139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[17:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérstök tilfinning að standa hér og ræða það fjárlagafrumvarp sem hér hefur verið lagt fram og mælt fyrir með fjölda fólks fyrir utan þinghúsið að mótmæla aðgerðaleysi gagnvart heimilum og skuldamálum þeirra. Við ræðum fjárlagafrumvarp sem er hreinlega, að mínu viti, og ég ætla að lofa mér að nota þau orð, „samfélagslegt áfall“ fyrir landsbyggðina. Ég ætla að hafa þessa ræðu mína hér landsbyggðarmiðaða vegna þess að mér sýnist að farið sé sérstaklega hart fram gegn fólki þar.

Það er alveg ljóst, frú forseti, að líf og hagur fólks, alls staðar á landinu vitanlega, en ekki síst á landsbyggðinni, er í húfi þegar vegið er að samfélagslegum stoðum, undirstöðum, sem fólk byggir líf sitt á. Því miður sýnist mér að í þessu fjárlagafrumvarpi sé verið að ganga harkalega fram gegn áratugabaráttu landsbyggðarinnar fyrir jöfnum lífsskilyrðum á við það sem gerist í þéttbýli, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu.

Árum saman hefur verið barist fyrir sambærilegri þjónustu, samgöngum, heilbrigðisþjónustu, í menntamálum og öðru slíku, en nú á að stíga skref marga tugi ára aftur í tímann. Gjarnan er talað um að þessi fjárlög séu hrunfjárlög, að verið sé að fara stutt aftur í tímann, hverfa til ársins 2003 eða eitthvað slíkt. En það er ekki þannig. Fyrir landsbyggðina er víða verið að fara marga tugi ára aftur í tímann varðandi þjónustu, opinber störf, sem menn hafa barist fyrir lengi.

Ég ætla þó í upphafi að nefna einn lið sem skiptir miklu máli, sem er niðurgreiðslur vegna húshitunar, niðurgreiðslur á raforku. Í frumvarpinu er lagt til að skerða eigi þessar niðurgreiðslur um tæpar 190 millj. kr. Þetta er ekkert annað en lífskjaraskerðing fyrir þá sem þurfa á þessum greiðslum að halda. Þetta mun leiða til hækkunar á raforkuverði, meiri en áður hefur verið. Þetta takmarkar einnig líkurnar á að farið verði í hitaveituframkvæmdir og framkvæmdir sem miða að því að bæta hag og jafna aðstöðu íbúanna. Við vitum það sem búum við heitt vatn hversu miklu þetta skiptir, og þetta er stórmál. Þetta er kannski ekki jafnstórt mál og það að heimili þúsunda Íslendinga séu að fara á uppboð eða að fólk eigi ekki fyrir salti í grautinn, en þetta er samt stórt mál fyrir mjög marga.

Frú forseti. Sumt í þessu frumvarpi er algjörlega óraunhæft og ljóst að í mörgum tilfellum var ekki haft nokkurt einasta samráð við stjórnendur stofnana eða þá sem koma að málum þar sem skera á niður. Því miður virðist vera að þau fyrirheit sem fyrrverandi heilbrigðisráðherra, svo að dæmi sé tekið, hafi gefið séu hreinlega svikin.

Frú forseti. Það er mjög sérkennilegt að sjá t.d. að krafa sem gerð er á heilbrigðisstofnun Vestfirðinga er rúm 18% eða 185 millj. kr. Og þannig er að þó að skurð- og slysadeild, fæðingardeild, endurhæfingardeild, rannsóknum og röntgen sé lokað vantar samt 14 millj. kr. til að ná þessum kröfum sem gerðar eru á stofnunina í frumvarpinu. Þetta er hreinlega galið.

