom að, er mjög mikið af smáum atriðum sem ég tel að einfaldlega mætti afnema og ætti ekki að vera á forsvari ríkisins að sinna. Það er eitthvað sem ég mun halda áfram að beita mér fyrir. Það liggur fyrir vinna í fjárlaganefnd um að sameina marga af hinum svokölluðu safnliðum undir faglegra formerki og ég fagna því ef áframhald verður á þeirri vinnu.

Annað sem ég vildi gjarnan koma inn á er það sem hv. fjármálaráðherra sagði um um þjóðhagsspána. Vissulega er þetta eitt af þeim grundvallaratriðum sem þurfa að vera vönduð og til staðar varðandi fjárlagagerðina. Ekki er hægt að fara af stað með fjárlög án þess að fyrir liggi vel ígrunduð og vel unnin þjóðhagsspá. Eins og fram kemur í þeim tillögum þingmannanefndarinnar um niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis hefur verið samþykkt þingsályktunartillaga um að sett verði á fót ný Þjóðhagsstofnun. Vonandi að mestum parti á þeim faglega grunni sem fyrri Þjóðhagsstofnun starfaði á, hún starfaði mjög faglega og innti af hendi mjög vandaða vinnu. Þó að umfangið verði kannski ekki nákvæmlega það sama er þetta starf fyrir mjög fært fólk með mikla reynslu. Það þarf að vanda sig þegar sú stofnun verður sett á fót.

Ég vildi tæpa á öðru, sem ég hef talað um áður, varðandi skuldir ríkissjóðs, en það er að Lánasýsla ríkisins var lögð niður fyrir nokkrum árum á villandi forsendum af hálfu fjármálaráðherra þess tíma. Skilvirk og fagleg Lánasýsla ríkisins er eitt af grundvallarskilyrðum fyrir því að lánshæfismat ríkisins hífist upp. Ísland er annað tveggja OECD-ríkja sem er með lánamál ríkisins inni í Seðlabankanum, hitt landið er Danmörk. Danmörk er notað sem dæmi um hvernig hlutunum á ekki að vera fyrir komið varðandi lánamál ríkisins.

Að endingu langar mig að vekja athygli á einu atriði sem skiptir Alþingi sjálft mjög miklu máli, en það eru þær niðurskurðartillögur í fjárlagafrumvarpinu sem eru lagðar til fyrir Alþingi, ef ég man rétt um 130 millj. kr. Forsætisnefnd hefur tvisvar fjallað um þessar niðurskurðartillögur og hafnað þeim og sent bréf til fjármálaráðherra þar að lútandi að þessar niðurskurðartillögur þurfi að taka til endurskoðunar. Það virðist ekki hafa verið gert og tel ég einboðið að skora á forseta Alþingis og forsætisnefnd Alþingis að taka mjög afgerandi afstöðu gegn þessum niðurskurði. Nú er ekki rétti tíminn til að veikja Alþingi sjálft. Ef eitthvað er þarf að styrkja það. Þær niðurskurðartillögur sem lagðar eru fram hér vegna Alþingis eru algerlega óásættanlegar.

Ég mun ekki hafa mikið fleiri orð um fjárlagafrumvarpið. Eins og ég sagði áðan hef ég ekki haft nægan tíma til að kynna mér það rækilega en mun gera það á næstu dögum og svo þegar það kemur til fjárlaganefndar. Ég lýsi einfaldlega yfir þeirri skoðun minni að þó að ég telji að nálgun ríkisstjórnarinnar við þessi fjárlög sé röng mun ég engu að síður taka þátt í þeirri vinnu sem þarf til að reyna að koma þó einhverju betra lagi á frumvarpið.