139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:04]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt orðað hjá hv. þingmanni að það verða verulegar breytingar, öðruvísi er þetta ekki hægt. Það er rétt sem komið hefur fram að það bitnar á sjúkrasviðunum vegna þess að menn hafa reynt að forgangsraða til að tryggja að það verði ákveðin grunnþjónusta á hverju svæði og reynt að jafna það yfir landið en að halda þó enn öflugri þjónustu á tilgreindum stöðum, þ.e. á heilsugæslusjúkrahúsum eða sérstökum sjúkrahúsum.

Það er býsna athyglisverð umræðan um að verið sé að marka stefnu með fjárlögum vegna þess að það er ekkert nýtt í þeirri hugmynd sem farið er eftir burt séð frá því hversu hratt við förum í málin. Ég held að ég sé þriðji eða fjórði ráðherrann sem vinnur að þessum sömu breytingum. Málin hafa áður tekið breytingum í meðförum þingsins og við vitum svo sem ekki hver meðferðin verður þar. Það er ekki í höndum heilbrigðisráðherra að stækka rammann eftir að málið er komið inn í þingið en ég tók það fram áðan að við munum fara yfir allt og skoða hvernig það lítur út og þá er hugsanlegt að færa til. Ég hef varað þær stofnanir við sem eru með minnsta niðurskurðinn að þar megi búast við að fara þurfi í meiri niðurskurð til að jafna hann á milli svæða. Það er þá hluti af verkefninu sem ráðuneytið og þá þingið, fjárlaganefndin, verður að glíma við í framhaldinu.

Það er rétt sem komið hefur fram í umræðunni í dag að harkalegur niðurskurður hjá opinberum starfsmönnum mundi koma fram á árinu 2011 og ég veit að hv. þingmanni er kunnugt um það því að hann tók þátt í að gera þá áætlun árið 2008. Þá var reiknað með því að menn kæmu með niðurskurð sem mundi bitna á störfum árið 2011. Því miður er þetta þannig. Það getur vel verið að við getum fundið leiðir til að fjármagna okkur aðeins lengur án þess að fara í þær sársaukafullu aðgerðir. Það skal ekki standa á mér (Forseti hringir.) að fara þær leiðir hafi menn einhverjar tillögur um slíkt.