139. löggjafarþing — 4. fundur,  5. okt. 2010.

fjárlög 2011.

1. mál
[18:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég gagnrýndi m.a. eru vinnubrögðin. Það er ekkert samráð haft við þá sem eiga við að búa við þetta. Það er ekki farin sú leið að vinna með almennum hætti að stefnumótun um hvað hvert sjúkrahús eigi að fást við, hvert eigi að vera þjónustuumfangið á sjúkrahúsunum. Það gerist einfaldlega síðdegis 1. október að við fáum í hendurnar fjárlagafrumvarp þar sem tölurnar eru þannig að það blasir við öllum að gangi allt eftir sem fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir verða þessi sjúkrahús sem fyrir mesta högginu verða ekki svipur hjá sjón. Sjúkrahúsþjónustan þarna verður ekki svipur hjá sjón. 70% niðurskurður á sjúkrasviði eins og til að mynda á Sauðárkróki segir okkur að verið er að gera eðlisbreytingu á þessum sjúkrahúsum.

Hæstv. ráðherra orðaði þetta pent, hann sagði að verið væri að gera verulegar breytingar. Það er varla hægt að orða þetta mikið vægar. Ég vil hins vegar fagna því sem hæstv. ráðherra sagði. Hann sagði, sem rétt er, að við værum að marka stefnu með fjárlögunum en hann sagði jafnframt að hugsanlega mætti færa til fjármuni innan heilbrigðiskerfisins, innan þess ramma sem heilbrigðisráðuneytið hefur til að koma til móts við þau sjúkrahús, þær heilbrigðisstofnanir sem verða bersýnilega fyrir langmesta niðurskurðinum. Ég held að það kveiki þó alla vega vonartíru í brjóstum okkar sem höfum miklar áhyggjur af því sem verið er að gera á þessum stöðum. Ég efast ekki um vilja hæstv. ráðherra í þessum efnum og ég heiti á hann að vinna í þessum vanda, tryggja þessum sjúkrahúsum, þessum heilbrigðisstofnunum nægilega fjármuni til að þær verði ekki skornar svona rækilega niður í tvö ár. Það er ekki bara spurning um störf þessa fólks, það er fyrst og fremst spurning um þá þjónustu sem fólkið á þessum svæðum gerir kröfu (Forseti hringir.) til að standa jafnfætis fólki sem býr nær stóru sjúkrahúsunum í landinu.