Ef við horfum á Blönduós og heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki er hreint með ólíkindum að sjá hvernig vegið er að þeim stofnunum. Á Sauðárkróki er verið að tala um niðurskurð sem mun þýða fækkun starfa upp á 35–40%. Hvaða áhrif heldur fólk að þetta hafi fyrir utan þessa stofnun? Það er í raun verið að segja að þarna eigi að loka sjúkrasviðinu. Það er það sem mun gerast. En dettur fólki virkilega í hug að þetta hafi engin önnur samfélagsleg áhrif? Á bak við hvert einasta starf er fjöldi fólks. Hjúkrunarfræðingur sem missir starf sitt fær ekki vinnu við sitt hæfi annars staðar en á þessari stofnun. Hvað gerir hann? Hann leitar vitanlega í burtu. Þá tekur hann fjölskylduna með. Það getur verið að það sé lykilstarfsmaður, maki þessa hjúkrunarfræðings, sem fer þá líka úr samfélaginu. Þetta er keðjuverkandi, samfélagslegt áfall sem verið er að koma af stað, gangi þetta fram. Þetta er sorglegt. Maður hefði haldið að þetta yrði ekki lagt fram með þessum hætti, ekki síst vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafa heldur betur talað í aðra átt. Kostnaður mun ekki hverfa þó að 35 eða 40 störf séu tekin af stofnun eins og á Blönduósi svo að eitthvað sé nefnt. Hann mun ekki hverfa. Kostnaðurinn færist bara annað, hann færist að mestu leyti á sjúklingana og þá sem þurfa á þjónustunni að halda. Og hugsið ykkur að í allri þeirri umræðu sem hér er um jafnrétti og kynjaða hagstjórn þá eru það meira og minna kvennastörf sem eru í húfi á þessum stofnunum. Ríkisstjórnin gumar af kynjaðri hagstjórn og þetta eiga að vera viðmiðin og leiðarljósið í gegnum þetta vitleysisfjárlagafrumvarp. Það er með ólíkindum að farið sé fram með þessum hætti og sýnir tvískinnunginn í þessu.

Fjárlagafrumvarpið eins og það er lagt fram er aðför að fólki úti á landi. Það mun hafa gríðarlega miklar afleiðingar fyrir búsetu, fyrir fasteignaverð, fyrir framboð á vöru og þjónustu og öðru slíku. Og þetta má ekki ná fram að ganga. Við heyrum þegar í dag, þrátt fyrir að frumvarpið sé nýkomið fram, að óvissan sem hefur skapast um framtíð þessa fólks hefur þegar áhrif á það. Fólk er farið að velta fyrir sér hvernig það og hvort það geti gert einhver framtíðarplön? En það er því miður ekki hægt.

Það er sorglegt að segja það, en það tengist því sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, að gangi frumvarpið eftir má búast við að það þýði um 60–70 færri störf opinber störf á Norðurlandi vestra svo að dæmi sé tekið. Það er með ólíkindum að þetta skuli lagt fram með þessum hætti.

Frú forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta eru gríðarlega stór mál. Og það er gríðarlega alvarlegt þegar farið er fram með þessum hætti. Ekki er einungis vegið að undirstöðunum í samfélögunum, sem eru heilbrigðisstofnanirnar, sem er þjónustan við fólkið, heldur eru margir aðrir þættir, mörg önnur störf, í húfi líka. Ég trúi því ekki að við þingmenn látum það viðgangast að áratugabarátta fyrir opinberum störfum úti á landi, að halda mannsæmandi þjónustu og sambærilegri þjónustu og lífskjörum á við höfuðborgarsvæðið og þéttbýlið, verði látin fara út um gluggann í einni svipan.

Útlit er fyrir að 70% af öllum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu eigi að koma af landsbyggðinni. Hvaða skilaboð eru það frá núverandi ríkisstjórn? Hvaða skilaboð eru það frá ráðherrum sem hvað eftir annað hafa gumað af því að vera fulltrúar landsbyggðar eða fulltrúar þeirra sem minna mega sín? Það er mjög sérstakt.

Okkur barst í dag ályktun frá læknaráði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ofangreindar fjárlagatillögur virðast því lítt úthugsuð árás á heilbrigðisþjónustu sem stunduð hefur verið í dreifbýli á Íslandi hingað til og því miður engar faglegar forsendur settar fram um hvaða fyrirkomulag á að taka við.“

Þetta vitum við að á við á öðrum stöðum líka. Það hefur ekki verið rökstutt eða sýnt fram á hvernig ná eigi þeim sparnaði sem rætt er um, hvaðan eigi að taka hann. Útreikningar þeirra sem starfa við þetta sýna jafnvel að eingöngu er verið að flytja til kostnað. Þetta þarf ríkisstjórnin að svara fyrir og stjórnarmeirihlutinn á þeim vikum sem fram undan eru. Og við þurfum að sammælast um það, þingmenn, að breyta því fjárlagafrumvarpi sem hér er lagt fram til að koma í veg fyrir að heilu byggðarlögin fari tugi ára aftur í tímann.

Það er miklu hreinlegra að ganga hreint fram og segja við okkur sem búum á þessum stöðum að þjónustan verði ekki sú saman. Menn skuli bara venjast því að leggja á sig löng ferðalög yfir fjallvegi í alls konar veðri til að fá mannsæmandi þjónustu. Ráðherrar eiga þá að stíga fram og segja það ef þeir leggja frumvarpið fram. Eins og frumvarpið er lagt fram er um ekkert annað að ræða en aðför að lífskjörum fólks á landsbyggðinni.